Grein

Arnar Guðmundsson.
Arnar Guðmundsson.

Arnar Guðmundsson. | 12.03.2004 | 16:42Barðabyggð og Ísafjarðarbær

Verða tveir byggðakjarnar á Vestfjörðum í framtíðinni sem saman munu standa af Barðastrandrarsýslu annars vegar Ísafjarðar- og Strandasýslu hins vegar? Ekki gott að segja. En að öllum líkindum munu samgöngumál skera þar úr um. Framtíðarleið Vestfirðinga, annarra en Strandamanna, við aðra landshluta mun liggja um Barðastrandarsýslu. Þetta sjá allir sem kunna að leggja saman og draga frá. Í því ljósi vekur það allmikla furðu að sjá hversu mikla hörku þurfi að sýna starfsliði Vegagerðarinnar á Ísafirði (VáÍs (hönnuðar nýs vegar yfir Klettsháls)), til að þeir taki skynsamlegastu og bestu leiðina (leið B) inn í matsáætlun, vegna endurnýjunar vegar frá Bjarkarlundi í Kollafjörð.

Ein rök VáÍs gegn leið B voru þau að hún er um 460 milljónum króna dýrari en leiðir C og D, sem er fjallaleiðin um Hjalla- og Ódrjúgsháls. Þarna virðast menn VáÍs eingöngu hafa reiknað framkvæmdakostnað, en í engu minni viðhaldskostnað, minni snjómokstur eða minni slysahættu á leið B sem er láglendisvegur. Að auki er hún styttri en leiðir C og D, en hver kílómetri í vöruflutningum endar til að mynda í matarkörfum Vestfirðinga.

Eru „Vestfirðingar“ fjallavegatrúar

Halldór Laxness ku hafa sagt að íslenska þjóðin væri bílatrúar. Stundum hefur hvarflað að manni að „Vestfirðingar“ séu fjallavegatrúar. Hvers vegna? Jú, miðað við hversu VáÍs voru tregteymdir til að hafa það sem möguleika í matsáætlun, það sem á undan er skrifað. Annað batterí, bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar (bæ Ís), er mjög áfram um að fjölga fjallvegum. Sú draumsýn liggur um Arnkötludal í rúmlega 300 metra hæð ef mér skjöplast ekki. Þar á bæ (bæ Ís), hefur verið haft á orði opinberlega að 700 milljónir séu ekki mikil upphæð fyrir þann fjallveg sem stytti Ísfirðingum leiðina suður um 40 km. Séu áherslur þessara tveggja stofnana VáÍs og bæÍs lagðar saman er niðurstaðan þrír fjallvegir (Arnkötludalur, Hjallaháls og Ódrjúgsháls) sem kosta að auki 240 milljónum meira í framkvæmd heldur en ef Arnkötludal væri sleppt og Hjallaháls og Ódrjúgsháls yrðu sveigðir niður á láglendið.

Arðsemi

BæÍs rökstyður 700 milljónir í Arnkötludal með 40 km styttingu fyrir Ísfirðinga (en langt í frá alla Vestfirðinga). Þessi 40 km stytting myndi því gera Djúpleiðina til Ísafjarðar jafnlanga/stutta eins og vesturleiðin er í dag. En þegar vegabót hefur verið gerð milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, – og endurnýjun vegar frá Bjarkarlundi að Eyri í Kollafirði (ef skynsemin verður með í för), verður vesturleiðin 50 km styttri en Djúpleiðin (90 km m.v. leiðina í dag), og mun sú stytting gagnast öllum Vestfirðingum öðrum en Inndjúpsmönnum og Strandamönnum. Hvað gera norðanmenn þá? Ætla þeir að aka lengri leiðina suður? Ef svo, hvers vegna? Ef ekki, hvers vegna leggja þeir sig þá ekki alla fram um að ná sem skynsamastri og bestri framtíðarlausn, í aðdraganda að endurnýjun vegar frá Bjarkarlundi að Eyri í Kollafirði – vegi sem þeir munu sjálfir nota í framtíðinni?

Tregagleði

Það er hálfnöturlegt að standa sjálfan sig að því að fagna, þegar höfuðstöðvar Vegagerðarinnar á Ísafirði skuli flytjast burtu og vegamálum Vestfirðinga skuli stjórnað frá Borgarnesi. Staðreyndin er bara sú að þegar horft er á vegamál Vestfirðinga úr ákveðinni fjarlægð og tekið er tillit til vegalengda, fjölda notenda vega, viðhald, umferðaöryggi og arðsemi, þá er það dagljóst að vesturleiðin stendur uppúr. Þetta munu Borgnesingar sjá eins og flestir aðrir. Þess vegna fagna ég.

Fleira hefur lagst á þá ár sem vona má að bjargi vestfirskri vegagerð frá skersteytingu. Nýlega var lögð fram þingsályktunartillöga um að fela samgönguráðherra að skipa nefnd til að gera úttekt á, fyrir 1.sept. 2004, hvernig megi stytta og bæta leiðir á þjóðvegi eitt og aðalvegum sem tengja byggðir landsins við þann veg. Samkvæmt tillögunni skal horfa til hagkvæmi umferðaröryggis, vegalengda og kostnaðar.

Samanlagðar áherslur VáÍs og bæÍs gefa ekki fyrirheit um umferðaröryggi, hagstæðra vegalengda og nýtikostnaðar. Að vísu er nú komin inn í matsáætlun fyrir Bjarkarlund - Eyri, leið B (láglendisleiðin), sem ekki var áður á lista VáÍs. Það er þó eingöngu harðfylgi yfirvalda í Barðastrandarsýslu að þakka og þá ekki síst Þórólfi Halldórssyni sýslumanni.

Hversu lengi má bíða eftir nútíma- nei framtíðarvegi?

Í grein í BB þann 9.febrúar skrifar Smári Haraldsson um vegamál á Vestfjörðum og kemur inn á nokkra þætti, m.a. það, að hann virðist sammála skrifum og baráttu Þórólfs Halldórssonar, en telur ófært fyrir Ísfirðinga að bíða hugsanlega í 20 ár eftir tengingu norður- og suðursvæðis, til að getað nýtt sér augljósa kosti vesturleiðarinnar. Þarf það að vera svo? Er ekki hægt að ná betri árangri í einhuga samstilltu átaki? Auðvitað-jú. Og, auðvitað-nei, ef fólk ætlar að vera að panta vegi út um hvippinn og hvappinn í stað þess að einbeita sér að því sem skilar sem mestum ávinningi fyrir Vestfirðinga í heild, því arðsemin vegur þungt í baráttu fyrir samgöngubótum.

Minna má á að núverandi samgönguráðherra sagði í grein á Þingeyrarvefnum í apríl 2003 m.a: „Samkvæmt jarðgangaáætlun sem ég lagði fyrir þingið og varð síðan hluti samgönguáætlunar var gert ráð fyrir að næstu jarðgöng (á eftir Reyðarfj. – Fáskrúðsfj. og Siglufj. – Ólafsfj.göngum) yrðu göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.“ Mitt mat er þó að í stað uppbyggingar Dynjandisheiðar samfara gangnagerð, skuli gerð göng úr Dynjandisvogi yfir í Geirþjófsfjörð og veg þaðan í Trostansfjörð. Þannig má nánast tala um láglendisveg frá Bíldudal til Bolungarvíkur, ef frá er talin Gemlufallsheiðin. Trostansfjarðarheiði er hægt að veggera, en auðvitað er ljúft að hugsa sér legg úr Geirþjófsfirði yfir í Vatnsfjörð eða Pennudal um göng.

Ísafjörð langar að verða …

Ísafjörð langar að verða: stór? miðstöð mennta á Vestfjörðum? þjónustu? verslunar? menningar? byggðakjarni Vestfirðinga í raun? Kannski það já, en eitt er víst, að gott símasamband dugir ekki eitt til þess. Það þarf samstilltan þrýsting Vestfirðinga til umbóta í vegamálum.

Að lokum. Einn bóndi í Arnarfirði ætti ekki að vera það afl sem opnar fyrir umferð milli norður- og suðurhlutans.

Arnar Guðmundsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi