Grein

Sigurður Þorleifsson.
Sigurður Þorleifsson.

Sigurður Þorleifsson | 29.01.2004 | 16:16Knýjum fram lækkun tryggingariðgjalda

Einn af stærstu kostnaðarliðum hverrar fjölskyldu eru tryggingariðgjöld. Þennan kostnaðarlið á hver einstök fjölskylda erfitt með að skera niður af þeirri einföldu ástæðu að það er hverjum manni lífsnauðsynlegt að hafa sín tryggingarmál í þokkalegu lagi. Því ríður á að verðlagning tryggingarfélaga sé sanngjörn. Almenningur hefur horft að undanförnu uppá síhækkandi verð á bifreiðartryggingum og virðist ekki koma nokkrum vörnum við. Það sama er upp á teningnum hvað varðar aðrar tryggingar. Til þess að leiðrétta þessi mál þarf samtakamátt almennings.
Hvernig má það vera að launaþegahreyfingin á Íslandi hefur ekki skoðað þessi mál eins og kollegar okkar á Norðurlöndum gera. Þar er launþegahreyfingin afar öflug og beitir sér þegar svona mál koma upp á yfirborðið.

Til er dæmi að menn hér á landi hafi brugðist við. Skemmst er að minnast
þegar tryggingarfélögin töldu sig þurfa 60 til 70% hækkun á
bifreiðatryggingum. Félag íslenskra bifreiðaeigenda lét til sína taka og
bauð upp á ódýrari tryggingar. Í kjölfarið lækkuðu tryggingar umtalsvert. Því tel ég nauðsynlegt að nú bregðist launþegahreyfingin við og bjóði út tryggingar félagsmanna sinna. Þar væru boðnar út tugþúsundir trygginga sem óhjákvæmilega hefði umtalsverða lækkun í för með sér. Aðeins þannig getum við tryggt heilbrigða samkeppni á tryggingamarkaði.

Kjarasamningar eru framundan. Lækkun trygginga yrði góð kjarabót og ákveðin
kauphækkun sem ekki færi út í verðlagið eins og venjan er með aðrar kjarabætur. Verkalýðsfélögin verða að leita að kjarabótum fyrir félagsmenn sína þar sem raunverulegar kjarabætur er að finna. Lækkun tryggingariðgjalda er slík
kjarabót.

Sigurður Þorleifsson, Sandgerði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi