Grein

Jóhann Ársælsson.
Jóhann Ársælsson.

| 23.05.2001 | 12:18Ráðherrann launar lífgjöfina

Það vakti undrun mína sem fulltrúa í sjávarútvegsnefnd að fylgjast með því í Kastljósi á mánudagskvöld, þegar Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra fullyrti að ekki hefði verið meirihluti fyrir frestun kvótasetningar á smábáta á Alþingi. Árni sagði síðan að sá meirihluti hefði þá átt að sýna sig á Alþingi.
Frumvarp um frestun lá inni í sjávarútvegsnefnd. Eini möguleikinn, til að hægt væri að láta reyna á hvort meirihluti væri fyrir frestuninni, var sá að nefndin kæmi saman og meirihluti hennar afgreiddi málið út úr nefndinni. Þannig eru starfsreglur Alþingis. Þetta veit Árni vel.

Hann vissi líka að formaður nefndarinnar, Einar Guðfinnsson, neitaði kröfu stjórnarandstöðunnar um að fundur yrði haldinn í nefndinni til að láta reyna á það hvort meirihluti væri fyrir því að afgreiða málið. Góður meirihluti nefndarmanna var búinn að tjá sig um málið og þannig var vitað að meirihluti var í nefndinni fyrir frestun.

Það er sannarlega athyglisvert að formaður nefndarinnar, sem sagðist sjálfur hafa verið í mikilli baráttu fyrir því að fresta kvótasetningunni, var með neitun sinni að bjarga ríkisstjórninni frá því að þurfa að standa frammi fyrir ósigri í þessu máli í atkvæðagreiðslu á Alþingi.

Sennilega hefði sú atkvæðagreiðsla kostað sjávarútvegsráðherrann stólinn en hann launar Einari greiðann með því að hæðast að honum og þeim félögum sem höfðu meirihluta fyrir sannfæringu sinni um að það ætti að fresta þessu máli en létu ríkisstjórnina kúga sig og björguðu henni þegar á þurfti að halda. Þetta er ekki stórmannlegt og Einari er varla skemmt og víst eru laun heimsins stundum vanþakklæti.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi