Grein

Jóna Benediktsdóttir.
Jóna Benediktsdóttir.

Jóna Benediktsdóttir | 16.05.2004 | 15:59Er ekki komið nóg?

Nú um þessar mundir hryllir heimsbyggðin sig yfir framferði bandarískra fangavarða í Írak og ekki síst Bandaríkjamenn sjálfir. Embættismenn þar í landi virðast koma af fjöllum og ekki hafa hugmynd um hvað tekur við eftir að þeir hafa fyrirskipað að fangelsa alla þá sem grunsamlegir geta talist í ríkjum þeim sem þeir hafa nýverið ráðist inn í.

Það hefur komið fram í fjölmiðlum að maður sá sem dómsmálaráðherra Bandaríkjanna skipaði yfirmann fangelsismála í Írak hefur margsinnis verið áminntur fyrir hrottaskap gagnvart föngum í heimalandi sínu. Hann var fangelsisstjóri í Texas en var látinn víkja úr starfi vegna slæmrar meðferðar á föngum þar. Hann setti þá á stofn einkafyrirtæki sem sá um fangavörslu, það fyrirtæki hefur einnig fengið áminningu vegna hrottaskaps. Þegar mönnum eru falin svo mikilvæg trúnaðarstörf fyrir þjóð sína eins og umsjón með fangelsismálum í herteknu landi hljóta stjórnvöld að kanna fortíð þeirra. Áminningar fyrir hrottaskap geta varla talist góð meðmæli meðal „siðaðra þjóða“

Við heyrum af því að einhverjir fangaverðir verði dregnir fyrir herrétt en það eru allt undirmenn sem framkvæma skipanir annarra, sem er þó ekki afsökun fyrir framferði þeirra. Nú hefur komið í ljós að Bandaríkjamenn hafa vitað af þessum hrottaskap mánuðum saman án þess að aðhafast nokkuð. Ég get ekki dregið aðra ályktun en þá, að ráðamenn í Bandaríkjunum hafi vitað nákvæmlega hvað þeir voru að gera og þessi hrottaskapur sé framkvæmdur með þegjandi samþykki stjórnvalda þar. Ef Bandaríkjamenn geta með þessu móti kallast siðuð þjóð vil ég alls ekki vera í flokki siðaðra þjóða.

Því miður hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að fylgja Bandaríkjamönnum að málum í þessu stríði, án þess þó að spyrja þing eða þjóð álits í því efni. Þjóðin var sem sagt skráð í flokk hinna viljugu, flokk þeirra sem styðja stríðið í Írak og þar með þær aðgerðir sem innrásarliðið stendur fyrir þar. Undirrituð var ein þeirra sem mótmælti þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar eins og margir aðrir. Þá skammaðist ég mín fyrir hönd þjóðar minnar, að vera bendluð við þetta mál. Nú er komið í ljós að skömmin er margfalt meiri en ég taldi þá. Þarna eru framdir ófyrirgefanlegir glæpir gegn mannkyni. Við höfum lýst yfir stuðningi við þá sem standa fyrir þeim og þar með erum við samábyrg. Er ekki kominn tími til að fleiri leggist á árarnar og reyni að opna augu ráðamanna okkar fyrir því hversu varasamt það er að trúa og treysta stóra bróður í Bandaríkjunum í blindni.

Ég hvet ykkur ágætu landsmenn til að láta í ykkur heyra um þetta mál og enn fremur að muna eftir þessum blákalda stuðningi ríkisstjórnarflokkanna við stríðsrekstur Bandaríkjamanna í næstu kosningum.

Jóna Benediktsdóttir, kennari á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi