Grein

Einar Björn Bjarnason.
Einar Björn Bjarnason.

Einar Björn Bjarnason | 03.02.2004 | 12:00Bréf til Ísfirðinga

Góðir Ísfirðingar. Ég heiti Einar Björn Bjarnason. Undanfarið hefur ráðning mín í stöðu bæjargjaldkera Ísafjarðarbæjar verið gagnrýnd, ekki síst á síðu bb.is. Óvægnust þótti mér grein sem birt var hér þann 29. janúar síðastliðinn. Af framsetningu í blaðinu gat lesendum virst að þar sem hún væri byggð á viðtali væru allar upplýsingar sem þar komu fram réttar og jafnframt öllu sem máli skiptir til haga haldið. Staðreyndin er hins vegar sú að greinin er í besta falli hálfsannleikur sem eins og allir vita er oft engu betri en lygi. Í ljósi umræðunnar er vert að taka fram að almennt gildir að allir Íslendingar hafa jafnan rétt til að sækja um opinberar stöður hvar sem er á landinu og hafa þá jafnframt rétt á að njóta jafnræðis og málefnalegs mats þegar sótt er um þau störf.
Milli jóla og nýárs sendi ég inn umsókn um áðurtéð starf samkvæmt auglýsingu sem birt var í landsfjölmiðlum. Það var mér síðan mikil ánægja þegar sá dagur rann að mér var tjáð í símtali við Þóri Sveinsson, fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar, að ákveðið hefði verið klukkutímanum áður á fundi milli hans og bæjarstjóra að ráða mig til starfans. Að hans sögn var niðurstaða fundarins að ég væri hæfastur umsækjenda vegna menntunar minnar og þeirrar fjölhæfni til starfa fyrir Ísafjarðarbæ sem hún myndi veita. Á þeim tíma hafði ég enga hugmynd um aðra umsækjendur og enga sérstaka þekkingu á bæjarpólitík á Ísafirði.

Ég hef nýlega lokið, með ágætum árangri, námskeiði við sambærilegt uppgjörskerfi og því sem bærinn notar. Í öðru lagi hef ég lært að gera vefsíður bæði beint með ,,html? og einnig með ,,Frontpage?. Í þriðja lagi stundaði ég í eitt misseri kerfisfræði við Háskólann í Reykjavík. Hvað annað nám varðar hef ég lokið; BA prófi frá Háskóla Íslands í stjórnmálafræði, MA prófi frá Háskólanum í Lundi í Evrópufræðum, og síðast en ekki síst öllum prófum í Masternámi í innlendri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Einungis lokaritgerð í stjórnsýslunáminu er enn ókláruð. Í því námi vann ég í samtarfi við samstarfskonu mína þjónustumatsskýrslu fyrir Grundafjörð þar sem metið var tilraunaverkefni Grundfirðinga í fjarkennslu. Stjórnsýslunámið hefur veitt mér haldgóða þekkingu á hugmyndum fræðimanna; um nýsköpun í opinberri stjórnsýslu, um stjórnun þekkingar og mannauðs, sem og um umhverfishagfræði. Hvað launuð störf varðar hef ég hef unnið margvísleg störf þar á meðal almenna verkamannavinnu. Tel ég mig ekki hafa beðið skaða af því nema síður sé.

Ég tel mig hafa verið að gera bænum mjög gott tilboð því augljóslega gerir menntun mín mögulegt að nýta starfskrafta mína á fleiri sviðum en ella. Þessi fjölhæfni þótti að sögn kostur ekki síst vegna þess að gjaldkerastarfið taldist að óbreyttu tæplega vera alveg fullt starf.

Ég vil taka fram að eftir því sem ég best veit hefur Þórir Sveinsson unnið að þessu máli af 100% heilindum, og einungis gert það sem hann taldi koma bænum best. Að sjálfsögðu má deila um hvort hann hafi haft rétt fyrir sér. En þar var enginn glæpur framinn, og bið ég því alla vinsamlegast að láta af gagnrýni á vinnubrögð hans.

Ég leit á starfið á Ísafirði sem nýjan áfanga í lífi mínu. Viðbrögð stjórnmálamanna og blaðamanna á Ísafirði við ráðningu minni komu mér algjörlega í opna skjöldu og eru mér ennþá illskiljanleg. Þrátt fyrir þetta get ég enn hugsað mér að vinna fyrir Ísafjörð, en þó ekki í almennri ósátt við íbúana. Ég vonast til að nú þegar málið hefur verið útskýrt með öðrum hætti þá muni margir íhuga málið aftur og ef til vill komast að annarri niðurstöðu en áður.

Með vinsamlegri kveðju, Einar Björn Bjarnason.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi