Grein

Arnar Guðmundsson.
Arnar Guðmundsson.

Arnar Guðmundsson | 05.04.2004 | 17:53Vegur skynseminnar

Nýlega var fagnað í mörgum sveitarfélögum Vestfjarða vegna yfirlýsingar samgönguráðherra þess efnis að jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar yrðu næst í röð veggangagerðar. Sem dæmi hljóðaði ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar m.a. á þennan veg: „Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fagnar yfirlýsingu samgönguráðherra um að jarðgangagerð milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar sé næst í forgangsröðun. Er það í samræmi við jarðgangaáætlun sem og sameiginlega stefnu sveitarfélaga á Vestfjörðum í samgöngumálum. Göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar ásamt endurbyggingu á aðliggjandi vegum munu skapa ný tækifæri í atvinnu og þjónustu og betri forsendur fyrir Ísafjarðarbæ sem byggðakjarna á Vestfjörðum.“ Ályktanir frá Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi voru á svipuðum nótum.

Það er ánægjulegt að sjá hversu mikil samstaða er um þessa leið, því hún er sú sem gefur Vestfjörðum örugglega hvað mestan nýþrótt af þeim leiðum sem nefndar hafa verið og tekist á um á undanförnum árum og misserum. Það er sömuleiðis ánægjulegt vegna þess að samhentir Vestfirðingar ná þessu frekar í höfn heldur en ef sundraðir væru. Ekki spillir fyrir arðsemisútreikningi að þessi leið gagnast mjög stórum hluta Vestfjarða.

Misjafnt eru glaðir þó

Ekki eru allir fullglaðir með þessa nýju (góðu) stefnu sem vegamál hafa tekið. Lárus G. Valdimarsson (bb.is-29.03.04) nefnir t.d. að uppbygging Dynjandisheiðar sé ekki góður kostur því leiðin sé löng á fjalli þar. Til áréttunar að fjallvegir séu vont val vísar hann því máli til stuðnings, til nýs vegar yfir Klettsháls sem ekki hafi reynst nógu vel í vetur. Kunnugir hafa sagt mér að flöskuhálsinn á Klettshálsi séu ákveðin mistök í hönnun vegarins. Það dæmi dugir því ekki fyrir alla fjallvegi. Hins vegar get ég þó tekið undir það að ég hefði viljað sjá aðra lausn í staðinn fyrir Dynjandisheiði.

Göng úr Dynjandisvogi yfir í Vatnsfjörð með legg til að tengja Bíldudal inn, eru það mikil framkvæmd að mér er til efs að slíkt geti rætst á þessari öld. Að vísu fleygir fram tækni í jarðgangagerð eins og á öðrum sviðum og það sem talið er útilokað í dag, er gerlegt á morgun, hvort sem litið er til verkgetu eða kostnaðar.

Dynjandisvogur – Geirþjófsfjörður

Dynjandisvogur – Geirþjófsfjörður, þessir firðir tveir með jarðgöngum á milli eru lausnarorð í mínum huga og margra annarra sem ég hef rætt þetta við. Göng úr Dynjandisvogi yfir í Geirþjófsfjörð og vegur frá þeim í Trostansfjörð myndi svo sannarlega bjóða upp á heilsárssamgöngur milli norður- og suðurhlutans. Um yrði að ræða láglendisveg frá Bíldudal til Bolungarvíkur (ef frá eru talin Gemlufallsheiði og Ísafjarðargöngin). Þessi leið myndi líka klippa burtu Dynjandisheiðina. Til að halda á „suður“ yrði þá að fara Trostansfjarðarheiði, en landslag þar býður upp á góða kosti til vegagerðar ef frá er talinn sneiðingurinn niður í Pennudal. Til ábendingar þá opnaði Trostansfjarðarheiði sig nánast sjálf fyrir u.þ.b. 6 vikum síðan án þess að hafa verið rudd í vetur.

Að standa með sjáfum sér

Ég hóf þessa grein á lofgjörð og gladdist yfir samstöðu. Þó er eins og ég sé svolítið á skjön við hana. En jú, ég gleðst. Ég verð þó að fá að standa með sjálfum mér í því sem ég vil kalla afbragðsgóða breytingartillögu við annars gott mál. Mér finnst rík ástæða til að skoða af fullri alvöru Dynjandisvogs – Geirþjófsfjarðar- kostinn. Einmitt núna er rétti tíminn til þess. Gaman væri ef fleiri tjáðu sig um þennan kost.

Arnar Guðmundsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi