Grein

Kristrún Lind Birgisdóttir.
Kristrún Lind Birgisdóttir.

Kristrún Lind Birgisdóttir | 13.02.2004 | 10:08Sagan endalausa

Hópurinn fór vandlega yfir fjórar leiðir sem færar væru í því samhengi að sameina unglingastigin. Í fyrsta lagi að öllum grunnskólunum fjórum yrði hér eftir sem sem hingað til boðið upp á kennslu í öllum bekkjardeildum, þ.e. í l.- l0.bekk. Minni skólunum þremur yrði gert kleift að bjóða nemendum upp á nám sem uppfylli skilyrði Aðalnámskrár með því að tryggð yrði markviss samvinna og samráð milla allra skólanna fjögurra í bæjarfélaginu, en skipulag þess yrði í höndum starfsmanns Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar sem sinnt gæti kennsluráðgjöf og samstarfí litlu skólanna í u.þ.b. 50% starfi.

Í öðru lagi að stofnað yrði til skólahalds á Núpi í í Dýrafirði fyrir nemendur í 8.-10. bekk frá Þingeyri, Suðureyri og Önundarfirði. Hugsanlega yrði bæði um að ræða skólaakstur og dvöl í heimavist eða annað hvort. Í þriðja lagi að stofnað yrði til skólahalds í húsnæði Menntaskólans á Ísafirði þar sem nemendur í 8.-10. bekk. frá Suðureyri og Flateyri nytu kennslu. Þeim yrði ekið til Ísafjarðar en skólinn á Þingeyri yrði óbreyttur frá því sem nú er.

Í fjórða lagi yrði gert ráð fyrir að nemendur í 8.-10. bekk frá Flateyri og Suðureyri stunduðu nám við Grunnskólann á Ísafirði. Unglingunum frá Suðureyri og Flateyri yrði ekið til Ísafjarðar en skólinn á Þingeyri yrði óbreyttur frá því sem nú er. Það var niðurstaða starfshópsins þegar allir kostir höfðu verið skoðaðir að fyrsta hugmyndin um að halda áfram að byggja upp litlu skólana í hverjum firði fyrir sig gæfu mestu möguleika á að tryggja nemendum í 8.-10. bekk á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri kennslu í samræmi við kröfur Aðalnámskrár án þess að því fylgi óæskileg röskun á félagslegum högum nemenda og heimila.

Starfshópurinn lagði jafnframt til að fjarfundabúnaður yrði keyptur ef verulegur kennaraskortur yrði og gerðar yrðu tilraunir með að samnýta kennara á milli litlu skólanna og að ráðgjöf og samvinna við skólana yrði aukin. Það var mat starfshópsins að ekki væri hægt að byggja skólastarf upp á fjarkennslu nema ef útilokað reyndist að útvega kennara. Í þessu samhengi var m.a. litið til tilraunarinnar sem gerð var með fjarkennslu á milli grunnskólans á Hólmavík og Broddanesskóla í Kollafirði.

Á 120. fundi fræðslunefndar var tillaga starfshópsins lögð fyrir og fræðslunefnd lagði til að skýrslan yrði lögð til grundvallar við endurskoðun á skólastefnu fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar 2002. Ég sé ekki betur en að það hafi verið gert enda stendur þar ,,Fræðslunefnd telur æskilegt að allir nemendur grunnskólanna í Ísafjarðarbæ geti stundað nám í sínu skólahverfi“. Engin stefnubreyting hefur orðið á skólastefnu Ísafjarðarbæjar enda hlýtur meirihluti kosinna fulltrúa í fræðslunefnd að vera sammála um stefnuna. Samvinna skólanna hefur aukist ár frá ári og sl. tvö ár hefur náms- og kennsluráðgjafi í 50% starfi farið á milli skólanna og m.a. haft yfirumsjón með samstarfi skólanna og sátt ríkir um samstarfið. Samstarf skólastjóranna er almennt gott að sögn a.m.k. eins þeirra.

Elías leggur til að stjórnskipulag skólanna verði endurskoðað, þá á hann væntanlega við hugmyndina um einn skólastjóra yfir öllum skólunum. Í því samhengi vil ég sérstaklega gera úthlutun á kennslumagni og stjórnunarhlutfall skólastjóra að umræðuefni þó það hafi ekki verið formlega rætt í umræddum starfshópi.

Laun skólastjóra í litlum skólum eru ekkert sérstaklega há og kennsluskyldan er mikil. Í síðustu kjarasamningum var því komið þannig fyrir að stjórnunarhlutfall skólastjóra er í samræmi við stærð skólanna – líklega til þess að koma í veg fyrir hugmyndir um sameiningu grunnskóla. Skólastjóri skiptir miklu máli fyrir hvern lítinn grunnskóla, hann er faglegur leiðtogi stofnunarinnar og ber ábyrgð á henni. Deildarstjóri myndi ekki ganga inn í sama hlutverk og skólastjóri gerir og að öllum líkindum yrði deildarstjórinn fljótt mun dýrari starfskraftur t.d. vegna þess að ekkert þak er á kennsluyfirvinnu deildarstjóra. Árið 2002 voru útbúin viðmið hjá Ísafjarðarbæ um úthlutun á kennslumagni við grunnskólana í Ísafjarðarbæ. Í ljós hafði komið að kennarar við litlu skólana voru mis margir. Viðmiðin sem voru útbúin eiga að tryggja það að við grunnskólana fækki stöðugildum til jafns við nemendur og kjarasamningar skólastjóra tryggja að stjórnunarhlutfall þeirra minnkar eftir því sem að nemendum fækkar. Stöðugildi við litlu grunnskólana í Ísafjarðarbæ ættu því alltaf að vera í samræmi við stærð þeirra.

Þess vegna spyr ég: Hvað hefur breyst? Hvað fær fulltrúa fræðslunefndar Elías Oddsson til þess að taka stefnubreytingu sem þessa upp á sitt einsdæmi, að því er virðist? Ég veit að nemendum í Ísafjarðarbæ og í litlum skólunum hefur fækkað, það vissum við að myndi gerast þegar starfshópurinn skilaði niðurstöðu sinni og það vissi formaður fræðslunefndar líka. En skólarnir eru ennþá hornsteinar samfélaganna, það hefur ekkert breyst og verði unglingastigið flutt til Ísafjarðar frá Grunnskóla Önundarfjarðar og Grunnskólanum á Suðureyri kemur það til með að hafa afdrifaríkar afleiðingar á þorpin, skólastarf og skólamenningu. Gerum ekki lítið úr skólastarfi í litlu þorpunum – höldum lífi í þeim á meðan að líf þrífst þar með góðu móti.

Kristrún Lind Birgisdóttir, fyrrverandi skólastjóri við Grunnskóla Önundarfjarðar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi