Grein

Halldór Jónsson.
Halldór Jónsson.

Halldór Jónsson | 11.06.2004 | 14:40Nokkur orð um fréttaflutning um ársreikning Ísafjarðarbæjar

Undanfarnar vikur hafa birst fréttir á bb.is af ársreikningum sveitarfélaga á Vestfjörðum jafnóðum og þeir hafa borist. Leitast hefur verið eftir því að skýra frá því helsta sem fram kemur í reikningum þessum og eftir því sem upplýsingar liggja fyrir um þróun mála í rekstri sveitarfélaganna á síðasta ári. Nákvæmlega sömu aðferðum hefur verið beitt við vinnslu allra fréttanna. Engar athugasemdir hafa komið frá umræddum sveitarfélögum eftir birtingu fréttanna nema að athugasemdir hafa komið fram í tvígang frá bæjarstjóranum á Ísafirði vegna umfjöllunar um ársreikning Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2003. Athugasemdir bæjarstjórans sem birtar voru á bb.is þann 3. júní eru þess eðlis að ekki verður hjá því komist að hafa um þær nokkur orð og útskýra fréttir bb.is af ársreikningi Ísafjarðarbæjar.

Þann 17. maí voru drög að ársreikningi bæjarins kynnt á fundi bæjarráðs. Þann sama dag birti bb.is frétt um málið. Í þeirri frétt kom meðal annars fram að halli hefði verið á rekstri bæjarsjóðs og skuldir hans hefðu aukist. Einnig var sagt frá helstu tekju- og gjaldaliðum reikningsins og þær tölur bornar saman við upphaflega fjárhagsáætlun og einnig endurskoðaða áætlun sem samþykkt var þann 13. nóvember. Í kjölfarið bárust athugasemdir frá bæjarstjóranum á Ísafirði og fullyrti hann í yfirlýsingu að upplýsingar í fréttinni væru „ekki í samræmi við þær upplýsingar sem bæjarstjóri hefur frá fjármálastjóra“. Einnig fullyrti hann við undirritaðan að skuldir bæjarsjóðs hefðu ekki aukist heldur þvert á móti lækkað.

Þann 1. júní var ársreikningurinn síðan lagður fyrir bæjarráð og í framhaldi af því var hann tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Í kjölfarið var gefin út fréttatilkynning um ársreikninginn sem hvergi hefur birst í fjölmiðlum. Því er rétt að geta hennar hér. Orðrétt segir í henni:„Heildarskuldir bæjarsjóðs og stofnana hans án lífeyrisskuldbindinga námu 2.941 millj.kr. í árslok 2003 borið saman við 2.981 millj.kr. í árslok 2002 og lækkuðu um 40 millj.kr. á milli ára.“ Þetta er rétt að því leyti að langtímaskuldir lækkuðu um þessa tölu. Hinsvegar er lesandinn þarna skilinn eftir með þá hugmynd að skuldastaða bæjarins hafi batnað. Það er fjarri sanni. Skuldir hafa hækkað sem hlutfall af efnahag bæjarins sem sýnir e.t.v. best mikilvægi þess að fjárhagsstærðir séu skoðaðar í samhengi hver við aðra.

Heildarskuldir bæjarins og stofnana hans að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum og að frádregnum veltufjármunum og langtímakröfum hækkuðu milli áranna 2002 og 2003 um 175 milljónir króna og voru 2.311 milljónir í árslok 2003. Það vekur einnig óneitanlega athygli að á þessa meintu skuldalækkun er ekki minnst í tilkynningu sem Ísafjarðarbær sendi til Kauphallar Íslands. Hvort þessi upphaflega fréttatilkynning hefur verið útbúin til þess að slá ryki í augu blaðamanna sem eiga erfitt með að setja sig inn í flókin fjármál sveitarfélaga, svo notuð séu orð bæjarstjórans, skal engu slegið föstu um.

Bæjarstjórinn á Ísafirði gerir athugasemdir við að í frétt bb.is skuli vera tekið mið af upphaflegri fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar en ekki áætlun sem samþykkt var 13. nóvember og því verði að setja fyrirvara við frétt bb.is. Í frétt bb.is er getið beggja áætlananna. Sú fyrri var eðli málsins samkvæmt samþykkt fyrri hluta árs og bar með sér þær áherslur og vonir sem stjórnendur bæjarins höfðu. Því er ofureðlilegt að tekið sé mið af henni í umfjöllun fjölmiðla og þannig sýnt hvernig þróun mála varð á árinu. Við hvaða áætlun er síðan miðað við í ársreikningi er allt annað mál. Ef vilji er til þess að láta áætlun og reikninga stemma er hægt að samþykkja nýja áætlun 31.desember þegar nánast allur kostnaður er kominn fram. Sú aðferð er auðvitað best til þess að hafa muninn á fjárhagsáætlun og ársreikningi sem minnstan en segir ekkert til um þróun rekstrarins á árinu. Það er hinsvegar skondið að þegar fréttin var unnin var einungis upprunalegu fjárhagsáætlun bæjarins að finna á heimasíðu bæjarins. Það segir meira en mörg orð.

Í ársreikningum koma fram miklar upplýsingar. Vonlaust er í stuttum fréttum að geta þeirra allra. Því er það auðvitað matsatriði hvað þar skal koma fram. Það sem einum finnst sjálfsagt finnst öðrum óþarfi. Það á auðvitað við um fréttir bb.is um ársreikning Ísafjarðarbæjar sem og annarra ársreikninga. Aðalatriðið er að útreikningar séu réttir og þannig hefur verið staðið að málum hingað til. Til þess að tryggja rétta umfjöllun hefur meðal annars verið leitað til löggiltra endurskoðenda vegna einstakra útreikninga.

Helsta hlutverk fjölmiðla er að segja fréttir af atburðum. Fréttamenn geta ekki og mega ekki breyta sögunni eftirá. Það er hlutverk skáldsagnahöfunda. Því verður að segja hlutina eins og þeir eru hverju sinni. Oft eru staðreyndir ekki í samræmi við vonir manna í upphafi. Hvernig menn bregðast við staðreyndum er hinsvegar misjafnt.

Að síðustu skal það ítrekað að ekkert í fréttum bb.is af ársreikningi Ísafjarðarbæjar hefur verið hrakið. Nú hafa gögn vegna ársreikninganna verið sett inn á heimasíðu bæjarins og því getur almenningur nú kynnt sér málið. Að síðustu þetta. Af ársreikningum sveitarfélaga sem birst hafa að undanförnu má ráða að erfitt sé að láta enda ná saman í rekstri þeirra. Það er vandamál sem kjörnir fulltrúar og embættismenn verða að bregðast við. Það verður best gert með því að viðurkenna vandamálið. Vonandi ber öllum sveitarfélögum í landinu gæfa til þess.

Halldór Jónsson
blaðamaður bb.is


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi