Grein

Ólafur B. Halldórsson.
Ólafur B. Halldórsson.

Ólafur B. Halldórsson | 18.06.2004 | 11:53Verðskuldaður heiður

Það er tvívegis á ári hverju sem forseti Íslands heiðrar nokkra Íslendinga með riddarakrossi hinnar íslenzku fálkaorðu sem er táknræn viðurkenning fyrir að hafa á einhvern hátt skarað fram úr í lífi og starfi. Fáeinum Vestfirðingum hefur hlotnazt þessi heiður og svo var einnig í ár.

Ekki efast undirritaður um að þeir sem fylgzt hafa með Magnúsi Kr. Guðmundssyni á Tálknafirði sem flestir þekkja sem Magnús í Tungu eru því sammála að hann er verður þess heiðurs sem honum hefur nú hlotnazt. Magnús á að baki einstæðan feril sem skipstjóri, útvegsmaður, fiskverkandi og fiskeldisbóndi. Hann hóf sinn sjómannsferil níu ára gamall á skektunni Gyðu og fiskaði þá fyrir heimili foreldra sinna á Tálknafirði. Hann var skráður háseti í fyrsta sinn tólf ára gamall á vélbátinn Gylli BA-272. Árið 1947 tekur hann við skipstjórn þessa báts þá aðeins sautján ára. Hann stofnar fyrst til útgerðar árið 1954 um bátinn Freyju B.A-272.

Eldri sjómenn hér við Djúp muna þátt Magnúsar í síldarævintýri Íslendinga. Sumarið 1964 er hann skipstjóri á Jörundi III RE-300 á síld. Á þeirri vertíð landar hann stærsta farmi sem saltaður hefur verið upp úr einu skipi 1550 uppsöltuðum tunnum eða 2800 uppmældum tunnum. Það voru níutíu vaskar síldarstúlkur sem söltuðu þennan afla á sautján klukkustundum á síldarplaninu Borgum á Raufarhöfn.

Aflasæld Magnúsar og skipstjórnarhæfni er vel kunn hér á Vestfjörðum. Hann glímdi lengi við steinbítinn og á að baki margar metvertíðir og aflamet sem ekki hafa verið slegin. Auk línuveiða hefur hann náð frábærum árangri á dragnótar- og netaveiðum. Íhygli hans og hugvitsemi eru í dag að gagnast þeim sem línuveiðar stunda. Hann hannaði bæði dráttarkarl (sjálfdragara) og línubraut í báta sína. Útfærsla hans á dráttarkarlinum var framleidd í fjölda ára í vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri. Þessi uppfinning er enn í fullu gildi, en hugvitsmaðurinn hefur ekki þegið önnur laun en ánægjuna af að hafa unnið gott verk.

Árið 1975 stofnar fjölskylda Magnúsar fyrirtækið Þórsberg um útgerð og fiskvinnslu. Fyrirtækið sem hefur staðið fyrir öflugri fiskvinnslu og hefur saltað, fryst og hert sinn afla er löngu orðið viðurkennt í Miðjarðarhafslöndum fyrir afburða saltfisk. Það er í dag lang stærsti vinnuveitandi á Tálknafirði með yfir sextíu launþega.

Fiskeldi hefur lengi verið Magnúsi mikið áhugamál. Hann hóf tilraunir með klak, seiða- og frameldi á laxi fyrir um tveimur áratugum og nýtti m.a. tiltækan jarðhita á staðnum. Úr þessum tilraunum þróaðist um árabil öflugur útflutningur. Í dag hefur eldið þróast yfir í þorsk, bleikju og regnbogasilung. Afurðir úr reykhúsi Magnúsar má m.a. finna í Samkaupum á Ísafirði. Samhliða eldinu hefur Magnús beitt sér fyrir virkun vatnsaflsins í nágrenninu. Fyrir tveimur árum stofnar hann Tunguvirkjun með fjölskyldu sinni sem selur rafmagn til Orkubús Vestfjarða.

Enginn maður vinnur stórvirki einn og er þáttur eiginkonu Magnúsar, Jónu Sigurðardóttur, ekki hvað minnstur. Hún hefur alið manni sínum átta myndarleg börn og eru sjö þeirra starfandi í Tálknafirði. Má ætla að slíkt sé einsdæmi á stað sem telur innan við þrjú hundruð íbúa.

Það eru frumkvöðlar eins og Magnús í Tungu sem gera öðrum kleift að lifa og starfa í byggðum landsins. Heimabyggð hans hefur hefur notið hans óbilandi elju, vinnusemi og seiglu. Það er því mikið gleðiefni þegar þjóðfélagið beinir heiðri þangað sem hann á heima. Undirritaður vill þakka orðunefnd fyrir að mæla með viðurkenningu þessa heiðursmanns og forseta Íslands herra Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir að sæma Magnús Kr. Guðmundsson riddarakrossi hinnar íslenzku fálkaorðu. Um leið og þetta er persónuleg viðurkenning þá er þetta heiður fyrir fjölskyldu hans, alla Tálknfirðinga sem og aðra Vestfirðinga.

– Ólafur B. Halldórsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi