Grein

Lárus G. Valdimarsson.
Lárus G. Valdimarsson.

Lárus G. Valdimarsson | 29.03.2004 | 09:56Vegur nauðhyggjunar

Ég verð að játa að ályktun um samgöngumál sem samþykkt var á síðasta bæjarstjórnarfundi í Ísafjarðarbæ vakti, vægt orðað, blendnar tilfinningar hjá mér. Það kemur væntanlega ekki þeim er þekkja afstöðu mína til vegamála á óvart. Ég hafði ekki tök á að sitja þann fund, vegna annarra starfa á vegum sveitarfélagsins, en get staðfest að ég hefði ekki greitt þeirri ályktun atkvæði.

Rétt er að taka fram að efnislega er ég sammála þeim hluta ályktunarinnar sem snýr að áskorun um að áhersla skuli lögð á þverun Mjóafjarðar. En að lýsa því yfir fyrirvaralaust að næstu jarðgöng á Vestfjörðum eigi að vera Dýrafjarðargöng gengur, að mínu mati, beinlínis gegn stærri hagsmunum Ísafjarðarbæjar og reyndar Vestfjarða í heild. Þetta mat þarfnast auðvitað rökstuðnings við og mun ég leitast við að færa þau rök sem ég tel að styðji afstöðu mína í þessum greinarstúf.

Ályktun og forsagan

Reyndar vekur tímasetning ályktunarinnar nokkra furðu þar sem hún kemur örfáum dögum áður en samgöngunefnd á vegum Fjóðungssambandsins (FV) hóf störf. Sennilegt er þó að það sé engin tilviljun og einungis staðfesting á þeim aðferðum sem ákveðin öfl eru tilbúin að nota til að ná sínu fram. Ekki verður betur séð en slík einhliða ályktun gangi gegn meginstefnu FV í málaflokknum ef marka má eftirfarandi;

Í stefnumótun FV frá árinu 1997 kemur fram að lögð skuli megináhersla á tvö stórverkefni í vegagerð á Vestfjörðum á tímabilinu (1997-2007) þ.e. annars vegar að ljúka við Djúpveg og hins vegar Vestfjarðaveg milli Flókalundar og Bjarkalundar. Að þessum verkefnum loknum skuli ráðist í endurbætur á vegtengingu milli norður- og suðursvæðis Vestfjarða.

Í lok októbermánaðar 2001 var haldið sérstakt aukaþing um samgöngumál og þar segir, í yfirliti um helstu áhersluatriði sveitarfélaganna, um jarðgöng;

„Að arðsemisútreikningar verði gerðir á tvennum jarðgöngum á Vestfjörðum. Annars vegar úr Dýrafirði yfir í Vatnsfjörð í Barðastrandasýslu og hins vegar úr Ísafirði við Djúp yfir í Kollafjörð. Í útreikningunum verði tekið tillit til hugmynda og umræðu um kjarnasvæði.”

Ég geng útfrá þeirri forsendu að göng úr Dýrafirði yfir í Arnarfjörð séu hluti af gangagerð frá Dýrafirði yfir í Vatnsfjörð og að seinni leggurinn í þeirri framkvæmd séu göng úr Dynjandisvogi yfir í Vatnsfjörð enda væri önnur útfærsla vart skynsamleg.

Reyndar er til samþykkt samgöngunefnda Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkur og Súðavíkur frá hausti 2001 þar sem kveðið á um hagkvæmnisútreikninga sömu jarðgangakosta. Eftir því sem ég best veit hefur ekkert verið unnið í þessu verkefni þrátt fyrir að það sé tillölulega einfalt að fá góða nálgun, sem gæfi haldbæra vísbendingu, útfrá þekktum stærðum. Hvers vegna sú vinna hefur ekki verið unnin verður varla skýrt með málefnalegum ástæðum. Varla er ráðlegt að gera ráð fyrir að vinna við jarðgöng á Vestfjörðum hefjist fyrr en í fyrsta lagi eftir 6-8 ár og því nægur tími til stefnu til að gaumgæfa þá kosti sem til staðar eru. Að mínu mati er þetta mjög bjartsýn spá með hliðsjón af fortíð og vissum pólitískum forsendum sem ekki er ráðlegt að fara út í á þessu stigi.

Flestir held ég að séu sammála um að þrátt fyrir að nokkuð hafi miðað í vegframkvæmdum í Djúpi og við Vestfjarðaveg þá sé enn mikið verk óunnið áður en hægt verði að telja nauðsynlegum umbótum lokið.

Umræðan og mikilvægi málaflokks

Nokkuð hefur verið ritað um samgöngumál hér á Vestfjörðum á síðum þessa blaðs undanfarna mánuði en umræðan verið, að mínu mati, nokkuð einhliða og villandi á köflum. Það væri hrokafullt af mér að segja að ég hefði ekki skilning á viðhorfum þeirra sem ekki deila minni skoðun á þessum málum. Þó verð ég að segja að sá skilningur fæst einungis ef ég, aftur að mínu mati, þrengi það sjónarhorn sem ég tel nauðsynlegt að menn tileinki sér svo unnt sé að fá heildstæða og raunhæfa sýn á þeim valkostum sem við stöndum frammi fyrir í þessum mikilvæga málaflokki. Sjaldan hefur þörfin á að sjá út fyrir túngarðinn heima verið brýnni en á þessum tímapunkti.

Að málaflokkurinn sé mikilvægur skýrist af því að fátt er mikilvægra við uppbyggingu landsins, og þar með forsendu byggðar t.d. hér á Vestfjörðum, en það sem kallað er grunngerð samfélagsins. Hugtakið grunngerð nær yfir helstu þætti í ytra umhverfis sem ákvarða búsetuskilyrði á hverjum stað og má með nokkurri einföldun segja að mikilvægustu þættir grunngerðar séu samgöngur, heilsugæsla,fjarskipti og skólar. Hjá þróuðum samfélögum byggjast allar aðgerðir í byggðamálum á nákvæmri greiningu þessara þátta áður en tillögur um slíkar aðgerðir eru settar fram. Sér í lagi er greining samganga og fjarskipta mikilvæg sem undirstaða nútíma atvinnulífs. Það þarf engum að dyljast að hvað þennan þátt varðar hafa stjórnvöld gersamlega brugðist og reyndar er ýmislegt sem bendir til þess að þar skorti hvoru tveggja vilja og getu.

Markmið og forsendur

Svo ég snúi mér aftur að meginefni þessarar geinar þá er rétt að skoða þau markmið og forsendur sem ég tel mikilvægast að hafa í huga varðandi vegsamgöngur;

Mikilvægi landsamganga hefur aukist gríðarlega undanfarna tvo áratugi og sér ekki fyrir enda á þeirri þróun. Samhliða hefur ný tækni við jarðganga- og vegagerð rutt sér til rúms.

Atvinnulíf hér á Vestfjörðum hefur átt mjög undir högg að sækja og ef tryggja á enduruppbyggingu og sókn til nýsköpunar er fátt ef nokkuð mikilvægra en uppbygging heilsárs-samgangna, sem mest á láglendisvegum, sem þola hina auknu þungaumferð vöruflutningabifreiða.

Tengja bæði norður- og suðursvæði á sem bestan hátt við stofnvegakerfi landsins (hringveg) með tilliti til ferðatíma og umferðaröryggis fyrir hinn almenna vegfaranda.

Bæta vegsamgöngur milli ofangreindra svæða verulega með hliðsjón af raunhæfni hugmynda og hugsanlegra samlegðaráhrifa fyrir bæði svæði. Forsenda þess er skynsamleg forgangsröðun og að þar með verði bundinn endi á togstreitu milli svæða í samgöngumálum því markmiðin verði í framhaldinu sameiginleg.

Ekki er þörf á að útskýra eða rökstyðja fyrstu þrjá liði að ofan enda tel ég að almenn sátt ríki um þau atriði. Fjórða atriðið þarfnast skýringa við en þær koma síðar ( sjá 3. lið í Valkostir) því rétt er að stilla upp valkostunum sem fyrir liggja til að ná yfirlýstum markmiðum.

Valkostir

Helstu valkostir sem nefndir hafa verið ásamt minni skoðun á kostum og göllum hvers fyrir sig eru eftirtaldir;

Dýrafjarðagöng ásamt uppbyggingu Dynjandisheiðar sem heilsársvegar samhliða gangnagerð. Mjög kostnaðarsöm leið því auk kostnaðar við göng má gróft áætla kostnað við Dynjandisheiði, sem er 36 km fjallvegur og þar með lengsti fjallvegur á Vestfjörðum, á bilinu 1,5-2 milljarðar króna. Hugmyndin getur ekki talist góð þar sem reynslan af 500-700 milljóna króna framkvæmdum á Klettshálsi hafa ekki reynst sérlega vel á þeim stutta tíma sem reynt hefur á vetrarsamgöngur þar. Kostur er að þessi útfærsla myndi bæta verulega samgöngur miðað við stöðuna í dag. En fjallvegur um Dynjandisheiði er ekki viðunandi framtíðarlausn og í reynd afturhvarf til fortíðar. Svo menn hafi samanburð þá þyrfti allt það fé sem árlega er varið til nýbygginga vega á Vestfjörðum yfir 4-6 ára tímabil að fara í slíka vegagerð yfir Dynjandisheiði.

Dýrafjarðargöng ásamt göngum úr Dynjandisvogi yfir í Vatnsfjörð þar sem bæði göngin væru unnin samhliða. Heildarlengd gangna á bilinu 15-16 km og að auki hafa verið nefnd göng sem tengdu Bíldudal inn í þetta gangakerfi. Hugmyndin er allrar athygli verð en verður að teljast óraunhæf nema á 30-50 ára framkvæmdatímabili sökum gríðarlegs kostnaðar. Það skal auðvitað viðurkennt að 30-50 ár er örstuttur tími í samanburði við jarðsöguleg tímabil!

Að næstu jarðgöng á Vestfjörðum verði úr Húsadal í Ísafirði yfir í Fjarðarhornsdal í Kollafirði, lengd gróft áætluð 6-8 km. Með þessum göngum næst sá áfangi fyrir norðursvæði að losna að mestu við fjallvegi á suðurleið auk þess að geta nýtt sér Gilsfjarðarbrú og aðrar vegbætur sem unnið hefur verið að í Dölum. Ávinningur suðursvæðis er gríðarleg stytting til norðusvæðis auk þess að eftir það liggja hagsmunir beggja í að fá í gegn þveranir fjarða ásamt öðrum vegbótum á Vestfjarðavegi. Helst ætti náttúrulega að tengja Reykhóla, með þverun, inn í þjóðbraut að vestan þótt það sé auðvitað risavaxið verkefni. Það hlýtur að teljast eðlileg og sanngjörn krafa að þessi kostur verði metinn út frá öðrum kostum með arðsemissjónarmið í huga enda í fullu samræmi við niðurstöðu FV frá hausti 2001. Eitt meginatriðið er að með þeim vegbótum sem eru þegar á áætlun við Djúpveg, auk ganga úr Ísafirði yfir í Kollafjörð, er raunhæft að tala um ferðatíma á vegi milli Ísafjarðar og Reykjavíkur undir 4 klukkustundum. Erfitt er að sjá galla á þessari leið þegar litið er á samanburð við aðra kosti, svo ég kalla eftir ábendingum um þá ef þeir kynnu að finnast.

Niðurstaða…

Sagt er flest láti okkur Íslendingum betur en ræða aðalatriði máls og ber samfélagsumræðan hér þess glögg merki í flestu tilliti, það hlýtur þó að vera eðlileg krafa að hér fari fram opin, málefnaleg og heiðarleg umræða. Ekki á það síst við þegar rædd eru jafn mikilvæg mál og uppbyggingu grunngerðar samfélagsins eins og leitast er við hér. Annarleg sjónarmið s.s. valdabarátta eða persónulegir hagsmunir einstakra manna mega ekki ráða hér för, of mörg dæmi um afleiðingar þess eru því miður til úr fortíð.

Ekki er heldur nægjanleg skýring á afstöðu að eitthvað hafi verið ákveðið áður á forsendum sem þá töldust boðlegrar. Röng niðurstaða verður aldrei betri með aldri né fjölda þeirra sem telja hana rétta. Nauðhyggjulegri afstöðu ber ávallt að hafna í upplýstri umræðu enda tilheyrir slík afstaða horfnum tíma.

Mín niðurstaða er því sú þegar allt er vegið saman sem á undan er ritað þá hafi sá hluti þeirrar ályktunar sem samþykkt var á síðasta fundi bæjarstjórnar, og laut að einhliða stuðningi við Dýrafjarðagöng, verið illa ígrundaður. Að lokum hvet ég alla, sem á annað borð láta sig framtíðaruppbyggingu Vestfjarða í heild nokkru varða, til ígrundunar og málefnalegrar umræðu um samgöngumál.

Lárus G. Valdimasson, bæjarfulltrúi Samfylkingar í Ísafjarðabæ.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi