Grein

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

| 08.06.2001 | 13:54Uppreisnin á Ísafirði II

Kæru bræður og systur. Það er vegið að okkur frá hendi ríkisvaldsins. Það á að taka okkur af lífi án dóms og laga. Þetta er svo svívirðilegar aðfarir að meira að segja dyggustu þjónum Sjálfstæðisflokksins hér vestra ofbýður, þótt þeir þori ekki að segja það opinberlega af ótta við afleiðingarnar. Vegna anna komst ég því miður ekki á fundinn sem haldinn var í íþróttahúsinu um daginn en hjarta mitt sló með því fólki sem þar var. Og ég brenn af heilagri reiði út í þá menn sem vilja eyðileggja byggðirnar okkar, rétt í þann mund sem við erum að ná vopnum okkar. Og við höfum réttlætið okkar megin. Stjórnarskráin íslenska tryggir okkur það. En með misvitrum mönnum er hægt að fara fram hjá lögum og rétti.
En þeir skulu ekki komast upp með það. Við munum standa saman – ef þeir vilja stríð, þá skulu þeir fá stríð. Ég hef sagt það áður og segi það enn, að við skulum athuga þann möguleika gaumgæfilega að segja okkur úr lögum við Ísland og stofna nýtt ríki. Það hefur verið gert annars staðar og við getum gert það hér. Sérstaklega er núna grundvöllur fyrir því að athuga þann möguleika vel þegar svo er vegið að lífi okkar og tilveru, að ekki er annað í sjónmáli en að bregðast svo harkalega við. Menn skulu muna, að Jón Sigurðsson kom frá Vestfjörðum og margir af íslenskum baráttumönnum hafa einmitt komið héðan. Við ætlum ekki að gefast upp núna og bíða þess að einhver ætli að gera eitthvað einhvern tíma. Það kallast loðin loforð.

Sjálfstæðisflokkurinn er löngu búinn að sýna okkur að hann þjónar í dag hagsmunum auðvaldsins. Hann þjónar ekki hinum sjálfstæða manni sem vill í krafti visku sinnar og orku rífa upp atvinnulíf, skapa arð og fólki vinnu. Sjálfstæðisflokkurinn í dag er þjónustuaðili þeirra sem eiga mesta peningana, þeirra sem kannski hafa ekki aflað þeirra með dugnaði sínum og atorku, heldur þeirra sem hafa fæðst með silfurskeið í munni og þekkja ekkert annað en að svo skuli það vera um aldur og ævi. Þeir séu forréttindastétt sem sé ætlað það hlutverk að eiga allt og alla.

Nei og aftur nei. Sem betur fer heyri ég raddir og sífellt sterkari raddir sem segja hingað og ekki lengra, við erum búin að fá nóg. Og það er grundvallarréttur okkar að fá að vera í friði og eiga það sem okkur ber. Rækta það sem við getum ræktað í okkar ranni. Hlúð að því sem við viljum að lifi. Verið í friði fyrir forsjárhyggju og afskiptum af okkar högum.

Hingað og ekki lengra. Sérstaklega er unga fólkinu okkar þungt í huga. Ungt fólk hefur oft nýja sýn á hlutina og er frekar laust við þessi fáránlegu vélabrögð að maður þekki mann, sem hefur tíðkast á Íslandi í gegnum tíðina í okkar fámenni. Ungt fólk er tilfinningaverur sem betur fer og er í dag miklu meðvitaðra um mátt sinn og megin en áður fyrr. Ef eitthvað er, þá er ungt fólk heiðarlegra en þeir sem eru búnir að læra alla klækina. Margir hafa þá tilfinningu í dag að við búum ekki í margrómuðu lýðræðisríki, heldur í bananalýðveldi eða einræðisríki. Maður sér þetta æ ofan í æ áréttað í blaðagreinum og viðtölum við fólk. Ég er alveg klár á að einhvern tíma rísa menn upp og mótmæla, en í dag er eins og alþýða manna sé sofandi og fljóti sofandi að feigðarósi. Samt heyrir maður raddir fólkins og veit að undiraldan er þung, en hvenær kemur hún fram í kosningum eða skoðanakönnunum? Hvenær þekkja kjósendur sinn vitjunartíma og átta sig á að þeir hafa ákveðið val á fjögurra ára fresti? Ekki algjört val, en þeir geta kosið annan flokk en þeir hafa gert undanfarin fimmtíu ár án þess að himinn og jörð farist.

Í dag er mín skoðun þessi: Eina leiðin fyrir Vestfirðinga er sú að segja okkur úr lögum við Ísland og stofna nýtt þjóðfélag, byggt á okkar forsendum til lífs. Við munum í raun vera miklu betur sett þannig. Við munum endurheimta fiskimiðin okkar og við munum svo sannarlega hafa miklu meira úr að spila en nú er. Og þá munum við hafa fullt af störfum fyrir unga fólkið okkar svo að það geti snúið heim og helgað heimahögum sínum starfskrafta sína. Sem það í rauninni vill en kannski getur ekki, vegna þess að ríkisvaldið í dag byggir allt sitt á því að auka þjónustu fyrir sunnan, hvað sem líður kjaftæðinu um að flytja störf út á land.

Þessi bábilja að fólk vilji flytja til Reykjavíkur er bull og vitleysa. Enginn óvitlaus maður vill í rauninni búa í Reykjavík, en þar eru störfin fyrir fólkið sem búið er að mennta sig, og þau fáu störf sem bjóðast út á landsbyggðinni eru þéttsetin. Það er rugl að segja að fólk vilji ekki búa á landbyggðinni. Þegar það er búið að mennta sig eru einu störfin sem bjóðast oftast á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Hvað á fólk þá að gera annað en neyðast til að ílendast þar?

Nei og aftur nei. Ég er algjör dreifbýlistútta og er stolt af því. Vinur minn Addi Kitta Gau og Sverrir Hermannsson, sam


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi