Grein

Ásrún Matthíasdóttir.
Ásrún Matthíasdóttir.

Ásrún Matthíasdóttir | 18.03.2004 | 10:04Fjarnám við Háskólann í Reykjavík

Fjarnám í háskólum eykur sveigjanleika í námi og skapar mörgum möguleika til að stunda nám sem að ella gætu það ekki. Fjarnám er góður kostur fyrir einstaklinga sem vilja afla sér aukinnar menntunar án þess að þurfa að flytja og hætta vinnu eða vilja vera heima og sinna börnum meðfram námi.

Fyrir þá sem vilja eiga möguleika á störfum í tæknivæddu samfélagi nútímans er tölvunarfræði góður kostur enda býður fagið upp á góða undirstöðumenntun sem nýtist vel á ýmsum sviðum. Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík (HR) býður upp á nám í kerfisfræði (60 einingar) í fjarnámi. Kerfisfræðingar eiga kost á fjölbreyttum störfum sem henta jafnt konum sem körlum, s.s. við alla þætti hugbúnaðargerðar, en einnig við önnur störf s.s. stjórnun, ráðgjöf, rannsóknir og kennslu.

Fjarnámið í HR er tekið á hálfum hraða; tvö námskeið á haustönn og tvö námskeið á vorönn ásamt verklegu námskeiði á vorönn sem krefst þess að nemendur vinni verkefni í skólanum í þrjár vikur. Námsefni fjögurra anna er því tekið á fjórum árum í stað tveggja í staðbundu námi. Námsefni og námskröfur í fjarnámi er eins og í staðarnámi og fer fjarnám deildarinnar fer fram í sérhönnuðu kennsluumhverfi sem skólinn hefur þróað á undanförnum árum og byggir á internettækni.

Fyrirlestrar í kennslustundum í staðarnámi er teknir upp og eru þessir hljóðfyrirlestrar settir á netið fyrir fjarnema sem geta sótt þá og hlustað á þegar þeir vilja og eins oft og þeir vilja. Á hverri önn eru tvær tveggja daga vinnulotur um helgi í HR þar sem fjarnemendum gefst tækifæri til þess að hitta kennara sína og aðra fjarnemendur, hlusta á fyrirlestra og vinna að verkefnum. Spjall í beinni er vikulega í flestum námskeiðum þar sem kennari og nemendur tengjast samtímis inn á internetið til að spjalla þar saman um námsefnið. Spjall í beinni kemur í stað hefðbundinna símatíma kennara. Að auki eru nýttir umræðuþræðir í kennslukerfi skólans þar sem nemendur ræða námsefnið, leggja fram spurningar og taka þátt í að svara spurningum annarra.

Kerfisfræðingar eiga kost á fjölbreyttum störfum sem henta jafnt konum sem körlum, s.s. við alla þætti hugbúnaðargerðar, en einnig við önnur störf s.s. stjórnun, ráðgjöf, rannsóknir og kennslu. Æskilegur undirbúningur fyrir háskólanám er stúdentspróf en í HR skoðum við umsóknir frá nemendum sem ekki hafa lokið stúdentsprófi og metum hvort við teljum viðkomandi hafa nægan þroska og undirbúning, s.s. annað nám eða starfsreynslu, sem að gerir umsækjanda hæfan til að stunda háskólanám.

Nánari upplýsingar er að finna á www.ru.is og þar er hægt að sækja um skólavist.

Ásrún Matthíasdóttir, lektor og verkefnisstjóri fjarnáms háskólanum í Reykjavík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi