Grein

Sturla Páll Sturluson.
Sturla Páll Sturluson.
Umrædd „tota“ á horni Hrannargötu og Fjarðarstrætis.
Umrædd „tota“ á horni Hrannargötu og Fjarðarstrætis.

Sturla Páll Sturluson | 03.09.2002 | 14:04Slysavörn eða slysagildra?

Ökumenn sem leið eiga um Fjarðarstrætið á Ísafirði hafa flestir orðir varir við „totuna“ sem byggð var út í götuna frá Hrannargötu. „Tota“ þessi er væntanlega hugsuð fyrir ökumenn sem aka austur Hrannargötuna til þess að tryggja að þeir komist út á Fjarðarstrætið og sjái til umferðar þar. Má með sanni segja að ágætlega hafi til tekist hvað það varðar. Einu gleymdi hönnuðurinn þó við gerð þessa merka „gatnamannvirkis“, en það er ásýnd þess frá Fjarðarstrætinu.
„Tota“ þessi er steypt u.þ.b. meter út í Fjarðarstrætið, þvert á aksturstefnu bifreiða sem aka suður götuna. Er „totan“ steinlituð svo varla er hægt að greina hana frá götunni þegar skyggja tekur. Á henni stendur síðan rörbútur sem einnig er grár og rennur auðveldlega saman við umhverfið í lélegu skyggni. Efst á þessum rörbút er svo áberandi gulröndótt merki sem snýr þvert á akstursstefnu Hrannargötunnar og sést þaðan mjög vel þegar ekið er austur hana. Merkið góða snýr hins vegar langsum með Fjarðarstrætinu og sést því aðeins í ólitaðan enda þess þegar ekið er niður Fjarðarstrætið.

Tel ég því að þarna hafi verið búin til slysagildra í stað slysavarnar. Veit ég nokkur dæmi þess að ökumenn hafi ekki séð „totuna“ né rörið fyrr en á síðustu stundu og rétt náð að forða ákeyrslu. Eitt dæmi veit ég þar sem ökumaður kom akandi niður Fjarðarstrætið í myrkri og súld og ók utan í „totuna“ og skemmdi nokkuð hjá sér bifreiðina. Aðspurður sagðist hann ekki hafa séð „totuna“ né rörið við þau birtuskilyrði sem þá voru og taldi hann sig því hafa ekið á stein eða annað sem legið hafi á götunni. Það var ekki fyrr en hann fór að skoða aðstæður betur að hann sá hvers kyns var.

Með því að mála „totuna“ í gulum lit eins og gengur og gerist með gangstéttarbrúnir væri eitt skref stigið í átt til úrbóta. Með því að mála rörbútinn gulann, væri annað stórt skref tekið. Fullkomna mætti síðan verkið með því að setja sjálflýsandi merki á staurinn sem snéri gengt akstursstefnu bifreiða sem aka suður Fjarðarstrætið.

Er hér með skorað á viðkomandi rekstraraðila, hvort heldur er Vegagerðin eða Ísafjarðabær, að kippa þessu í liðinn sem fyrst áður en fleiri slys hljótast af slysavörninni.

Sturla Páll Sturluson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi