Grein

Birna Lárusdóttir.
Birna Lárusdóttir.

Birna Lárusdóttir | 03.02.2004 | 15:53Frumraun við upplýsingagjöf til bæjarbúa

Ísafjarðarbær gaf á dögunum út upplýsingahandbók fyrir íbúa bæjarins. Bókinni er ætlað að geyma á einum stað eins miklar upplýsingar um starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins og kostur er. Þetta er í fyrsta skipti sem slík handbók lítur dagsins ljós og er því viðbúið að ýmsar ábendingar komi fram um það sem betur má fara. Án efa vantar ýmislegt og hugsanlega er einhverju ofaukið.
Handbókinni var dreift til allra heimila í sveitarfélaginu auk þess sem allt efni hennar verður aðgengilegt á nýrri og endurbættri heimasíðu Ísafjarðarbæjar, sem er í smíðum. Bókinni er fyrst og fremst ætlað að vera uppflettirit þar sem finna má á einum stað upplýsingar sem stundum getur reynst tímafrekt að afla, s.s. eins og tengiliðir í stofnunum, símanúmer og netföng. Bókin var höfð sem einföldust í uppsetningu til þess að hagkvæmt yrði að uppfæra, endurprenta og gefa hana út með reglulegu millibili. Mörg önnur sveitarfélög hafa farið þá leið að miðla upplýsingum til bæjarbúa með þessum hætti og hefur það þótt gefast vel.

Í ritnefnd voru valin auk undirritaðrar Rúnar Óli Karlsson, Jóhann Hinriksson og Magnús Reynir Guðmundsson. Sá síðastnefndi sá sér ekki fært að starfa í nefndinni þegar á leið en hann fékk handritið til yfirlestrar á lokastigi vinnslunnar, líkt og allir bæjarfulltrúar, enda útgáfan á ábyrgð bæjarstjórnar og athugasemdir bæjarfulltrúa mikilvægt innlegg í verkefnið.

Frá útkomu bókarinnar hafa borist gagnlegar ábendingar um ýmislegt sem betur má fara og má þar nefna gagnrýni á umfjöllun um íþróttastarf í sveitarfélaginu en þar þykir íþróttagreinum gert mishátt undir höfði. Við lestur handbókarinnar má ljóst vera að ekkert er fjallað um einstakar íþróttagreinar; nokkrar greinar eru taldar upp af handahófi en tekið er fram að þar sé aðeins fátt eitt nefnt. Í slíkri upptalningu er auðvitað alltaf farsælast að hafa hana tæmandi og er ástæða til að bæta úr því við endurskoðun á handbókinni. Hitt er annað að við vinnslu bókarinnar var allt efni sem barst skorið mjög við trog því upplýsingarit af þessum toga má ekki verða of stórt í sniðum. Þannig verður það óaðgengilegt og missir jafnvel marks.

Í Ísafjarðarbæ er fjölbreyttara atvinnulíf og félagsstarfsemi en svo að mögulegt sé að gera því öllu tæmandi skil í tæplega 50 síðna, myndskreyttri handbók. Henni er fyrst og fremst ætlað að gefa sem gleggstar upplýsingar um starfsemi sveitarfélagsins og annarra opinberra stofnana, með það fyrir augum að þjóna íbúum bæjarins betur. Það er von mín að sem flestir meti það svo að útgáfa slíkrar handbókar sé til bóta.

Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi