Grein

Eggert Stefánsson.
Eggert Stefánsson.

Eggert Stefánsson | 06.04.2004 | 14:09Svar til Þórólfs

Þann 2. apríl s.l. skrifar Þórólfur Halldórsson á bb.is um vegamál á Vestfjörðum, setur fram fjóra valkosti á leiðinni Ísafjörður – Patreksfjörður. Þórólfur spyr um álit lesenda á þessum fjórum leiðum. Mér er bæði létt og ljúft að svara þessu, aðeins ein leið kemur til greina; 3. leið: Jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og undir Dynjandisheiði.

Jafnvel þó við fáum kannski ekki göng undir Dynjandisheiðina í fyrsta áfanga, heldur lagfæringar og breytingar á veginum yfir hana. Þetta er langstysta leiðin af þeim þremur sem nefndar eru og hverjum dettur í hug að fara langa leið þegar hægt er að fara stutta?

Ekki skaðar að, eins og fram kom hjá Þórólfi, leiðin um þjóðveg 60 milli Ísafjarðar og Reykjavíkur styttist og verður, að loknum vegabótum milli Flókalundar og Bjarkalundar þar með talin þverun Þorskafjarðar, Djúpafjarðar og Gufufjarðar, styttri en leiðin um Djúp og Arnkötludal. Það er því ekki eftir neinu að bíða; upp með borinn!

P.s: Rétt þegar ég ætlaði að fara senda þetta frá mér, sá ég að komin var á bb.is grein eftir Arnar Guðmundsson þar sem hann lýsir ánægju með samstöðu sveitarfélaganna Vesturbyggðar, Tálknafjarðarhrepps og Ísafjarðarbæjar við að fagna yfirlýsingu samgönguráðherra um að næstu jarðgöng í forgangsröðinni skuli vera Arnarfjarðargöng. Einnig setur hann fram hugmynd um jarðgöng úr Dynjandisvogi og yfir í Geirþjófsfjörð og veg þaðan í Trostansfjörð. Þetta er hugmynd sem sjálfsagt er vert að skoða betur. Við fyrstu sýn virðist mér þó að þetta gæti lengt leiðina Dynjandisvogur – Flókalundur.

Eggert Stefánsson, Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi