Grein

Þórólfur Halldórsson
Þórólfur Halldórsson

Þórólfur Halldórsson | 02.04.2004 | 10:03Hvar eiga áherslurnar að liggja?

Þessa dagana er að hefja störf starfshópur um samgöngumál, sem stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur skipað samkvæmt samþykkt síðasta Fjórðungsþings. Starfshópnum er m.a. ætlað að yfirfara núgildandi stefnumótun Fjórðungssambandsins í vegamálum, sem samþykkt var 1997 og gildir til ársins 2007. Viðfangsefni starfshópsins eru því ærin. Meðal fyrstu verka er að fara yfir stöðu mála. Hvernig hefur tekist til með að framfylgja stefnumótuninni frá 1997, hvað hefur áunnist og hvað ekki og hvers vegna, eru spurningar sem þarf að leita svara við í því sambandi.

En að fleiru er að hyggja, s.s. því hvort einhverjar breytingar hafi orðið á ytri skilyrðum á tímabilinu, sem kalla á nýja nálgun þessa viðfangsefnis. Ég tel svo vera að einu leyti, sem er yfirlýst stefna ríkisstjórnar Íslands um að efla beri þrjú kjarnasvæði á landsbyggðinni, sem skulu vera Akureyri á norðurlandi, „Miðausturland“ fyrir austan og Ísafjörður fyrir Vestfirði.

Hvar eiga þá áherslurnar að liggja? Veltum því fyrir okkur.

Tvenns konar áherslur:

1. Ísafjörður kjarnasvæði fyrir Vestfirði.
Raunhæft má telja að Ísafjörður geti gegnt hlutverki kjarnasvæðis fyrir fimm sveitarfélög á Vestfjörðum, Ísafjarðarbæ, Bolungarvík, Súðavíkurhrepp, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp. Líklegt er að íbúar Reykhólahrepps og Stranda muni fremur sækja kjarnasvæðisþjónustu suður á bóginn en til Ísafjarðar. Aðaláhersla á styttingu leiða milli vestursvæðis og Ísafjarðar og gerð öruggs heilsársvegar milli byggðarlaganna.

2. Allir vegir liggja suður til Reykjavíkur.
Ísafjörður mun ekki ná að vaxa og styrkjast nægilega, til að geta gegnt hlutverki kjarnasvæðis fyrir Vestfirði og Vestfirðingar munu sækja kjarnasvæðisþjónustu til Reykjavíkur. Aðaláherslan lögð á uppbyggingu tveggja vega til Reykjavíkur; frá Ísafirði um Djúpveg og frá Patreksfirði um Vestfjarðaveg.

Áhersla 1:

Með því að gera tvenn jarðgöng; önnur milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar sem stytta um 25 km. og hin undir Dynjandisheiði úr Dynjandisvogi í Vatnsdal, sem stytta um 14 km. verður leiðin frá Patreksfirði til Ísafjarðar um 130 km og um 120 km frá Bíldudal. Miðað við aðra valkosti sem Barðstrendingar hafa til að sækja kjarnaþjónustu ýmiss konar, er ljóst að þessi valkostur hefur yfirburði yfir næsta valkost, sem er Reykjavík. Þegar vegagerð milli Flókalundar og Bjarkalundar er lokið verða um 375 km frá Patreksfirði til Reykjavíkur eða þrefalt lengri vegalengd en til Ísafjarðar.

Með kjarnasvæðisáherslunni styttist ekki aðeins leiðin milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar, heldur einnig, sem er ekki síður mikilvægt, milli Ísafjarðar og Reykjavíkur þessa sömu leið, sem þá verður um 390 km. Jarðgöng undir Klettsháls í framtíðinni myndu stytta leiðina enn um 6 km.

Áhersla 2:

Í áherslu 1 er þegar komið fram að frá Patreksfirði um Barðaströnd og Vestfjarðaveg verður leiðin til Reykjavíkur um 375 km þegar vegagerð milli Flókalundar og Bjarkalundar sem innifelur þverun Þorskafjarðar, Djúpafjarðar og Gufufjarðar er lokið, og færi í 369 km. ef göng yrðu gerð undir Klettsháls í framtíðinni.

Ýmsir valkostir eru nefndir um leiðina frá Ísafirði um Djúpveg til Reykjavíkur. Ákveðið er að þvera Mjóafjörð um Hrútey og byggja veginn inn Ísafjörð og leggja þá af veginn um Eyrarfjall (Hestakleif). Við það lengist núverandi sumarvegur um Eyrarfjall um ca. 2 km. og verður leiðin um Djúpveg til Hólmavíkur um 226 km. Frá Hólmavík er um tvær leiðir að ræða; ef haldið er á suður Strandir og Holtavörðuheiði bætast við 273 km, alls 500 km til Reykjavíkur frá Ísafirði. Ef á hinn bóginn nýr vegur verður gerður um Arnkötludal, styttir það leiðina um 40 km, sem verður þá 460 km.

Annar valkostur suðurleiðar um Djúp, sem nefndur hefur verið, er að gera jarðgöng frá Botni í Mjóafirði undir Eyrarfjall til Ísafjarðar og þaðan suður í Fjarðarhornsdal og inn á Vestfjarðaveg í Kollafirði í Reykhólahreppi. Hér er um tvenn göng að ræða, 4,1 km. undir Eyrarfjall og 12,5 km. úr Ísafirði í Kollafjörð. Vegalengdin frá Ísafirði um þessi göng að Vestfjarðavegi í Kollafirði yrði um 162 km. Þaðan til Reykjavíkur um væntanlegar þveranir fjarðanna í Reykhólasveit, Gilsfjarðarbrú og Bröttubrekku verða um 250 km. eða alls 412 km. frá Ísafirði til Reykjavíkur. 15 km lengra er að sleppa göngunum undir Eyrarfjall og þvera þess í stað Mjóafjörð um Hrútey.

Annað hvort eða – Bæði og

Segjum sem svo að Ísfirðingar og Patreksfirðingar ætli að mætast á miðri leið, sem yrði að vera ein leið af þremur mögulegum. Hvar gæti það verið?

1. leið: Vegur um Arnkötludal.
Leiðin liggur frá Ísafirði um Djúpveg, þvert yfir Mjóafjörð um Hrútey, yfir Steingrímsfjarðarheiði og Arnkötludal og síðan vestur Vestfjarðaveg yfir Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð, um Klettsháls og vestur í Flókalund. Þaðan vestur Barðastrandarveg yfir Kleifaheiði og til Patreksfjarðar. Samtals um 435 km. Mætumst á miðri leið, sem er nálægt Hrófbergi norðan Hólmavíkur.

2. leið: Jarðgöng úr Mjóafirði í Djúpi í Kollafjörð í Reykhólahreppi.
Leiðin liggur frá Ísafirði um Djúpveg að Botni í Mjóafirði, þaðan í 4,1 km. jarðgöngum undir Eyrarfjall um Ísafjörð og öðrum 12,5 km jarðgöngum þaðan í Kollafjörð inn á Vestfjarðaveg við Fjarðarhorn og þaðan um Klettsháls og vestur í Flókalund. Þaðan vestur Barðastrandarveg yfir Kleifaheiði og til Patreksfjarðar. Samtals 292 km. Mætumst á miðri leið, sem er í Ísafirði við göngin undir Eyrarfjall.

Ef jarðgöng á þessum slóðum lægju undir Kollafjarðarheiði, má reikna með að þau yrðu um 12 km löng úr mynni Húsadals innst í Laugabólsdal og yfir í botn Farðarhornsdals. Leiðin frá Ísafirði í Kollafjörð yrði 186 km og samtals til Patreksfjarðar 316 km. Mið leið yrði nálægt Álftagrófardal innan við Múla í Ísafirði.

3. leið: Jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og undir Dynjandisheiði.
Leiðin liggur um Vestfjarðaveg frá Ísafirði í gegnum jarðgöngin undir Breiðadalsheiði yfir vaðalinn í Önundarfirði um Gemlufallsheiði um brú yfir Dýrafjörð og inn að Dröngum þaðan um 5,1 km. jarðgöng að Rauðsstöðum í Arnarfirði og suður í Dynjandisvog, þaðan í 10,8 km. jarðgöngum í botn Vatnsdals í Vatnsfirði og að Flókalundi. Þaðan vestur Barðastrandarveg yfir Kleifaheiði og til Patreksfjarðar. Samtals 132 km. Mætumst á miðri leið, sem er í Vatnsdal á móts við mitt Vatnsdalsvatn.

4. leið: Laxárdalsheiði.
Raunar má segja að fjórða leiðin sé til milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar, sem er núverandi vetrarvegur milli bæjanna, þar sem farið er á milli Vestfjarðavegar og Djúpvegar um Laxárdalsheiði sunnan Búðardals. Sú leið er um 640 km. og á henni mætumst við á miðri leið við vegamót Djúpvegar og Laxárdalsvegar í Hrútafirði.

Eina ósk

„Ef ég ætti eina ósk, þá veistu hvers ég óskaði mér...“ segir í þekktum dægurlagatexta. Hvaða leið myndum við velja, ef við ættum bara eina ósk um endanlegan framtíðar veg, sem væri fullnægjandi til að skapa þróttmikinn byggðakjarna, sem gæti borið uppi þjónustu, menningarlíf og verslun í landshlutanum? Veg sem uppfyllti þau skilyrði að fjarlægðir væru ekki meiri en svo að sækja mætti þjónustu í byggðakjarnann frá „úthverfunum“ nokkrum sinnum í viku, væri snjóléttur og engir þeir þröskuldar á leiðinni sem hindruðu slíkt í verulegum mæli.

Hvaða leið uppfyllir þessi skilyrði best, leið 1, leið 2 eða leið 3? Ég get ekki að því gert, en mér finnst eins og 3. leið hafi bara all nokkra yfirburði yfir næsta valkost. Hvað finnst þér lesandi góður?

Þórólfur Halldórsson, Patreksfirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi