Grein

Guðni Geir Jóhannesson.
Guðni Geir Jóhannesson.

Guðni Geir Jóhannesson | 05.07.2004 | 09:18Dylgjum og lygum svarað

Í ljósi nýjasta fréttaflutnings svæðisfjölmiðlanna hér vestra af málum sem varða almenningssamgöngur í Ísafjarðarbæ (og jafnframt í ljósi þess sem á undan er gengið á liðnum árum) tel ég mig knúinn til nokkurra andsvara. Raunar hefði það mátt gerast fyrr. Fréttaflutningur Svæðisútvarps Vestfjarða og fréttavefjarins bb.is af þessum málum hefur verið einhliða og með ólíkindum. Dylgjur og ásakanir tiltekins manns eru tuggðar upp án nokkurrar gagnrýni, að því best verður séð, og síðan bætt gráu ofan á svart með röngum upplýsingum án þess að heimilda eða heimildamanna sé getið. Rangt hefur verið farið með kostnaðartölur, hvort sem það er af ásetningi eða hroðvirkni. Hins vegar hafa þessir fjölmiðlar aldrei haft fyrir því að bera þessi mál undir mig eða mitt fyrirtæki eða leita eftir sjónarmiðum mínum. Þó er ég miðpunkturinn í því moldviðri sem rótað er upp öðru hverju.

Þess skal getið, að ég er bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Ísafjarðarbæ og formaður bæjarráðs. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynda meirihluta bæjarstjórnar en í minnihluta eru Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn. Fyrirtæki mitt og eiginkonu minnar, Ferðaþjónusta Margrétar og Guðna ehf. (FMG), annast almenningssamgöngur (akstur strætisvagna og skólaakstur) í Ísafjarðarbæ. Grundvöllur þeirra árása sem ég og fyrirtæki mitt hafa ítrekað orðið fyrir á opinberum vettvangi virðist vera sá, að völd mín séu slík, að bæjarfulltrúar allra flokka, jafnt í meirihluta sem minnihluta, nefndafólk jafnt í meirihluta og minnihluta, svo og ópólitískir starfsmenn Ísafjarðarbæjar, lúti mínum vilja í einu og öllu og taki hagsmuni mína og fyrirtækis míns fram yfir hagsmuni bæjarfélagsins sem þeir eiga að þjóna og standa vörð um. Þeir sem að þessum árásum standa virðast hins vegar telja sig réttborna samvisku Ísafjarðarbæjar og þess umkomna að taka bæjaryfirvöld í kennslustund.

Þetta er svo sem ekkert nýtt. Þegar Ísafjarðarbær gekk til samninga um almenningssamgöngur og skólaakstur við fyrirtæki mitt sumarið 2001 að loknu útboði byrjaði gerningaveðrið af hálfu forsvarsmanns fyrirtækis sem hafði átt lægra boð en reyndist þegar til átti að taka ekki geta skilað inn nauðsynlegum gögnum sem tilskilin voru í útboði um að það gæti staðið við tilboð sitt. Í álitsgerð um tilboð þess fyrirtækis segir m.a.: „... ekki komu fram þær fjárhagslegu upplýsingar í gögnum Stjörnubíla ehf. er ótvírætt gáfu til kynna að fyrirtækið gæti staðið við og/eða fjármagnað þá þjónustu er felst í rekstri almenningsvagna í Ísafjarðarbæ – skólaakstri í Skutulsfirði. Engar upplýsingar lágu fyrir um eignastöðu fyrirtækisins eða upplýsingar um hvort og þá hvar það væri í bankaviðskiptum.“

Á þessum tíma voru á opinberum vettvangi gerðar atlögur að æru minni og heiðarleika bæjaryfirvalda, á svipaðan hátt og nú er gert.

Gengið var til samninga við fyrirtæki mitt á grundvelli útboðsins og tilboðsins og samningur gerður um almenningssamgöngur og skólaakstur í Ísafjarðarbæ. Gildistími hans er þrjú ár og fjórir mánuðir eða frá 1. september 2001 til ársloka 2004. Í honum er jafnframt heimild fyrir Ísafjarðarbæ að framlengja hann um eitt ár eða út næsta ár. Þetta framlengingarákvæði nýtti Ísafjarðarbær sér og var það staðfest með tilskildum sex mánaða fyrirvara á fundi bæjarráðs rétt fyrir síðustu mánaðamót eða hinn 28. júní. Í samningnum eru jafnframt ákvæði um heimild til endurskoðunar á honum á samningstímanum og þarf samþykki beggja samningsaðila til þess að gera breytingar á honum.

Moldviðrið rauk upp á ný þegar ferðaþjónusta fyrir fatlaða í Ísafjarðarbæ var boðin út á liðnum vetri. Lægsta tilboðið kom frá áðurnefnum Stjörnubílum en það næstlægsta frá fyrirtæki því sem ég veiti forstöðu, Ferðaþjónustu Margrétar og Guðna ehf. Þá hafði ég og fyrirtæki mitt annast þessa þjónustu um níu ára skeið og sinnt henni með ágætum, eftir því sem ég best veit. Fjallað var um tilboðin á fundi félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar 19. febrúar sl. og eftirfarandi bókað með samhljóða samþykki allra í nefndinni:

„Tekin fyrir bréf frá Sigurði Mar Óskarssyni, bæjartæknifræðingi, vegna tilboða í útboðsverkið „ferðaþjónusta fatlaðra 2004“, samanburðarupplýsingar við önnur sveitarfélög um kostnaðarlið félagsþjónusta vegna ferðaþjónustu fatlaðra, punktar frá fundi með framkvæmdastjóra Stjörnubíla og greinargerð forstöðumanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar vegna ferðaþjónustu fatlaðra. Tvö lægstu tilboðin eru talin koma til greina. Með vísan til þeirra gagna sem aflað var frá lægstbjóðendum og að lítill munur er á upphæð tilboðanna eða u.þ.b. kr. 27.345 á mánuði mælir nefndin með því við bæjarstjórn að tilboði Ferðaþjónustu Margrétar og Guðna ehf. verði tekið. Að mati nefndarinnar vegur faglegur ávinningur sem hlýst af því að taka tilboði FMG mun þyngra en fjárhagslegur ávinningur af því að taka lægsta tilboði og er þar horft til þess hve notendur þjónustunnar eru almennt viðkvæmir fyrir breytingum á henni.“

Í framhaldi af því fári sem greip um sig út af þessari einróma niðurstöðu dró fyrirtæki mitt tilboð sitt til baka. Ég hef ekki litið svo á að akstur fyrir bæjarsjóð sé neitt eyrnamerktur mér. Samið var við Stjörnubíla um þjónustuna. Ég óska fyrirtækinu og skjólstæðingum þess velfarnaðar en leyfi mér jafnframt að efast um burði Stjörnubíla, bæði fjárhagslega og á annan hátt, til þess að rækja þjónustuna eins vel og ég og fyrirtæki mitt gerði hátt í áratug. Þess má geta, að ég hef aldarfjórðungs reynslu í bílaútgerð og tel mig hafa nokkra þekkingu á þessum málum.

Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn og bæjarráði og nefndum Ísafjarðarbæjar hafa alla tíð veitt meirihlutanum aðhald, gagnrýnt ýmsar ákvarðanir hans og greitt atkvæði á móti þeim. Slíkt er eðlilegt hlutverk minnihluta og honum er bæði rétt og skylt að rækja það hlutverk af festu. Hins vegar hafa fulltrúar minnihlutans ekki vænt mig um óheiðarleika í samskiptum fyrirtækis míns við bæinn eða látið í ljós að þjónustan hafi verið slæm eða of dýru verði keypt. Aldrei hefur verið neinn pólitískur ágreiningur um akstursmál í samningum milli mín og bæjarins. Aldrei hafa komið fram neinar ásakanir varðandi þau efni frá pólitískum andstæðingum í bæjarráði eða bæjarstjórn heldur hafa þau verið afgreidd ágreiningslaust eins og hver önnur mál milli bæjarins og verktaka.

Í félagsmálanefnd var alger samstaða um að taka tilboði Ferðaþjónustu Margrétar og Guðna ehf. á þeirri forsendu, að skjólstæðingarnir væru viðkvæmir fyrir miklum breytingum. Þetta var einfaldlega mat nefndarinnar og ég hafði engin áhrif á það. Mér finnst rétt að það komi fram, að mér var alla tíð uppálagt, þau níu ár sem ég annaðist akstur með fatlaða og þjónustu við þá, að sem allra minnstar breytingar og minnst röskun yrðu á tilhöguninni, helst að alltaf væri sami maðurinn sem annaðist þetta. Lengst af annaðist ég sjálfur aksturinn og þjónustuna nema þegar ég tók mér eðlileg frí. Mér finnst einnig rétt að fram komi, að gefnu tilefni, að þjónustan felst ekki í bifreiðaakstri einum saman. Hún felst einnig í mannlegum samskiptum og sá þáttur er ekki veigalítill.

Nú stendur gerningaveðrið yfir í þriðja sinn. Enn blæs úr sömu átt með dylgjum og skítkasti. Í óvenjulega langri og ítarlegri frétt á bb.is hinn 30. júní er forsvarsmanni Stjörnubíla enn einu sinni gefinn laus taumurinn og segir þar m.a.: Aðspurður til hvaða ráða fyrirtæki hans gæti gripið sagði Trausti að það yrði skoðað á næstu dögum. „Það er auðvitað mjög undarleg staða sem við erum í. Sveitarfélögin tala um að tekjur dugi ekki fyrir útgjöldum og auka þurfi við tekjustofna þeirra. Þetta mál sýnir hinsvegar að hér á Ísafirði er í það minnsta ekki áhugi á að spara peninga. Mér þykir gengið æði frjálslega um í þessu sambandi. Menn verða að átta sig á því að bæjarsjóður er sameiginlegur sjóður allra bæjarbúa en ekki einkafyrirtæki bæjarfulltrúa.“

Í framhaldi af þessu kom eftirfarandi frétt í Svæðisútvarpi Vestfjarða að kvöldi 30. júní (hér skráð eftir upptöku sem fengin var hjá Svæðisútvarpinu):

„Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti á mánudag, að tillögu Þorleifs Pálssonar bæjarritara, að framlengja samning um almenningssamgöngur í Ísafjarðarbæ um eitt ár við núverandi verktaka, sem er Ferðaþjónusta Margrétar og Guðna. Þetta gerist þrátt fyrir að ekki náðist lækkun á þjónustunni í viðræðum við Ferðaþjónustuna. Í fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð fyrir minna fé til almenningssamgangna en verktakinn var ekki reiðubúinn að slá af þar sem fastakostnaður sé sá sami þótt ferðum verði fækkað eins og bæjarritari hefur lagt til. Því lagði hann til, bæjarritarinn, og bæjarráð samþykkti, að nýta sér heimild í samningi um aksturinn og framlengja hann um eitt ár. Fulltrúar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í bæjarráði samþykktu tillöguna en fulltrúi Framsóknarflokks, Guðni Geir Jóhannesson, vék af fundi á meðan þessi gjörningur fór fram. Sá sami Guðni er jafnframt annar aðaleigandi Ferðaþjónustu Margrétar og Guðna, sem framlenginguna varðaði. Trausti Ágústsson, framkvæmdastjóri Stjörnubíla á Ísafirði, gerir alvarlegar athugasemdir við framlenginguna á samningi þessum á BB-vefnum í dag og segir meðal annars, að bæjarsjóður sé ekki einkafyrirtæki bæjarfulltrúanna.“

Í þessari frétt Svæðisútvarps Vestfjarða er beinlínis farið með ósannindi. Rangt er að samningurinn hafi verið framlengdur „þrátt fyrir að ekki náðist lækkun á þjónustunni í viðræðum við Ferðaþjónustuna“. Rangt er að verktakinn (Ferðaþjónusta Margrétar og Guðna ehf.) hafi ekki verið „reiðubúinn að slá af“.

Hið rétta er, að samræðum hefur ekki verið slitið af minni hálfu og ég hef ekki fengið neina tilkynningu frá bæjaryfirvöldum um slíkt. Það skýtur skökku við, að hafi ég neitað öllum viðræðum, þá hafi bæjarritari stokkið til og ákveðið einhliða að framlengja samninginn við mig óbreyttan án nokkurs samkomulags. Þessar viðræður hafa að vísu staðið nokkuð lengi en það er allt opið í þessu máli. Ég eða mitt fyrirtæki höfum ekki á nokkurn hátt reynt að draga málið á langinn. Það hefur verið til vinnslu hjá bænum og ég hef beðið eftir því að þar fengist einhver niðurstaða. Bænum er samkvæmt samningnum heimilt að skerða þjónustuna ef hann vill. Hann getur ákveðið einhliða að fella niður ferðir og spara með þeim hætti. Ég get hvorki komið í veg fyrir slíkt né hef ég reynt að standa á móti því. Hitt er annað mál, að þegar menn tala um að lækka gjöld, eins og kílómetragjald, þá er það samningsatriði milli beggja aðila. Það sem ég hef í þeim umræðum farið fram á er að fá á móti að framlengja samninginn til þess að geta afskrifað bílakostinn á lengri tíma þegar tekjurnar minnka. Ég tel það eðlilegt og er ekki einn um slíkt.

Ég veit ekki til að það hafi komið fram opinberlega eða þótt fréttnæmt, að fyrirtæki mitt hefur veitt meiri þjónustu en tilskilið er í samningnum um almenningssamgöngur og skólaakstur, án greiðslu frá bæjarsjóði eða stofnunum hans eða frá farþegum eða neinum öðrum. Fljótlega byrjaði ég að breyta nokkrum atriðum í þá veru, meðal annars á þann hátt að öll skólabörn í bænum fá frítt í vagninn, alveg sama hvar þau búa. Í samningnum er ákvæði um að innan ákveðinna fjarlægðarmarka frá skólanum fái nemendur ekki far með vagninum nema að borga. Með þetta var óánægja meðal þeirra sem áttu hlut að máli og þess vegna aflétti ég því einhliða fyrir tveimur árum. Síðan hafa öll skólabörn fengið frítt í vagninn milli kl. 8 og 17 alla virka daga á skólatíma. Þetta er ekki í samningnum.

Grunnskólinn á Ísafirði hefur einnig notið góðs af því, að þegar krakkarnir hafa farið í vettvangsferðir á vorin hafa þeir mátt nota strætisvagnana frítt. Skólastjórinn hefur þakkað mér fyrir þetta enda er það sparnaður fyrir skólann. Leikskólarnir hafa átt kost á sömu þjónustu og hafa nýtt sér hana, bæði á Ísafirði og í Hnífsdal. Boltafélag Ísafjarðar hefur fengið frítt í strætisvagninn fyrir iðkendur í íþróttaskóla sínum. Þannig hefur eitt og annað komið bænum og bæjarbúum til góða, þótt ekkert sé um það í samningnum né heldur að bæjaryfirvöld, hinn samningsaðilinn, hafi farið fram á það.

Ég er seinþreyttur til vandræða. Það má meðal annars sjá á því, að ég hef ekki fyrr svarað því skítkasti sem ég hef orðið fyrir á opinberum vettvangi á liðnum árum varðandi akstur fyrir Ísafjarðarbæ. Hins vegar eiga fleiri en ég hlut að þessu máli. Öll bæjarstjórnin, allt bæjarráðið, nefndafólk bæði í meirihluta og minnihluta og starfsmenn bæjarins eiga samkvæmt framangreindum málflutningi að sitja og standa og afgreiða mál eftir mínum vilja. Gefið er í skyn að ég sé óheiðarlegur í starfi mínu sem bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs. Hið sama á að gilda um bæði pólitíska fulltrúa og almenna starfsmenn Ísafjarðarbæjar.

Halda menn virkilega að hlutirnir gangi fyrir sig með þessum hætti? Halda menn virkilega að ég gefi tilskipanir og allir framantaldir afgreiði hlutina eins og ég panti þá? Halda menn virkilega að ég hafi þau völd að ég geti valsað á skítugum skónum í bæjarsjóði og traðkað á hagsmunum bæjarfélagsins? Halda menn að ég myndi vilja slíkt? Halda menn að ég myndi vilja reyna slíkt?

Það eru ekki aðeins bæjaryfirvöld Ísafjarðarbæjar og ég sem liggja undir skítkasti og ásökunum um óheiðarleika. Fjölskylda mín hefur einnig orðið fyrir þessu aðkasti. Það hefur vissulega hvarflað að okkur, að hugsanlega væri betra að flytjast burt og finna sér vettvang annars staðar, í umhverfi sem er ekki beinlínis fjandsamlegt.

Ég skil ekki þær síendurteknu árásir og ósanngjörnu ásakanir sem stöðugt eru bornar á mig, fyrirtæki mitt og æru mína, sem og á bæjaryfirvöld og starfsmenn á bæjarskrifstofunum. Samsæriskenningarnar bera vitni um mikið hugmyndaflug. Mér finnst nánast eins og verið sé að gera mig að glæpamanni í augum almennings. Eins og áður segir hafa fjölmiðlarnir hér á svæðinu lapið upp gagnrýnislaust lygar og dylgjur og skítkast frá tilteknum mönnum án þess að hafa nokkru sinni haft samband við mig eða leitað eftir viðhorfum mínum. Þess vegna tek ég nú þann kost að reyna að koma sjónarmiðum mínum á framfæri á eigin spýtur. Ég hef ekki svarað þessu hingað til en núna finnst mér mælirinn einfaldlega fullur.

Guðni Geir Jóhannesson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi