Grein

Leikskólinn Bakkaskjól í Hnífsdal.
Leikskólinn Bakkaskjól í Hnífsdal.

Foreldrar barna í Hnífsdal | 16.02.2004 | 15:31Ekki stóð steinn yfir steini

Föstudaginn 6. febrúar s.l. var gerður starfslokasamningur við fjórar fóstrur á leikskólanum Bakkaskjóli í Hnífsdal. Því miður náðust ekki sættir í þessu erfiða máli og því fór sem fór. Uppsagnarfrestur þeirra rennur hinsvegar ekki út fyrr en 1. mars. Okkur foreldrum var tjáð, bæði af bæjarstjóra og yfirmanni Skóla- og fjölskylduskrifstofu, að búið væri að manna stöðurnar og því þyrfti ekki að auglýsa enda nóg af fólki. Í þeirri trú mættum við allflest með börnin okkar á mánudegi. En ekki stóð steinn yfir steini. Ráðin var leikskólastjóri til bráðbirgða í einn mánuð, og var hún sú eina af nýja fólkinu sem var í vinnu frá mánudegi til föstudags. Ný fóstra mætti á hverjum degi og ein dvaldi til að mynda í hálfan dag. Þegar við leituðum upplýsinga hjá Skóla- og fjölskylduskrifstofu fengum við þær upplýsingar að verið væri að „redda“ málunum.
Það er einkennileg stefna fræðsluyfirvalda að reka leikskóla með reddingum. Það voru þung spor fyrir okkur foreldra að mæta með börnin okkar síðastliðna viku. Það er alveg ljóst að börn þurfa öryggi og festu og þau vinnubrögð sem fræðsluyfirvöld hafa viðhaft í þessu viðkvæma máli er þeim ekki til sóma. Eins og deilan snéri að okkur sem foreldrum fjallaði hún fyrst og fremst um „praktískar“ hliðar en smátt og smátt breyttist hún í deilur milli manna og í öllu ferlinu gleymdust börnin okkar. Það er alvarlegast að sú stofnun sem á að standa vörð um hagsmuni okkar foreldra og barnanna brást þ.e.a.s. Skóla- og fjölskylduskrifstofa.

Börnin okkar sakna þeirra kvenna sem létu af störfum og það gerum við foreldrarnir líka. Sú stefna sem rekin var á Bakkaskjóli var mannbætandi bæði fyrir börn og fullorðna. Góður andi ríkti á skólanum og alltaf var vel tekið á móti okkur með brosi og hlýju viðmóti. Þar ríkti fullkomið traust milli barna, foreldra og fóstra. Við þökkum þessum góðu konum fyrir vel unnin störf og fyrir alla þá hlýju sem þær veittu börnunum okkar. Við bjóðum líka nýjar fóstrur velkomnar til starfa og vonum að sá góði andi sem ríkt hefur á Bakkaskjóli megi áfram ríkja, börnunum okkar til heilla.

Anný Guðmundsdóttir, Gabríela Aðalbjörnsdóttir, Gerður Einarsdóttir, Gerður Ólafsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, Gyða Jónsdóttir, Heba Halldórsdóttir, Marij Colruyt, Sigrún Hinriksdóttir, Rúna Gunnarsdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi