Grein

Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Lilja Rafney Magnúsdóttir | 17.02.2004 | 14:50Opið bréf til bæjaryfirvalda um skólamál í Ísafjarðarbæ

Þar sem nú liggur fyrir tillaga í fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar um að leggja niður 8. 9. og 10. bekk við grunnskólana á Suðureyri og á Flateyri og keyra þeim nemendum á Ísafjörð til kennslu vil ég hvetja ráðamenn okkar að flana ekki að neinu og setja sig í spor þeirra sem búsetu hafa í Súgandafirði og á Flateyri. Grunnskólinn er kjarni hvers byggðarlags og búseta okkar sem hér búum ræðst að stórum hluta af því að boðið sé upp á samfellt nám frá leikskóla til loka skyldunáms. Fyrir því var barist á sínum tíma að fá á þessa staði 10. bekk og þar með dregið úr þeirri þróun að fjölskyldan flytti í burtu þegar börn þeirra fóru í framhaldsnám. Síðan kom sú mikla samgöngubót sem jarðgöngin eru og styrkti það gífurlega þessar byggðir að unglingar gætu haldið áfram að sækja nám frá heimilum sínum með áætlunarferðum á milli staða. En það væri mikil afturför ef leggja ætti það á börn frá þessum stöðum strax frá 14 ára aldri að sækja skóla á Ísafirði í 7 ár með framhaldsnámi í Menntaskólanum og trúi ég því að foreldrar á Ísafirði myndu ekki taka því þegjandi ef dæminu yrði snúið við og börnum keyrt til Suðureyrar eða Flateyrar til að nýta þar betur skólahúsnæði og kennslu, enda skiljanlegt.
Við þurfum að hafa í huga félagslega þáttinn á þessum stöðum í dag búa þessir krakkar við gott félagslíf í sinni heimabyggð en eðlilega myndi það allt breytast og sótt yrði í félagslíf á Ísafirði sem erfitt yrði að uppfylla nema foreldra væru á sífelldum þeytingi á milli staða því áætlunarferðir bjóða ekki upp á slíkt í dag og enginn snjómokstur er að kvöldlagi. Í dag er ágætur samgangur á milli skóla í félagslífi og er það af hinu góða.

Lengi hefur verið barist fyrir íþróttahúsi á Suðureyri og nú þegar það virðist loksins í sjónmáli er einkennilegt að hugmyndir séu uppi um að veikja svo skólastarfið hér með því að fækka nemendum við skólann eða hvar eiga þessir nemendur að sækja íþróttir, ef það á að vera á Suðureyri og á Flateyri hlýtur að koma til aukinn akstur eða lenging skóladags.

Ráðamenn verða að átta sig á því að þeir eru með fjöregg þessara byggða í hendi sér og ótrúlegt að íbúar sem hafa svarað því skýrt að þeir vilji hafa þessa bekki í heimabyggð þurfi stöðugt að verjast þessum hagræðingar hugmyndum bæjaryfirvalda. Í nýlegri vihorfskönnun sem gerð var í grunnskólanum á Þingeyri, Flateyri og á Suðureyri kom fram að viðhorf foreldra var frekar eða mjög jákvætt til skóla barna sinna. Einnig voru foreldrar í heildina ánægðir með stjórnendur og umsjónakennara skólans, þetta gefur glögga mynd af því að almenn ánægja er með skólastarfið og gef ég lítið fyrir allt tal um að slæmt sé að samkennsla þurfi að vera og einhverjar valgreinar ekki í boði, reynslan hefur sýnt annað enda má koma til móts við þá þætti með fjarkennslu og samstarfi skóla. Komið hefur í ljós að þeir nemendur sem hér hafa lokið námi eru síst verr undirbúnir en aðrir að takast á við framhaldsnám og tala ég þar líka af eigin reynslu þar sem þrjú af mínum börnum luku hér grunnskólanámi með samkennslu af einhverju tagi og hafa þau ekki hlotið skaða af og gengið vel í sínu framhaldsnámi.

Ég læt þetta duga í bili og hvet foreldra í Súgandafirði og á Flateyri að standa vörð um skólastarfið í sinni byggð og skora á bæjaryfirvöld að kasta ekki þessu fjöreggi á milli sín það gæti brotnað. Nógu veik og brothætt er nú byggð og búseta hér í Ísafjarðarbæ fyrir, þó svo bæjaryfirvöld veiki ekki stoðirnar innanfrá.

– Lilja Rafney Magnúsdóttir, foreldri við Grunnskólann á Suðureyri.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi