Grein

Gylfi Guðmundsson.
Gylfi Guðmundsson.

Gylfi Guðmundsson | 29.04.2004 | 13:27Um „Opið bréf til félaga í FOS Vest“

Í netmiðli BB í gær ritar Ólafur Baldursson, fyrrverandi formaður FOS Vest mikla grein þar sem hann rekur sýn sína á sameiningaráform fyrri stjórnar, og segir að lokum að hann ætli ekki að munnhöggvast við núverandi stjórn. Getur hann samt ekki stillt sig og sendir okkur tóninn með orðunum: „Rök þeirra, rökleysur og útúrsnúningur gegn sameiningu stéttarfélaga eru með öllu óskiljanlegar og virðast byggja á persónulegum hagsmunum frekar en hagsmunum heildarinnar.“

Ég held að Ólafur verði að líta í eigin barm, þegar hann veltir fyrir sér af hverju sameiningin var felld. Ef ekki hefði verið fyrir vinnubrögð hans og stjórnar hans í aðdraganda sameiningarinnar er eins víst að þeir hefðu haft sitt fram. Vil ég vísa í grein mína í BB þ. 23. mars s.l., en þar segir.

„Hef ég athugasemdir við undirbúning þessarar sameiningar sem lengst af fór ansi leynt, því að á aðalfundi félagsins 2002, var ekki einu orði minnst á sameiningarhugmyndir, en síðar kom í ljós að þá var undirbúningur kominn á fulla ferð. Fyrst á haustmánuðum 2003 er haldinn félagsfundur þar sem málið er kynnt félagsmönnum, þá rétt fyrir skoðanakönnun þar sem málið var lagt fram eins og í kynningarbæklingnum, að einungis voru kynntir kostirnir, en ekki einu orði minnst á gallana. Á aðalfundi félagsins í nóvember s.l. var málið ekki einu sinni á dagskrá fundarins, en eftir heitar umræður um málið undir liðnum önnur mál lagði stjórnin fram tillögu um að fá umboð til áframhaldandi undirbúnings, en þeirri tillögu var vísað frá. Eins efast ég um að stjórnin hafi haft umboð til að leggja í þann kostnað sem hlotist hefur af prentun kynningarbæklings, samráðsfundum og skoðanakönnun, því að hún er að mínu viti kosin til að vinna að hagsmunamálum félagsmanna milli aðalfunda en ekki til að leggja félagið niður. Tel ég að hún þurfi að hafa umboð aðalfundar til að fara í viðræður og undirbúning sameiningar við önnur félög, sem hún hefur alls ekki.“

Síðan er í sömu grein rek ég athugasemdir við kosti og galla sameiningarinnar frá mínum bæjardyrum séð, sem varð til að hinn almenni félagsmaður fór að hugsa málið og í framhaldi að því var sameiningin kolfelld á aðalfundi félagsins. Vil ég því vísa dylgjum Ólafs um óheiðarleg vinnubrögð til föðurhúsanna og benda á að af þeim þrettán félögum sem standa að Kjarna og fóru af stað í upphafi með hugmyndir um sameiningu eru aðeins fimm félög sem sameinast að endingu.

Segir það manni ekki eitthvað?

Ísafirði 29. apríl 2004, Gylfi Guðmundsson, formaður FOS Vest.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi