Grein

| 15.05.2001 | 10:24Héraðsskóli seldur

Varla gat þessi frétt í „Stuttum fréttum“ DV verið styttri né minna athygli verð þann 27. apríl sl. Með fréttinni fylgdi ca. 15 til 20 ára gömul mynd af sundlauginni í Reykjanesi, áður en gömlu sundlaugarklefarnir voru fjarlægðir. Það var ekki sú mynd sem birtist í fréttinni hjá Bæjarins besta á Ísafirði þó að fréttin væri eftir því blaði höfð. Hvort þessi mynd átti að sýna að þetta væru ekki merkileg húsakynni og salan ekkert til að tala um veit ég ekki, en okkur hér sem betur þekkjum húsin hér, umhverfi staðar og sögu, finnst þetta grátleg óvirðing. Óvirðingin er að vísu fyrst og fremst hjá þeim ráðamönnum sem hafa þá einu stefnu að selja bara allt sem úti á landi er og nýtist þeim ekki beint á suðvesturhorninu. Þá skiptir engu hvað gildi eru í þeim menningarverðmætum sem landsbyggðafólk telur svo dýrmæt að þau eigi að vera þjóðareign og þjóðarsómi.
Og þó leitað væri vel þá sást engin frétt um þessa sölu í Morgunblaðinu.

Síðan skólahald var lagt niður í Reykjanesi og jafnvel fyrr hafa þeir sem um fjármálin sjá ákaflega lítið látið af hendi rakna til viðhalds þeim húsakosti sem í Reykjanesi er.

Það er óþarfi að rekja sögu Héraðsskólans í Reykjanesi náið hér, en húsakynnin í Reykjanesi og sennilega hjá fleiri héraðsskólum bera vott um mikinn stórhug og dugnað þeirra sem þau byggðu og að þeim stóðu. Þau eru á vissan hátt menningararfur dreifbýlisins, sem svo örfáir menn geta tekið og selt hverjum sem er á hvað sem er, bara af því að þau standa ekki á þeim stað sem flestir af þjóðinni búa á.

Svo virðist sem lítið sem ekkert sé spáð í hvaða afleiðingar það hefur að selja Reykjanes, sem á vissan hátt hefur verið og þarf að vera áfram sem miðstöð mannlífs við Djúp. Staðurinn sem hýsir raforkuna okkar þegar vatnið þrýtur í ánum og vatnsveiturnar stöðvast, og staðurinn sem ferðamenn jafnt sem heimamenn geta komið á allt árið, líka í öskubyl um hávetur. Hér fáum við bensín og olíu á bílana okkar og síðast en ekki síst staðurinn sem á svo ómældan fjársjóð að enginn getur metið til fulls, allt heita vatnið og það sem það hefur gefið okkur í formi endurnæringar á sál og líkama í svo ótal mörg ár.

Samkvæmt þeim heimildum sem greinarhöfundur hefur, taldi starfsmaður menntamálaráðuneytisins að þessi sala myndi hleypa miklu lífi í staðinn. Nýi eigandinn, Hreinn Sigurðsson, ætlaði að koma með þrjár til fjórar fjölskyldur i Reykjanes og gera mikið. Aðspurður um hvað til stæði, þá átti þetta að vera þörungarækt eða rannsóknir ásamt einhverjum líftækniiðnaði.

Einhverra hluta vegna heyrði hvorki landeigandi né sveitarstjórn neitt frá nýja kaupandanum um hvað hann hyggðist fyrir og þarf þó leyfi þessara aðila til framkvæmdanna.

Samkvæmt upplýsingum yfirlögfræðings Ríkiskaupa í lok apríl voru kaupin frágengin og undirskrifuð. Þegar spurt var um hvenær afhending eignarinnar færi fram var svarið: Þegar hann er búinn að borga.

Þá lá auðvitað beinast við að spyrja hvort nýi kaupandinn væri að vinna í því og svarið var: Hann er búinn að borga okkur. Þar með var málið útrætt.

Nú í dag, þann 14. maí, berast hins vegar þær fréttir, að þessi nýi kaupandi sé enn að leita að peningum til að greiða staðinn með.

Eruð þið hissa að tiltrúin sé farin að minnka á þeim mönnum sem með þessi mál fara og hikstalaust segja okkur hér á hjara veraldar ósatt?

Allt frágengið en samt stenst ekkert.

Þá vakna spurningar: Hvað fær blessaður maðurinn langan tíma til að tína til þessar 25 milljónir fyrir staðinn? Varla getur hann gert annað en standa við kaupin, ekki síst þar sem hann fékk nú fylgd frá starfsmanni menntamálaráðuneytisins hingað vestur til að skoða allt hér, daginn áður en salan var auglýst í vetur.

Og hvað skyldi nú allt þetta sölubrölt á húseignunum í Reykjanesi vera búið að kosta mikið? Kannski drjúgan hluta af sölupeningunum?

Við sem höfum staðið að rekstri ferðaþjónustu í Reykjanesi sl. þrjú ár erum að sjálfsögðu nokkuð sátt við að hafa potað verðgildi staðarins upp um 10 milljónir á þessum árum, því þegar við tókum húsakynnin á leigu 1997, þá ætluðu þessir blessaðir ráðamenn að selja allt hér fyrir fimmtán milljónir. Og þó svo að menntamálaráðherrann mælti með að leigja okkur, þá þurfti talsverða ákveðni til að ná því í gegn.

Vegna þeirra fjölmörgu sem spurt hafa og eiga pantað í Reykjanesi í sumar vil ég aðeins segja að á þessari stundu er ekkert annað vitað en Ferðaþjónustan Reykjanesi ehf. muni stafa óbreytt þetta ár amk.

Þeim sem hafa áhuga á að skoða smáhluta af sögu staðarins í máli og myndum skal bent á heimasíðuna okkar www.rnes.is og að sjálfsögðu eru allir velkomnir í Reykjanes, því sjón er sögu ríkari.

Reykjanesi, 14. maí 2001.
Margrét Karlsdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi