Grein

Sigurjón Þórðarson.
Sigurjón Þórðarson.

Sigurjón Þórðarson | 19.05.2004 | 13:20Vestfjarðavíkingarnir

Umdeilt dagafrumvarp var rætt í á þingi mánudagskvöldið 17. maí og stóðu umræður fram á nótt. Í orði er gefið í skyn að dagabátar geti valið á milli þess að vera áfram í sóknardagakerfi eða farið yfir í kvótakerfi. Í umræðunni kom fram að það er ekki um neitt val að ræða heldur er sjávarútvegsráðherra setja mönnum afarkosti sem eru á þá leið að annað hvort þiggi menn þann kvóta sem er í boði eða þeir haldi áfram í dagakerfi. Ef menn „velja“ dagakerfið þá fylgir sá böggull skammrifi að dagakarlar verða að fækka handfærarúllum og sóknardögum og í kaupbæti fá sjómenn hótun um enn frekari fækkun sóknardaga.

Umrætt frumvarp er afar slæmt fyrir Norðvesturkjördæmið, þar sem með því er verið að leggja niður sóknardagakerfi smábáta og koma öllum trillum landsins inn í kvótakerfi. Nú er það svo að 80% af öllum afla dagabáta er landað í Norðvesturkjördæminu og þess vegna ætti það að vera kappsmál þingmanna kjördæmisins að leggjast gegn þessu frumvarpi.

Í sakleysi mínu hefði ég haldið að þingmenn Norðvesturkjördæmis gætu staðið saman sem einn maður gegn þessari aðför að sjávarbyggðunum í kjördæminu og þá ekki síst þeir þingmenn sem eru frá Vestfjörðum, Einar Oddur og Einar Kristinn. En Vestfjarðavíkingarnir þurfa að þjóna eigin hagsmunum víðar en í sinni heimabyggð. Það hefur oft þyrft að horfa upp á þá þvælast hring eftir hring í umræðum á þingi til að reyna að þóknast bæði sjávarútvegsráðherra og smábátasjómönnum. Í umræðunni á mánudagskvöldið var Einar Kristinn einn til svara, nafni hans Oddur sást ekki. Og heldur varð fátt um svör hjá Einari Kristni þegar ég óskaði eindregið eftir að hann svaraði því skýrt og skorinort hvort hann styddi þetta frumvarp eða ekki.

Dagamálið þarf að stöðva. Það er nauðsynlegt fyrir sjávarbyggðirnar á Vestfjörðum.

Sigurjón Þórðarson alþingismaður Frjálslynda flokksins.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi