Grein

Árni Ragnar Árnason.
Árni Ragnar Árnason.

| 01.06.2001 | 09:30Rangt hjá Stakki

Í fyrradag, 30. maí 2001 staðhæfði Stakkur í ykkar ágæta blaði að ég hefði sakað þá Einar K. Guðfinnsson og Einar Odd Kristjánsson um að stefna stjórnarsamstarfinu í voða. Það er alrangt, ég hef ekki sakað þá nafna um neitt slíkt. Vinsamlegast blandið ekki saman sjónarmiðum og ummælum mínum við það sem frá öðrum kemur.
Ég hef ávallt talið þá nafna báða vinna af heilindum fyrir umbjóðendur þeirra á Vestfjörðum og þeir sem vinna af heilindum koma engu samstarfi í voða. Ég svaraði hins vegar í DV einni tiltekinni spurningu þar sem staðhæft var að þingflokkur hins stjórnarflokksins hefði tekið einstrengingslega afstöðu og hyggðist taka upp samstarf við stjórnarandstöðuna í þessu máli. Svar mitt var að ef svo væri þá næðu stjórnarflokkarnir ekki sameiginlegri niðurstöðu fyrir þinglok og ef hinn stjórnarflokkurinn tæki upp samstarf við stjórnarandstöðuna mundi það leiða til stjórnarslita. Hvað af svari mínu var birt réði ég ekki. Rétt reyndist að stjórnarflokkarnir náðu ekki sameiginlegri niðurstöðu.

Rétt er að ég hef verið ósammála þeim nöfnum um þessi viðfangsefni og ég hef ekki legið á þeirri afstöðu minni, en ég hef aldrei komið í veg fyrir málamiðlun um þessi mál fremur en önnur sem slíks þurfa. Stakk þykir það athygli vert að ég skuli eiga rætur á Ísafirði en samt sem áður hafa sjálfstæða skoðun í þessu efni. Það þykir mér sérkennilegt viðhorf og raunar ástæða til að benda á að þrátt fyrir
það að Vestfirðingar hafi löngum átt áhrifamenn í ábyrgðarstöðum á landsvísu og í stjórn þjóðmálanna, hefur það ekki dugað til að koma í veg fyrir það ástand sem uppi er á Vestfjörðum, og hefur raunar verið nokkuð lengi. Kannske eru ekki allir sammála sem frá Vestfjörðum hafa komið, en ég efast um að það hefði dugað.

Ég hef þá sannfæringu að okkur farnist betur ef þeir Íslendingar sem stunda útveg og fiskveiðar á Íslandsmiðum og eiga undir því fullkomna fjárhagslega áhættu starfa allir við sama rétt, sömu skyldur og ábyrgð og hafi sömu tækifæri. Það er ekki eins og málum er nú háttað.

Í umræðunni er því haldið fram að allir smábátar fari undir kvóta með lögunum sem taka eiga gildi í september n.k. en svo er nú ekki. Kannske er það viljandi gefið í skyn. Hið rétta er að eigendum þeirra var boðið að velja og það ræður hver rær á kvóta eða sóknardögum. Í umræðuna er líka blandað vanda einstakra byggðarlaga eða landshluta. Hann verður ekki leystur með almennum ákvæðum sem eiga að gilda um útgerð smábáta á landinu öllu. Sérstæður vandi þarf viðbrögð með sértækum aðgerðum.

Sértækar ráðstafanir mismuna fólki og þar sem fólk á kröfu til jafnræðis tel ég ekki réttlætanlegt að fyrirkomulag sem mismunar fólki verði varanlegt. Það er svo annað mál að mér þykir undarlegt að Vestfirðingar, sem lengstum höfðu forystu um framþróun í fiskveiðum, sem leiddi til öflugra fiskiskipa af öllum stærðum og gerðum, skuli nú láta sér lynda að horfa aftur til smábátaaldar. Ég er engan veginn sannfærður um að þeir veiti stöðugleika í hráefnisöflun fyrir þróttmikla fiskvinnslu, heldur ekki um öryggi og aðbúnað sjómanna á þessum bátum. Mér hefur alltaf þótt ástæða til að í öllum landshlutum og öllum stærri byggðarlögum starfi fjölbreyttur sjávarútvegur sem byggir á útgerð allra stærða af fiskiskipum.

Bestu kveðjur heim, Árni Ragnar Árnason, alþm.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi