Grein

Ólafur Baldursson.
Ólafur Baldursson.

Ólafur Baldursson | 28.04.2004 | 14:53Opið bréf til félaga í F.O.S.Vest

Góðir félagar. Aðalfundar F.O.S. Vest sem haldinn var 27. mars sl. að Hótel Ísafirði tók aðra stefnu heldur en meirihluti stjórnar og trúnaðarmenn höfðu unnið að. Aðalfundurinn var auglýstur með löglegum fyrirvara þar sem venjuleg aðalfundarstörf voru á dagskrá auk þess var tillaga um að F.O.S Vest sameinaðist sjö öðrum stéttarfélögum sem öll eru innan BSRB. Samstarf þessara félaga má rekja aftur til ársins 1987 þegar 21 bæjarstarfsmannafélög mynduðu samningabandalag gagnvart Launanefnd sveitarfélaga (LN). Það samstarf var kallað Samflot og hélt allt til í ársins 2001 þegar klofningur varð við gerð samninga við LN og 13 félög mynduðu samstarfið Kjarna sem F.O.S Vest fylgdi.

Á þeim árum sem liðin eru frá stofnun Samflots hefur félagsstarf í F.O.S Vest. tekið miklum breytingum. Nægir að nefna að engin samninganefnd undir merkjum F.O.S Vest. hefur starfað og unnið að gerð kjarasamnings við viðsemjendur sem eru ríkið og LN. Undantekning frá þessu er að félagar F.O.S Vest sem starfa hjá Orkubúi Vestfjarða hafa samið undanfarna kjarasamninga milliliðalaust við stjórn OV og hefðu gert það áfram hvað sem sameiningu liði.

Í ljósi þess mikla samstarfs sem félögin innan Kjarna hafa átt á liðnum árum hófst umræða um hvort sameining félaganna væri ekki rökrétt framhald þess starfs og var niðurstaðan sú að tíu félög ákváðu að vinna sameiningu félaganna brautargengi. Kröfur félagsmanna og samfélagsins til stéttarfélaga hafa verið að taka miklum breytingum eins og til annarrar þjónustu í samfélaginu. Störf trúnaðarmanna og efling trúnaðarmannafræðslu og þjálfun, starfsmenntun, upplýsingastreymi um launa- og réttindamál, góð yfirsýn yfir þróun kjaramála, öflug heimasíða með samskipta- og upplýsinganeti félagsmanna, útgáfa kjarasamninga og fréttablaða, rekstur orlofsbústaða og margvísleg önnur þjónusta við félagsmenn voru atriði sem sameinað stéttarfélag ætlaði sér að leggja áherslu á. Félagsmenn hefðu verið um 1800 og félagið það þriðja stærsta innan BSRB. Starf stéttarfélaga á milli kjarasamninga er þýðingamikið ekki síður en vinna við kjarasamninga. Það að starfa fyrir stéttarfélag er mikil vinna. Því stærri sem félögin eru þeim mun meiri möguleikar eru á því að reka öflugt starf í þágu félagsmanna. Staða fámennra félaga er veik og því minni sem þau eru því vanmáttugri eru þau. Innan F.O.S. Vest eru mjög margir félagsmenn í hlutastörfum þannig að félagafjöldinn segir ekki alla söguna. Það eru tekjur félagsins sem ráða hvernig þjónustu er hægt að veita.

Sameining stéttarfélaga tryggir mun öflugra félagsstarf, sjóðir verða stærri og öflugri, nýting orlofshúsa verður meira og hægt að bjóða félagsmönnum fleiri möguleika í stærri félögum. Allt þetta hugsað til að veita félagsmanninum betri þjónustu. Það var í þeirra þágu sem við unnum að sameiningunni. Ekki er verið að leggja niður félögin heldur að sameina þau og stækka félagssvæðið.

Skrifstofa F.O.S Vest á Ísafirði átti að starfa áfram og átti að samtengja símanúmer og tölvukerfi því öll tækni býður upp á í dag að hafa skrifstofur dreifðar og skiptir þá ekki máli hvort hún er í næsta herbergi eða norður í land. Um þetta var samkomulag við þessi sjö stéttarfélög og kom aldrei til orðaræðu um það mál svo sjálfsagt þótti okkar samstarfsfélögum það.

Ekki hvarflaði að mér sem formanni að bera þessa sameiningartillögu upp nema vera búinn að kanna hug félagsmanna. Haldnir voru kynningafundir um félagssvæðið á vormánuðum (apríl og maí ) 2003 og kynningabæklingi dreift meðal allra félagsmanna sem sýndi þá framtíðarsýn sem sameinað félag ætlaði sér að vinna eftir. Trúnaðarmannaráðstefna félaganna sem að sameiningu stóðu var haldin í Munaðarnesi 8. til 9. maí 2003 og fóru þangað með mér 11 stjórnar- og trúnaðarmenn og tóku þátt í þinginu. Á aðalfundi sem haldinn var í nóvember 2003 var sameining rædd og komu þá fram sjónarmið með og á móti sameiningu. Kom fram mótframboð á mig sem formann frá núverandi formanni F.O.S Vest Gylfa Guðmundssyni. Þá kosningu vann ég. Öllum var ljóst fyrir hvað ég og meirihluti stjórnar félagsins stóðum.

Trúnaðarmannafundir voru haldnir þar sem sameining var rædd og nú síðast fjórum vikum fyrir aðalfund. Efnt var til skoðanakönnunar í nóvember 2003 og öllum félagsmönnum F.O.S.Vest send spurningin „Ert þú samþykkur því að félagið þitt gangi til þessarar sameiningar?” Já eða nei. Þessi könnun fór fram í öllum félögunum sem stóðu að sameiningarviðræðunum sem þá voru níu, en eitt félag hafði hætt þátttöku. Niðurstaðan var sú að hjá átta félögum var mikill meirihluti sammála sameiningu, en félagsmenn í einu félagi höfnuðu henni. Hjá F.O.S.Vest. sögðu 119 já, 46 nei og 1 seðill var auður. Í ljósi þessarar niðurstöðu um meirihlutavilja félagsmanna innan félaganna unnu þau áfram að sameiningunni og nutu m.a. við lagalega hlið málsins aðstoðar Gests Jónssonar hrl og Einars Arnar Davíðssonar lögfræðings. Tillagan um sameiningu félaganna var síðan borin upp til afgreiðslu á aðalfundum félaganna í mars.

Það voru mér mikil vonbrigði þegar tillagan var felld á aðalfundi F.O.S. Vest þar sem ég var þess fullviss að sameiningin myndi stuðla að bættum hag allra félagsmanna og hafði þá að leiðarljósi „meiri hagsmuni fyrir minni.“ Vilji félagsmanna til sameiningar félaganna lá fyrir samkvæmt skoðanakönnuninni og má segja að aðalfundur hafi gengið gegn vilja þeirra.

Ekki ætla ég mér að fara munnhöggvast við þá sem nú hafa verið kjörnir í stjórn F.O.S.Vest. og töluðu gegn sameiningunni. Rök þeirra, rökleysur og útúrsnúningur gegn sameiningu stéttarfélaga eru með öllu óskiljanlegar og virðast byggja á persónulegum hagsmunum frekar en hagsmunum heildarinnar. Eins og fram hefur komið höfðu félagsmenn lýst vilja sínum til sameiningarinnar og gefið félaginu umboð til að vinna að henni. Það er einlæg von mín að forysta félagsins horfi til framtíðar og endurskoði málið og taki það upp að nýju og fari í allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsmanna F.O.S. Vest um sameiningu við Kjöl.

Patreksfirði 27. apríl 2004, Ólafur Baldursson fyrrverandi formaður F.O.S Vest.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi