Grein

| 15.03.2000 | 13:55Opið bréf til BB

Þann 1. mars birtist í BB stutt grein um hóf til heiðurs íþróttamanni ársins í Bolungarvík fyrir árið 1999. Þar kom fram hverjir hlutu viðurkenningar og hver kjörinn var íþróttamaður ársins.
Blaðamaður lauk grein sinni á: „Samkvæmt upplýsingum blaðsins mun hófið hafa farið fram í kyrrþey. Engin tilkynning barst fjölmiðlum áður en hófið fór fram.“

Þessu vill Íþrótta- og æskulýðsráð Bolungarvíkur mótmæla.

Í fyrsta lagi var haft samband við fjölmiðla, þ.e. Morgunblaðið, Svæðisútvarpið og BB. Á hófið mætti eingöngu blaðamaður Morgunblaðsins sem birti þriggja dálka grein með mynd þann 25. febrúar.

Í öðru lagi var haft samband við starfsmann BB með góðum fyrirvara þar sem honum var boðið á hófið.

Íþrótta- og æskulýðsráð Bolungarvíkur furðar sig á svona blaðaskrifum, þar sem fullyrt er að samkvæmt upplýsingum blaðsins hafi engum fjölmiðlum verið boðið. Spurningin er: Hvar fékk blaðamaður þessar upplýsingar?

Þrátt fyrir þennan leiða misskilning BB vill Íþrótta- og æskulýðsráð Bolungarvíkur þakka ritstjóra BB fyrir vandaða og góða frásögn af „hófi til heiðurs íþróttamanni ársins“ á liðnum árum.

Fyrir hönd Íþrótta- og æskulýðsráðs Bolungarvíkur.

– Halldóra Dagný Sveinbjörnsdóttir.


Aths. ritstj.

Hringt var í starfsmann H-prents og Bæjarins besta með eitthvað um mánaðar fyrirvara, að hann telur, og honum sagt frá fyrirhuguðu hófi til heiðurs íþróttamanni ársins í Bolungarvík. Þar mun dagsetning hafa verið nefnd. Starfsmaður þessi svaraði því til, að nauðsynlegt væri að gera blaðinu viðvart þegar liði að hófinu.
Það var ekki gert.

Aldrei, hvorki fyrr né síðar, var haft samband við blaðamann og ritstjóra Bæjarins besta vegna þessa og vissi hvorugur um hófið fyrr en það var afstaðið.

Um það leyti sem hliðstætt hóf var haldið í Ísafjarðarbæ (5. janúar) spurðist blaðamaður ítrekað fyrir um væntanlega athöfn í Bolungarvík en þá var ekkert um hana vitað. Enda var hún ekki haldin þar fyrr en hálfum öðrum mánuði seinna eða 19. febrúar.

Samkvæmt upplýsingum sem Bæjarins besta fékk hjá Svæðisútvarpi Vestfjarða var hringt á heimili starfsmanns þess nokkrum vikum fyrir margumrætt hóf og tilkynnt að það stæði til. Enginn mætti frá Svæðisútvarpi Vestfjarða, fremur en frá Bæjarins besta, enda bæði aðferðin við boðunina og tímasetning hennar með óvenjulegra móti.

Úr því að talin er ástæða til að þakka fyrir umfjöllun blaðsins á fyrri árum er rétt að benda á, að þá hefur verið staðið að boði eða boðun með öðrum hætti en nú.

Rétt er einnig að nota þetta tækifæri til þess að benda á, að blaðamaður og ritstjóri Bæjarins besta vita yfirleitt ekki um fyrirhugaða viðburði nema þeir séu látnir vita um þá. Enda hvorugur gæddur yfirskilvitlegum hæfileikum til slíks. Iðulega er þeim þó legið á hálsi fyrir að vera ekki viðstaddir atburði eða sinna ekki um atburði sem þeir hafa aldrei heyrt minnst á.

Svona gerast hlutirnir einfaldlega ekki.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi