Grein

Bryndís Friðgeirsdóttir.
Bryndís Friðgeirsdóttir.

Bryndís Friðgeirsdóttir | 02.03.2004 | 16:22Enn um akstur fatlaðra

Eins og kunnugt er hefur mikið verið rætt í fjölmiðlum undanfarið um útboð Ísafjarðarbæjar á ferðaþjónustu fatlaðra í bæjarfélaginu. Einkum hefur umræðan snúist um það hvers vegna bæjarráð hefur enn ekki tekið ákvörðun um að ganga til samninga við lægstbjóðanda eins og lög og reglur gera ráð fyrir þegar hið opinbera á í hlut, í þessu tilfellli Ísafjarðarbær.

Það er skemmst frá því að segja að þegar fundargerð félagsmálanefndar var tekin fyrir í bæjarráði þann 23. febrúar sl. þar sem fjallað var um tilboð í fyrrnefndan akstur þá fylgdu engin gögn með fundargerðinni og gagnrýndi ég það harðlega. Ég ætla ekki að halda því fram að meirihluti bæjarráðs hafi ætlað umhugsunarlaust að fara að ábendingum félagsmálanefndar um að taka ekki lægsta tilboði, heldur því næstlægsta á þeim forsendum að ekki væri það mikill munur á tveimur lægstu tilboðunum að ástæða væri til að skipta um þjónustuaðila þar sem notendur þjónustunnar væru viðkvæmir fyrir breytingum. Félagsmálanefndin sem var einhuga í málinu var að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna eins og henni ber að gera.

Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að bæjarráð fer með fjárhagsmál sveitarfélagsins og ber að kynna sér öll mál gaumgæfilega áður en ákvörðun er tekin í málum er varða útgjöld í einstökum málaflokkum. Þess vegna gagnrýndi ég harðlega að tilskilin gögn hefðu ekki verið lögð fram á fundinum svo hægt væri að fjalla um málið.

Á næsta fundi bæjarráðs sem haldinn var þann 1. mas sl voru umbeðin gögn loks lögð fram. Í þeim gögnum kemur m.a.fram í bréfi frá tæknideild að; eftir skoðun tilboða og framlagðra gagna frá tveimur lægstbjóðendum teljist báðir hæfir samkvæmt útboðslýsingu.

Það má spyrja þeirrar spurningar, af hverju þetta einstaka mál hefur vakið svo mikla umræðu í bæjarfélaginu og fjölmiðlum sem raun ber vitni. Svarið er einfalt; einn af tilboðsgjöfum er Guðni Geir Jóhannesson, formaður bæjarráðs og er ekki lægstbjóðandi þó félagsmálanefnd ráðleggi að taka tilboði hans. Með þessum skrifum er ekki verið að gefa í skyn að formaður bæjarráðs hafi ekki sama rétt og aðrir á að bjóða í verk á vegum bæjarins og ekki heldur er verið að halda því fram að hann hafi betra aðgengi að verkum sem boðin eru út. En vegna hagsmunatengsla í þessu máli verða bæjarráðsmenn að vanda sig sérstaklega við að rökstyðja sína afstöðu til þess að ekki leiki hinn minnsti vafi á sjálfri ákvarðanatökunni.

Nú hefur hins vegar komið í ljós að formaður bæjarráðs hefur dregið tilboð sitt til baka og hefur bæjarráð í því ljósi sent málið aftur til félagsmálanefndarinnar enda hefur hún haft veg og vanda að undirbúningi málsins.

Hver ástæðan kann að vera fyrir því að formaður bæjarráðs féll frá sínu tilboði er okkur hinum óviðkomandi en það skal tekið fram að fjölmiðlar svo og Samfylkingin í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar eiga enga sök á því. Það hefði hins vegar verið hægt að koma í veg fyrir viðkvæma og óþægilega umræðu um málið ef umrædd gögn hefðu verið kynnt fulltrúum í bæjarráði þegar það kom fyrst á dagskrá. Þá hefði almenningur og ekki síst fjölmiðlar sem hafa skildum að gegna við almenning í landinu fengið málið til umfjöllunar á fyrstu stigum þess og umræðan því verið opin og lýðræðisleg frá upphafi.

En það hefur oft verið miður góður siður að hengja boðberann og ættu fjölmiðlamenn að kannast við það þegar meirihluti bæjarstjórnar í Ísafjarðrbæ á í hlut.

Bryndís Friðgeirsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi