Grein

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

| 31.05.2001 | 10:15Ljót sjón í Jónsgarði

Það var ljót sjón sem blasti við mér í Jónsgarði, þegar lögreglan hafði hringt í mig og tilkynnt mér að skemmdarverk hefði verið unnið þar. Túlípanarnir sem höfðu verið gróðursettir í haust til að gleðja bæjarbúa upprifnir og kastað út um allt. Grunnskólanemar sagði lögreglan mér að hugsanlega hefðu verið að verki. Daginn eftir þegar ég fór að vinna niður á Víðivöllum, sem ég kalla svo, neðan við sjúkrahúsið, blasti sama hörmungin við, búið að ryðja niður grjóti og henda túlípönum út um allt.
Ég kemst sennilega aldrei að því hverjir voru hér að verki en þetta ber þeim samt sorglega sögu. Ég vorkenni fólki sem gerir svona hluti. Þetta er einhvern veginn svo sjúklegt. Og greinilegt er að foreldrar þessara barna hafa ekki haft fyrir því að ræða við börnin sín um umgengni um plöntur og sennilega ekki dýr heldur. Svona sorgaruppákomur eru samt sem áður afar fátíðar hér hjá okkur, og ég er þakklát fyrir það.

Þetta gerðist fyrir mörgum árum á Austurvelli. Tvær ungar stúlkur tíndu upp alla túlípanana þar og stungu þeim hingað og þangað um allan garðinn. Sem betur fer komst ég að því þá hverjar þær voru og bað þær að hitta mig í garðinum. Við gengum svo um garðinn og skoðuðum hryllinginn og ég spurði þær hvað þær hefðu eiginlega verið að hugsa. Þær vildu helst sökkva niður í jörðina af skömm yfir athæfinu. Ég fyrirgaf þeim auðvitað og ég er viss um að aldrei aftur hafa þær skemmt nokkurn gróður á almennum svæðum.

Málið er að það er verið að fegra bæinn fyrir ykkur, fólkið sem býr í bæjarfélaginu. Við sem vinnum við þetta leggjum okkur öll fram um að gera sem mest og best til að bærinn okkar sé fallegur og snyrtilegur. En svo gerist svona. Maður verður svo sár og reiður þegar vinnan manns er eyðilögð með slíkum hætti.

Hvað með göngustígana?

Fyrst ég er byrjuð langar mig til að minnast á fólkið sem treður sér allstaðar í gegnum limgerðin í Jónsgarði og á Austurvelli og raunar allstaðar þar sem slík gerði eru. Hafið þið, gott fólk aldrei heyrt talað um hlið? Að stytta sér leið frá horninu við Sundhöllina til að komast út á Austurveg er alls engin stytting. Það eru fjórir útgangar frá Austurvelli og þeir dekka nægilega mikið til að hægt sé að notast við þá.

Ég get sagt ykkur í trúnaði, að ég fer á vorin á Austurvöll og Jónsgarð með hnút í maganum yfir hvað mikið þið eruð búin að traðka niður þetta vorið. Öll vor. Væri nú ekki skemmtilegra fyrir ykkur og okkur öll hin að þið notuðuð gangstígana? Lítið á þetta sem líkamsrækt, að ganga aðeins lengra og hætta að vaða yfir hvar sem þið komið að görðunum. Þetta eru ekki bara börn og unglingar, ég hef séð fínar frúr hér í bæ troðast í gegnum trjáþykkni til að stytta sér aðeins leið í Jónsgarði í stað þess að fara niður Bæjarbrekkuna. Og þið hin – hvað með að benda fólki á að þetta sé ekki skemmtilegt að gera? Við eigum öll þennan bæ og við viljum örugglega öll að hann sé fallegur og snyrtilegur. Eða er það ekki?

Um leið og ég óska Ísfirðingum öllum innilega til hamingju með sumarið, þá bið ég ykkur að hafa það í huga að hlú frekar að gróðrinum en að skemma hann.
Bestu kveðjur, Ásthildur Cesil Þórðardóttir, garðyrkjustjóri.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi