Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón Fanndal Þórðarson | 04.02.2004 | 11:43Steininn burt

Ég beini þeim tilmælum til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, að hún láti fjarlægja steinhnullunginn sem settur var niður fyrir framan húsið að Mánagötu 1 á Ísafirði og átti að vera til heiðurs Hannesi Hafstein fyrsta ráðherra Íslands og var sýslumaður á Ísafirði frá 1896 til 1904. Mér finnst þessi minnisvarði, ef minnisvarða skyldi kalla, vera niðurlægjandi fyrir minningu þess merka og dáða manns sem Hannes Hafstein óneitanlega var og einkar ósmekklegur. Þeir sem hönnuðu og staðsettu þennan óskapnað eiga litlar þakkir skildar og virðast hafa furðulegan smekk.
Á Ísafirði hafa búið í gegnum tíðina margir af þekktustu mönnum þjóðarinnar. Ég er viss um að ekkert bæjarfélag á landinu getur státað af jafnmiklu mannavali, enda var Ísafjörður sá staður á landinu sem mest var horft til og ekki að undra þótt merkustu menn þjóðarinnar veldust hingað. Ef ætti að setja grjót fyrir framan öll hús á Eyrinni, sem merkir menn hafa búið í, með áletruninni: „Hér bjó“, þá yrði Eyrin eins og kirkjugarður, að öðru leyti en því, að á legsteinum stendur: „Hér hvílir“. Smekkleysan ríður ekki við einteyming hjá sumu fólki.

Þá vil ég koma inn á hina frægu ráðherraveislu sem bæjarstjórnin hélt sjálfri sér. Ég ætla ekki að nefna kostnaðinn, þær tölur verða væntanlega birtar síðar. En það er tilefni veislunnar sem ég vildi gera að umtalsefni. Í mínum huga er það kristaltært, að þessi atburður, þ.e. að fyrsti ráðherra Íslands skyldi hafa verið sýslumaður á Ísafirði, gaf núverandi bæjarstjórn ekkert tilefni til að þeyta lúðra og halda sjálfri sér, menningarnefnd og starfsmönnum menningarnefndar veislu. Það voru aðrir sem áttu að gera það ef á annað borð átti að minnast þessa atburðar og þá með allt öðrum hætti, þar sem almenningur var velkominn en ekki bara hinn svokallaði aðall. Hann var jú sýslumaður, ráðherra og skáld okkar allra. Ég vil halda því fram að þarna hafi bæjarstjórnin ekki vitað í hvaða leikriti hún var að leika og hvert var hlutverk hennar í því drama.

Það er kaldhæðni örlaganna, að þegar bæjarstjórnin býður sjálfri sér í veislu til minningar um þann mann, sem á þessum stað orti: „Sú kemur tíð að sárin foldar gróa,“ skuli í umboði hennar vera framin þau mestu umhverfisspjöll sem framin hafa verið á Vestfjörðum og þau sár rist í okkar fögru náttúru sem seint munu gróa. Nú er svo komið að vegna sand- og moldar -foks úr sárunum eru hinar hvítu fannir í Seljalandsdal orðnar svartar eins og eftir gjóskufall af völdum eldgoss. En steininn burt og það strax. Hann einfaldlega passar ekki.

Jón Fanndal Þórðarson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi