Grein

Guðrún Jónsdóttir.
Guðrún Jónsdóttir.

Guðrún Jónsdóttir | 02.02.2004 | 09:27Það sem í upphafi virtist stormur í vatnsglasi er orðinn harmleikur

Sú staða sem komin er upp í leikskólanum Bakkaskjóli í Hnífsdal er skelfileg. Það sem í upphafi virtist stormur í vatnsglasi er orðinn harmleikur. Ég ætla ekki að tíunda aðdraganda heldur aðeins að fjalla um málið eins og það snýr að mér og lýsa vonbrigðum mínum með gang mála. Í upphafi aðventu sendum við foreldrar bréf til bæjarstjóra og fræðsluyfirvalda þar sem við óskuðum eftir því að málið yrði leyst á farsælan og friðsaman hátt. Í framhaldi af því talaði ég við bæjarstjóra og hann tjáði mér að hér væri í raun um misskilning að ræða milli fyrrverandi leikskólastjóra og starfsmanna Skóla- og fræðsluskrifstofu um stöðugildi.
Ef hér var aðeins um misskilning að ræða, hvers vegna í ósköpunum var málinu þá ekki kippt í liðinn? Aðventan leið, nýtt ár gekk í garð og tæpir tveir mánuðir liðu áður en nokkuð gerðist í málunum, allavega eins og það snéri að okkur foreldrunum og börnunum okkar. Hins vegar skynjuðum við versnandi ástand á leikskólanum, það var þvingað og greinilegt að starfsfólki
leið ekki vel.

Mér er spurn, hversvegna gerði bæjarstjóri ekkert í málunum fyrr en allt var komið í óefni? Hér er ekki lengur um málefni að ræða, stöðugildi, ofmönnun eða undirmönnum heldur manneskjur. Ég lít á þetta sem hreina aðför að skólanum og börnunum okkar og tel að fræðsluyfirvöld sem og bæjarstjóri hafi ekki unnið vinnuna sína sem skyldi.

Við búum í litlu samfélagi og hver manneskja er mjög mikilvæg. Það er einlæg ósk mín og von að hlutaðeigendur allir leysi vandann strax og á þann hátt að fleiri skaðist ekki og umfram allt, hafi ekki frekari áhrif á börnin okkar, þannig að þau megi áfram búa við öryggi og ástúð á Bakkaskjóli

Það skal tekið fram að ég skrifa ekki sem fulltrúi foreldra heldur aðeins sem móðir tveggja barna á Bakkaskjóli þar sem þeim líður ákaflega vel í umsjón góðra kvenna.

Guðrún Jónsdóttir, Hnífsdal.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi