Grein

Jóhann Ásmundsson.
Jóhann Ásmundsson.

Jóhann Ásmundsson | 30.04.2004 | 15:19Eignarhald og tjáningarfrelsið

Breski mannfræðingurinn Mary Douglas setti fram einfalda skilgreiningu á óhreinindum, eða einfaldlega: „Óhreinindi eru hlutir á röngum stað“. Þannig er t.d. mold í blómabeði ekki óhrein fyrr en hún berst inni í stofu. Maturinn er ekki óhreinn fyrr en hann er orðinn að matarleifum á diski eða öðrum mataráhöldum. Ég ætla ekki að fara frekar út í kenningar hennar, en mannfræðilegar rannsóknir hafa sýnt að þessi skilgreining og flokkunarkerfi leidd af henni eru einn af grundvallar þáttum í táknkerfi okkar manna.

Lög um fjölmiðla fjalla um tjáningarfrelsið en lög um samkeppni í viðskiptum fjalla um eignarhald og leikreglur á markaði. Markmið þeirra beggja er að standa vörð um rétt einstaklinga til orða og athafna. Þau eru í sitt hvorum lagakaflanum því þau fjalla um ólíka hluti, að blanda þeim of mikið saman gerir þau óskýr og ekki eins augljós að starfa eða dæma eftir. Þetta snýst í raun um það að hafa hlutina á sínum rétta stað. Annað gerir lagasetningu og lagatúlkun flóknari, það flækir einfaldlega lögin, gerir þau verri og hvetur jafnvel til ýmissa undarlegra leikfimisæfinga til að uppfylla þau.

Ég fæ ómögulega séð að um eignarhald á fjölmiðlafyrirtækjum þurfi að gildi einhver sérákvæði önnur en þau sem koma fram í almennum lögum um eignarhald og samkeppni í viðskiptum. Enda eiga fjölmiðlalög að tryggja tjáningarfrelsi ritstjórna gegn eigendum sínum (valdhöfunum). Í þessu sambandi þá verðum við að gæta þess að þegar eignarhald á fjölmiðli er viðskipalegt, þá hafa eigendur oft á tíðum mun ríkari hag að ritstýra fjölmiðlinum í markaðslegum tilgangi en pólitískum. Vernd ritstjórnar gegn ofríki eigenda á því ekki síst að taka á þessum þætti. Dæmi um þetta er þegar fjölmiðlafyrirtækið er jafnframt útgefandi á tónlist og kvikmyndum.

Þetta finnst mér í raun mun erfiðari þáttur að glíma við en hin pólitíski og snýr ekki síst að tjáningarmöguleikum listamanna og ójafns aðstöðumunar á markaði. Í sjálfu sér þá á markaðskerfið að ráða við að leysa þennan vanda. Markaðurinn kallar á fjölbreytni og markaðarinn kallar líka á hámörkun arðseminnar. Hér þarf því að tryggja sjálfstæði fjölmiðladeilda fyrirtækjasamstæðu. Þetta er einfaldlega gert með kröfu í lögum um að deildir í óskyldum rekstri innan fyrirtækis hafi sjálfstæðan fjárhag og sjálfstæða stjórn. Þetta eru einfaldar leikreglur sem eiga gilda almennt um fyrirtækjarekstur í landinu og því óþarft að setja sértækari reglur fyrir fjölmiðla. Einu tengsl fjölmiðlalaga og annarra laga um eignarhald og samkeppni í viðskiptum eiga að vera skilgreiningar á því hvað telst til óskylds reksturs innan fjölmiðla- og útgáfufyrirtækja, þannig að skýrt sé hvað samkeppnislögin ná yfir það.

Ég hirði síðan vart að rökræða hversu alvarlegt brot það er á tjáningarfrelsi einstaklinga ef tiltekið eignarmunstur er farið að meina einstaklingum rétt til útvarps. Eignarhald kemur tjáningarréttinum ekkert við. Sé það sett í lög, þá er það ekkert nema ólög. Það er svo alvarlegt brot á grundvallar rétti einstaklinga að ég á bágt með að trúa að Alþingi og Forseti lýðveldisins hleypi slíkum ólögum í gegn.

Jóhann Ásmundsson. Höfundurinn er félagsfræðingur.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi