Grein

Ólafur B. Halldórsson.
Ólafur B. Halldórsson.

Ólafur B. Halldórsson | 10.05.2004 | 17:59Hvenær fellur skuldin á ábyrgðarmenn?

Þegar þetta er ritað er rúmlega ár síðan undirritaður skrifaði grein í B.B. undir heitinu „Er þetta okkar stríð?“ Tilgangur minn var þá sá að lýsa yfir andúð á stríðinu og því að Íslendingar væru án þess að vera spurðir gerðir að ábekingum átaka sem naut ekki einu sinni stuðnings alþjóðasamfélagsins heldur einungis upphafsmannanna og svokallaðra „viljugra þjóða.“ Þær þjóðir áttu það sameiginlegt að valdhafar tóku ákvörðun um gerast handbendi manna, sem ýmislegt hefur nú komið í ljós um, í andstöðu við vilja meirihluta þegna sinna. Þetta heitir víst „fulltrúalýðræði.“

Undirritaður skrifaði nýlega ritgerð um Írak og studdist þá við heimildir frá virtum bandarískum fræðimönnum. Annar er prófessor við háskólann í Michigan. Hann fjallar um niðurstöðu kannana heima fyrir þar sem meirihlutinn staðhæfir að Saddam hafi veitt hryðjuverkasamtökum al-Qaeda umtalsverðan stuðning og skýrar sannanir hafi fundist fyrir þessu í Írak. 45% trúa að Saddam hafi átt gereyðingarvopn rétt fyrir stríð. Þessi niðurstaða fæst, þó engin skjalfest eða áþreifanleg sönnun hafi fundizt eftir árs þrotlausa leit. Prófessorinn ályktar að það sé slæmt fyrir land hans að stefna sé byggð á blekkingum og það sé jafnvel verra að viðurkenna ekki misheppnaða stefnu sem slíka af því almenningur heldur sig við goðsagnir.

Annar bandarískur fræðimaður William R. Polk nam bæði við Oxford og Harward tvo af virtustu háskólum heims og hefur doktorsgráðu frá þeim síðarnefnda. Hann sat í stefnumörkunarráði í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna m.a. í Viet Nam stríðinu. Hann kom meðal annars að stefnumörkun Bandaríkjanna í málefnum múslimaríkja og setti á stofn miðstöð fræða um miðausturlönd. Hann bjó um árabil í Írak og gerði sér far um að skilja menningu þess sögu og þjóðareinkenni.

Þessi reyndi prófessor sem býr að áratuga reynslu í alþjóðastjórnmálum og samskiptum við þjóðir austurlanda er ekki í neinum vafa um aðdraganda stríðsins í Írak. Hann lýsir tíðum heimsóknum varaforsetans til leyniþjónustunnar. Embættismenn hennar upplýstu að þeir hafi litið á þær heimsóknir sem tilraun til að fá þá til að segja það sem ríkistjórnin vildi heyra í stað þess sem rannsóknir þeirra studdu. Þegar lítt miðaði áfram að „fabrikera“ sannanir sem sárlega vantaði var ný stofnun sett á laggirnar, skrifstofa sérstakra áætlanna, sem leysti hefðbundna leyniþjónustu af hólmi. Þessi stofnun leysti fljótt og vel það verkefni að „sanna“ kenningu varaforsetans að Saddam Hussein í samstarfi við bandamann sinn Osama bin Laden væri að undirbúa árás á Bandríkin með gereyðingarvopnum sínum.

Þetta er að áliti þessa virta fræðimanns sá grunnur sem notaður var til að leggja út í stríð við Írak og fá til þess fulltingi nokkurra viljugra þjóða. Mönnum finnst ef til vill merkilegt að undirbúningurinn var ekkert ólíkur því sem gerðist haustið 1939 þegar þýzkir hermenn klæddir pólskum búningum réðust inn í Þýzkaland og hófu þar með sex ára hildarleik. Hvorugtveggja var byggt á blekkingum, en vegna þess trausts sem Bandríkin nutu meðal bandamanna sinna bitu sumir þeirra á agnið og gerðust ábyrgðarmenn fyrir ósómanum.

Hvort sem menn kjósa að vera vinir Bandaríkjanna eða ekki, þá liggur það nú fyrir að engar forsendur fyrir stríðinu hafa staðizt og undirbúningur og framþróun við uppbyggingu Íraks á ný er vægast sagt í skötulíki. Nú hefur það gerzt til viðbótar að innrásarherinn hefur orðið uppvís að svívirðilegum glæpum sem lýðræðisríki getur ekki með nokkru móti réttlætt. Verra er þó að æðstu ráðamenn eins og landvarnaráðherrann hafa vitað um og jafnvel heimilað þessa glæpi í a.m.k. fjóra mánuði ef ekki ár án þess að afhafast neitt. Nú grípur hann til þess ráðs að biðjast afsökunar þegar fjölmiðlar hafa gert heiminum kunnugt hvaða mann hann hefur að geyma. Hann upplýsti heiminn um að íraskir fangar væru mannverur! (human beings) Fái sá skúrkur að sitja í jafn valdamiklu embætti áfram, þá hlýtur þeim að fara ört fækkandi sem trúa því að Bandaríkjamenn séu hæfir til að gegna forystuhlutverki í heiminum.

Þá skulum við ekki gleyma því sem jafnvel ítalskir ráðamenn eru að átta sig á og Spánverjar fyrir löngu, að meðan við drögum ekki til baka stuðning við stríð, sem til var stofnað með blekkingum, þá erum við sömuleiðis ábyrgðarmenn fyrir þeim óhæfuverkum sem unnin hafa verið með vitnesku ráðamanna í Bandaríkjunum. Ætlum við að axla þá ábyrgð með þeim?

Ólafur B. Halldórsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi