Grein

Hlynur Snorrason.
Hlynur Snorrason.

| 08.05.2001 | 09:10Ripped Fuel er ólöglegt

Að gefnu tilefni rita ég þessi orð. Ég beini þeim sérstaklega til unga fólksins, sem hyggst ná skjótum árangri t.d. í íþróttaiðkun eða í því að grennast hratt og örugglega, svo eitthvað sé nefnt. Einnig beini ég orðum mínum til þeirra sem hafa notað eða hyggjast nota Ripped Fuel við skemmtanir, t.d. með áfengisneyslu.

Ripped Fuel eru hylki sem innihalda efedrin, koffín, L-carnitín og kromium. Efnið fór að vera vinsælt hér á landi upp úr 1994. Það hefur verið sérstaklega vinsælt hjá ungu fólki sem sækist eftir örvandi eiginleikum þess s.s. til að bæta árangur sinn í íþróttum, í prófum eða í baráttunni við aukakílóin.
Ripped Fuel væri ekki ólöglegt hér á landi, nema af því að í því er lyfið efedrín, en það lyf er á bannlista og ólöglegt í dreifingu hér á landi. Reyndar er efedrín að finna í einu löglegu lyfi á Íslandi, en það er ákveðin hóstamixtúrutegund. Að öðru leyti er efnið og öll lyf sem innihalda þetta efni bönnuð í dreifingu hér á landi. Ripped Fuel hefur fengist fram til þessa án lyfseðils í Bandaríkjunum, en eftir miklar rannsóknir á lyfinu hefur mikið verið rætt um að takmarka skuli sölu þess þar og hefur það nú þegar verið gert í a.m.k. þremur ríkjum.

Verkun efnisins er margþætt, en það sem neytandinn er aðallega að sækjast eftir er að það eykur blóðflæði til hjarta, örvar öndun (súrefnisupptöku) og er berkjuvíkkandi.

Hins vegar eru margar aukaverkanir sem fylgja inntöku lyfsins og er það þess vegna bannað hér á landi. Þessar aukaverkanir eru t.d. óhóflegt álag á hjarta sem lýsir sér í hröðum hjartslætti og gáttaflökti, of hár blóðþrýstingur og stækkun blöðruhálskirtils sem hefur í för með sér þvagtregðu. Þá koma einnig fram aukaverkanir frá miðtaugakerfi, s.s. kvíðaköst, taugaveiklun, skjálfti og svefnerfiðleikar. Þegar lyfið hefur verið notað í einhvern tíma er hætta á ofsóknarbrjálæði, ofskynjunum, árásargirni, þunglyndi eða geðklofaeinkennum. Dæmi eru um að dauði hafi hlotist af völdum efedrínneyslu og eru um 800 mál tengd efedríni til skoðunar hjá FDA (Food and Drug Administration) í Bandaríkjunum.

Efninu er dreift og selt af ýmsum misvirtum aðilum hér á landi. Þeir kynna efnið sem hættulaust efni, sé það tekið inn í hófi. Þessum mönnum er greinilega ekki treystandi og þeir eru svo sannarlega ekki að hugsa um afleiðingar efnisins. Ég skora á þá sem er boðið efnið að láta lögregluna vita. Fyllsta trúnaðar er gætt, rétt eins og ef um upplýsingar um fíkniefnamisferli er að ræða. Það er saknæmt að dreifa Ripped Fuel, hvað þá efedríntöflum, og þá sem það gera þarf að láta sæta ábyrgð. Þið sem teljið ykkur þurfa á aðstoðarefnum s.s. fæðubótarefnum að halda, ráðfærið ykkur frekar við fagfólk, eins og næringarfræðinga, heilsugæslufólk eða lyfsala. Ef lyfið er ekki hægt að fá í apótekum, verslunum eða sérstökum heilsuvöruverslunum má ætla að efnið sé ólöglegt og því hættulegt.

Hlynur Snorrason,
lögreglufulltrúi á Ísafirði.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi