Grein

Rúnar Sigtr. Magnússon.
Rúnar Sigtr. Magnússon.

| 12.06.2001 | 16:28Til Vestfirðinga

Um leið og ég óska ykkur alls hins besta með þá ákvörðun ráðherra sjávarútvegsmála að gefa steinbítinn frjálsan á komandi fiskveiðiári, vil ég jafnframt deila með ykkur nokkrum áhyggjum. Ég efast ekki um að margir ykkar horfi björtum augum til næsta steinbítstímabils því ekki gekk ykkur sem verst á því liðna. Ég minnist þess að ein af þeim ástæðum, sem ykkur var tíðrætt um hve vel ykkur gekk, var að engir togarar og stór línuskip voru á miðunum vegna verkfalls.
Ég er einn af þeim sem árvisst hef stundað steinbítsveiðar á togbát mínum út af Vestfjörðum, bæði grunnt og djúpt. Ég er líka einn af þeim (fáu) sem hef haft þá skoðun að togskip og togarar sem stundað hafa þessar veiðar, eru mjög fá. Og að þau fáu togskip sem allajafna stunda veiðar sínar út af og sunnan við Barðann, allt suður fyrir Bjarg, hafa átt mjög gott samstarf við línu-, neta- og dragnótarbáta af öllum stærðum frá Vestfjörðum.

En nú að áhyggjum mínum sem ég vildi deila með ykkur:

Ég sé fyrir mér stóran flota togara og togskipa strax í nóvember og desember á næsta fiskveiðiári við veiðar á stórum hluta Látragrunns í leit að steinbít. „Agata og næsta nágrenni“ verður lögð í eyði. Undanfarinn áratug höfum við verið að tala um 3 til 8 mismunandi stór togskip á þessum slóðum í leit að steinbít, dag og dag í senn.

Með þessum veiðum svo öflugs flota, svona snemma á veiðitímabilinu, kemur steinbíturinn til með að skila sér illa upp á grunnslóðina. Engu síður mun þessi floti fylgja „göngunni“ upp á grunnslóð.

Þar sem áður ríkti gott samstarf og tiltölulega fá togskip við veiðar, verður nú mikil „traffík“. Þegar kemur fram á línutímabilið mætir svo beitningarvélaflotinn allur eins og hann leggur sig. Þar munu þessir öflugu og afkastamiklu línubátar hreiðra um sig langt fram eftir vori.

Því er kannski eðlilegt að maður spyrji: Verður einhvers staðar pláss fyrir línusmábátana ykkar á miðunum? Verður einhver steinbítur eftir handa línusmábátunum ykkar? Verður megnið af grunnslóðinni út af Vestfjörðum skilin eftir í rjúkandi rúst vegna þess að allir, já ALLIR ætla að veiða utankvóta?

Eitthvað hefur þetta snúist í höndunum á ykkur sem mestan áróðurinn hafið haft frammi. Og þau rök ráðherra, að þessar aðgerðir séu til að styrkja og koma til móts við litlu byggðarlögin úti á landi, er að snúast upp í andhverfu sína. Það verður enginn styrkur fyrir byggðir Vestfjarða þegar stór og öflugur floti tog- og línuskipa verður búinn að koma sér fyrir á veiðislóðinni ykkar. Á mjög skömmum tíma mun þessi floti veiða upp allan steinbítinn sem þið hafið svo kröftuglega verið að kalla eftir. Og fleiri tegundir koma til með að veiðast með, hvort sem þeim verður nú landað eða ekki. Því kvótalaus skip munu flykkjast á miðin líka.

Ég vildi bara deila þessum áhyggjum mínum með ykkur, því mér finnst málið mér skylt. Mjög stór hluti ársafla skips míns er tekinn á miðunum út af Barðanum, Blakk og Bjargi. Ég hef ekki haft ástæðu til að breyta þar út af, því árangur á veiðum okkar er góður og samstarf við sjómenn á allskyns fleyjum að vestan hefur verið mjög ánægjulegt og árekstralaust.

Já, það eru sannarlega breytingar framundan þegar „plágan“ skellur yfir. Þökk sé sjávarútvegsráðherra og fleiri góðum mönnum.

Kveðja.
Rúnar Sigtr. Magnússon,
skipstjóri,
Sóley SH-124
Grundarfirði.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi