Grein

Sigurður Pétursson.
Sigurður Pétursson.

Sigurður Pétursson | 08.06.2004 | 16:11Þeir hjálpuðu til við að loka síðustu lúgunni

Í gærkvöld læddist inn um bréfalúguna hjá mér sakleysislegur pappír skreyttur grænum lit. Þarna reyndist vera á ferðinni gamli Ísfirðingur, blaðið sem Hjörtur afi minn hélt mikið uppá meðan hann var og hét. Hugði ég nú gott til glóðarinnar og fannst stundin rétt, hér inni í Móholtinu á gömlu sléttunum hans afa, við hliðina á nýbornum ánum á Góustaðatúninu, til að sökkva mér niður í gamla málgagnið þeirra Sigga Sveins og Hjartar afa , Jóns skattstjóra og Halldórs á Kirkjubóli. Þetta vakti upp tilfinningu um löngu liðinn tíma, þegar Skutulsfjörðurinn var sveit, Framsóknarmenn voru baráttumenn sveitanna og landsbyggðarinnar og Óli Jó og Steingrímur brostu til vinstri.

Þessar hugljúfu minningar hurfu eins fugl af steini, þegar ég fór að fletta þessu nýja blaði þeirra vestfirsku framsóknarmanna. Hvað var ekki komið hér? Blað, sem átti að heita sjómannadagsblað Ísfirðings, en var þegar betur var að gætt, réttlæting sitjandi þingmanns Framsóknarflokksins á Vestfjörðum, fyrir hringsnúningi sínum í málefnum smábáta, og hversvegna hann, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar og heitstrengingar ákvað að venda kvæði sínu í kross og samþykkja að setja alla smábáta inní kvótakerfið. Það þurfti næstum hálft blaðið til að rökstyðja viðsnúninginn. Samt var eins og beiskt eftirbragðið sæti fast í munninum eftir lesturinn, eins og eftir úrsérvaxna radísu að hausti. Hvernig geta menn sem kosnir eru fulltrúar fólksins hér á Vestfjörðum hjálpað til við að innsigla óréttlátt og heimskulegt fiskveiðikerfi?

Ekki svo að skilja að framsóknarmaðurinn hafi verið einn um þann gjörning. Allir þrír þingmenn stjórnarflokkanna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, allir með tölu, munu hafa snúist í málinu frá því í síðustu kosningum. Þó er ekki nema eitt ár síðan þær fóru fram, og enn styttra síðan þeir stóðu allir hér í Íþróttahúsinu á Torfnesi og sóru þess dýran eið að verja dagakerfi smábátanna. Allir sem einn. Það er greinilegt að sumir eru fljótir að gleyma, þegar þeir eru komnir í nálægð við valdastólana í Reykjavík. Sumir virðast jafnvel hafa snúist marga hringi kringum sjálfa sig í þessum málum, eins og skopparakringlur. Og hvaða hönd er það sem snýr kringlunni. Það skyldi þó ekki vera höndin bláa; greip útgerðarfurstanna, kvótaeigendanna og handhafa fiskimiðanna?

Á einni viku í lok maí snerust þessir þrír Vestfjarðaþingmenn frá síðustu andstöðu við kvótakerfið og innsigluðu undanhald sitt og undanslátt á undanförnum árum fyrir hinum harða valdakjarna kvótakónganna sem stýrt hefur stjórnarflokkunum. Þessir þrír menn hefðu getað stöðvað málið. Þeir völdu þess í stað að ganga í björgin. Með því að samþykkja að loka síðustu glufunni á kvótakerfinu, dagakerfi smábátanna, hjálpuðu þeir kvótagreifunum í landinu að skella síðustu opnu lúgunni í lás og gott ef þeir voru ekki látnir gleypa lykilinn í leiðinni til að tryggja ævarandi yfirráð forréttindahópsins yfir auðlindum þjóðarinnar. Þetta gerðu þeir við atkvæðagreiðslu á Alþingi þann 28. maí klukkan klukkan fimm mínútur gengin í níu, samkvæmt vefsíðu Alþingis Íslendinga. Sannarlega sorgleg stund fyrir Vestfirðinga.

Daginn eftir útskrifuðust 53 efnileg ungmenni frá Menntaskólanum á Ísafirði. Það voru ekki uppörvandi skilaboð sem fulltrúar þeirra sendu yfir flóa og fjöll hingað norður á firði þann dag. En baráttan fyrir framtíð unga fólksins, framtíð Vestfjarða og landsins alls heldur áfram.

Blaðið Ísfirðingur lenti afturámóti í ruslafötunni.

Sigurður Pétursson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi