Grein

Þórólfur Halldórsson.
Þórólfur Halldórsson.

Þórólfur Halldórsson | 19.02.2004 | 09:23Beturvitinn Stakkur

Í BB 11. febrúar sl. setur Stakkur sig enn á ný í stellingar hins almáttuga beturvita. Beturvita, sem í krafti þess huliðshjálms sem BB varpar yfir hann, getur leyft sér að leggja mönnum orð í munn og gagnrýna ómálefnalega allt og alla, mis illa upplýstur þó um staðreyndir máls. Hinn hugumstóri beturviti hangir á þessum pilsfaldi leyndarinnar eins og hundur á roði.
Í pistli sínum rangfærir og rangtúlkar beturviti ýmislegt sem ég skrifaði í grein minni í BB 28. janúar sl. um nýtt skipurit Vegagerðarinnar og tvenn jarðgöng í „sveitarfélaginu“ Vestfjörðum. Hann gerir Vegagerðinni upp ástæður fyrir nýju skipuriti og reynir að gera bæjarstjóra og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tortryggilega. Aðdróttanir beturvita eru slíkar að annað hvort er hann alveg ólesinn í málinu og veit þar af leiðandi ekki betur, eða, sem líklegra er, hann talar gegn betri vitund.

Þó svo að beturviti hafi verið litlu nær eftir lestur greinar minnar í BB, gerir hann lítið úr hinum almenna lesanda BB, með því að ætla honum að vera jafn litlu nær og beturviti var sjálfur eftir lesturinn.

Ég hef t.d. engan séð nema beturvita halda því fram að með orðum mínum: „Hið nýja skipurit Vegagerðarinnar er mál sem er með öllu óskylt þeirri hugmynd að Ísafjörður verði gerður að kjarnasvæði fyrir Vestfirði“ sé ég að draga þá ályktun „að í framhaldi þessa flutnings yfirstjórnar til Borgarness muni jarðgöng verða gerð undir Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði og menn skreppa í gleraugnabúðina á Ísafirði ...“ eins og beturviti heldur fram í pistli sínum.

Beturviti talar síðan eins og það sé einkamál hans og bæjarstjórnar Ísafjarðar hvaða hátt Vegagerðin á Ísafirði (les Vegagerðin á Vestfjörðum), hefur á þjónustu þeirri sem hún veitir, líkt og Vegagerðin eigi ekki líka að þjóna Bolvíkingum, Súðvíkingum, Strandamönnum, íbúum Reykhólahrepps, Tálknfirðingum og Barðstrendingum svo ekki sé minnst á Dýrfirðinga og „ísfirska“ Arnfirðinga.

Beturviti klikkir svo út með því að hafa vit fyrir okkur óupplýstum pöpulnum á Vestfjörðum að þar sem okkur fer fækkandi og Reykvíkingum fjölgandi sé nú vissara að við séum ekki að setja okkur á háan hest og krefjast forgangs í vegaframkvæmdum á meðan það vantar enn nokkur mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu!

Það er svosem rétt hjá beturvita að utan Vestfjarða fer vitneskja almennings um hvernig malarvegir líta út þverrandi. Ég lít svo á að þetta sé vitneskja sem við þurfum ekkert sérstaklega á að halda, og að full ástæða sé til þess að keppa að því leynt og ljóst að við verðum jafn fáfróð um þetta og íbúar höfuðborgarsvæðisins og Árnesingar, og það sem allra fyrst.

Síðan held ég að beturviti ætti að fá sér ný gleraugu.

Þórólfur Halldórsson á Patreksfirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi