Grein

Einar Guðmundsson | 01.03.2004 | 23:21Á krossgötum

Við vestur Barðstrendingar erum búnir að missa forseta bæjarstjórnar Vesturbyggðar til Keflavíkur og það sem verra er, frábæran lækni svo erfitt verður að fylla sætið hans. Skömmu áður en hann hélt suður sagði hann í ræðu við vígslu íþróttahússins nýbyggða á Bíldudal. „Hér er gott að vera,“ og svo fór hann sjálfur burt. Þetta hljómaði kannski dálítið undarlega, en ég býst við að flestir sanngjarnir menn hafi skilið hann og ekki láð honum þótt svona færi. Einfaldlega vegna þess að hann á börn á framhaldsskólaldri og ekki um annað að ræða en senda þau burtu til vetrardvalar í skólum, þar sem þau geta ekki einu sinni verið heima um helgar. Hvað þá að koma heim eftir skóla daglega og njóta heimilis og stuðnings foreldra á viðkvæmum aldri.

Í gær var sagt frá því í fréttum útvarps að bóndi í Arnarfirði hefði mokað Dynjandisheiði án leyfis Vegagerðarinnar. - Þvílík ósvífni! – Með þessu framtaki varð fært milli suður og norðursvæða Vestfjarða eftir átta vikna lokun. Landleiðin milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar styttist, með þessu framtaki bóndans, um 220 km. - Það fylgdi fréttinni að Vegagerðin ætlaði að láta þetta afskiptalaust.

Öðru hverju er í fréttum talað um uppbyggingu þjónustumannvirkja fyrir Vestfirðinga, á Ísafirði, s.s. menningarhúss og háskóla, - auk þess sem fyrirtæki á borð við Húsasmiðjuna og Bónus bjóða þar vörur sínar á sama verði og í Reykjavík. Þar að auki er ýmis konar sameiginleg þjónusta fyrir allt Vestfjarðasvæðið staðsett á Ísafirði, s.s. Fjórðungssamband Vestfirðinga, Orkubú Vestfjarða, Síminn ofl. að ógleymdri Skattstofu Vestfjarða. Það virðist hins vegar vera lítill áhugi fyrir því að Vesturbyggð og Tálknafjörður geti notið þessarar þjónustu nema meðan æðri máttarvöld halda opnum vegi þangað.

Ég hef heyrt það á mörgum hér á suðursvæði Vestfjarða, að kominn sé tími til að leita samvinnu við byggðirnar sunnan Breiðafjarðar, því við eigum betur samleið með þeim um mörg þau mál sem við verðum að leysa nú þegar, ef við eigum að halda hér byggð og efla hana. Nefna má að í Stykkishólmi liggja tvær ferjur sem fara á sumrum með fólk um Breiðafjörð og eru aðeins eina klukkustund og 18 mínútur milli Brjánslækjar og Stykkishólms. Verið er að reisa framhaldsskóla í Grundarfirði, þangað verða nemendur fluttir daglega af nesinu. Mætti e.t.v. eiga einhverskonar samvinnu á því sviði?

Eitt er þó víst, að ef halda á Vestfjörðum sem einni heild getum við ekki átt vetrarsamgöngur okkar, milli suður- og norðursvæða héraðsins, eingöngu undir Guði almáttugum og dugmiklum bændum í Arnarfirði.

Seftjörn á Barðaströnd, á hlaupársdegi 29. febrúar 2004,
Einar Guðmundsson.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi