Grein

Þórir Örn Guðmundsson.
Þórir Örn Guðmundsson.

| 22.03.2000 | 09:42Vestfirsk skógrækt í þágu byggðar

Tilefni þessa skrifa minna er að vekja athygli lesenda á lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni sem Alþingi samþykkti sl. vor (lög nr. 56/1999) og þeim möguleikum sem lögin bjóða upp á. Þar segir í fyrstu grein:
,,Tilgangur laga þessara er að stuðla að ræktun fjölnytjaskóga og skjólbelta í landinu og verndun og umhirðu þess skóglendis sem fyrir er?.

Eftir að lögin höfðu verið samþykkt hófst vinna við að skilgreina hvernig landshlutaskiptingin ætti að vera. Var þá leitað til Skjólskóga, félag um umhverfisverkefni Í Dýrafirði og Önundarfirði, um að koma að þeirri vinnu. Var það vilji fulltrúa Skjólskóga að Vestfirðir yrðu sér landshlutaverkefni og gekk það eftir.

Héraðsskógar snéru við búsetuþróuninni

Þegar velt er fyrir sér hvaða möguleikar felast í svona verkefni leitar hugurinn ósjálfrátt austur á Hérað. Þar hefur síðan 1991 staðið yfir landshlutabundið skógræktarverkefni sem nefnt er ,,Héraðsskógar?. Óhætt er að fullyrða að Héraðsskógaverkefnið hefur gjörbreytt byggðaþróun í gömlu sveitahreppunum í Fljótsdal og nágrenni. Með tilkomu Héraðsskóga varð ásókn í jarðnæði og eldra fólk sem hætta vildi búskap og bregða búi, gat selt jarðir sínar til fólks sem vildi byrja búskap með skógrækt sem hlutastarf en jafnframt stunda vinnu utan búanna. Jarðir, sem lengi höfðu verið í eyði, hafa aftur byggst og verið hýstar upp. Það er eftirtektarvert að ungt fólk hefur flutt úr þéttbýli út í sveitirnar til að taka þátt í verkefninu.

Gömlu hrepparnir í Fljótsdal eru einu sveitahrepparnir þar sem átt hefur sér stað fjölgun til sveita á öllu landinu. Þess skal getið að þessir sömu hreppar voru einna verst settir byggðalega séð á öllu landinu áður en Héraðsskógaverkefnið hófst. Vegna riðu hafði á mörgum bæjum þurft að skera sauðfé niður og sumstaðar oftar en einu sinni.

Hverjir geta orðið þátttakendur?

Hverjir geta orðið þátttakendur er líklega sú spurning sem fyrst vaknar.

Því er til að svara að þátttakendur geta allir þeir orðið sem eiga eða ráða yfir lögbýlum og tilbúnir eru að taka hluta af landi jarðanna undir skógrækt hvort heldur sem um eigendur, ábúendur eða félagasamtök er að ræða.

Eða eins og m.a. kveður á í 4. gr laganna: ,,Gera skal samning sem landbúnaðarráðherra staðfestir við hvern og einn þátttakanda verkefnis og þinglýsa þeim á viðkomandi jörð. Samningar skulu taka til afmarkaðs lands sem tekið er til ræktunar í hverju tilviki og kveðið á um kostnaðarþátttöku ríkisins, hlutdeild ríkissjóðs í væntanlegum afrakstri og annað sem þurfa þykir?.

Unnt að skapa sér tekjur

Er raunhæft að velta fyrir sér þátttöku í svona verkefni? Hverjar eru skuldbindingar samfara því? Getur svona verkefni gefið einhvað af sér fyrir þá sem þátt taka í því? Þetta eru mjög svo eðlilegar spurningar og það er mín skoðun að það sé skynsamlegt fyrir þá sem hafa yfir jarðnæði að ráða að íhuga mjög vel hvort þátttaka í svona verkefni henti þeim ekki vel. Vissulega eru skuldbindingar lagðar á þátttakendur svo sem með friðun þess lands sem tekið er undir ræktunina, með viðhaldi á girðingum og umsjón. Í þeim samningi sem gerður er, er kveðið á um greiðslur fyrir hverja plöntu sem gróðursett er og einnig um greiðslu fyrir áburðargjöf. Í dag er greiðsla fyrir hverja plöntu 7 krónur og 2 fyrir umsjón og áburðargjöf eða alls um 9 krónur á plöntuna. Algengt er að einstaklingur setji niður og beri á um 500 plöntur á dag. Því er ljóst að hægt er að skapa sér talsverðar tekjur með gróðursetningu.

Ef ábati verður þegar nytjar skógarins hefjast, er kveðið á um ákveðið hlutfall endurgreiðslu til ríkisins.

Skógrækt er byggðaverkefni

Hvað kemur til og hvernig er það hægt að hrinda í framkvæmd landshlutabundnu skógræktarverkefni á Vestfjörðum?

Því er til að svara að í byggðaáætlun sem forsætisráðherra lagði fram og Alþingi samþykkti er kveðið á um fjárveitingar til ýmissa verkefna sem efla eiga byggð um land allt. Skógrækt er tvímælalaust byggðaverkefni sem mun styrkja búsetu á þeim svæðum sem hún er stunduð á og auka fjölbreytni í atvinnumálum sem er mjög brýnt á Vestfjörðum.

17 milljónir af fjárlögum


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi