Grein

Þórólfur Halldórsson.
Þórólfur Halldórsson.

Þórólfur Halldórsson | 28.01.2004 | 14:08Fagna nýju skipuriti Vegagerðarinnar

Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri kynnti þann 16. janúar sl. nýtt skipurit Vegagerðarinnar sem tekur formlega gildi 1. mars nk. Í tilkynningu vegamálastjóra eru færð veigamikil og gild rök fyrir endurskoðun skipuritsins og er greinilegt að mikil og vönduð vinna hefur verið lögð í verkið. Ekki verður annað séð en að þær breytingar á skipulagi Vegagerðarinnar sem þarna hafa verið ákveðnar séu að öllu leyti markvissar og taki rökrétt mið af þeim breytingum á ytra umhverfi Vegagerðarinnar sem átt hafa sér stað undanfarin ár.
Nokkurrar gagnrýni hefur orðið vart á síðum BB vegna hins nýja skipurits, og er hún í fljótu bragði séð nokkuð hvatvís. Ef grannt er skoðað verður ekki betur séð en að þessi breyting sé í anda þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar að flytja opinber störf út á land sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur haft áberandi forgöngu um að fylgja eftir. Í tilkynningu vegamálastjóra segir m.a. „Engar uppsagnir verða við þessar breytingar en verkefni eru færð til og ný verkefni flutt út á land.. Mannahald á öllum starfsstöðvum er að mestu óbreytt en nýir stjórnunarhættir opna möguleika á frekari flutningi verkefna úr miðstöð í Reykjavík út á landsbyggðina.“

Samkvæmt nýju skipuriti eru þau þrjú umdæmi sem nú eru til staðar í Norðvesturkjördæmi felld saman í eina heild, Norðvestursvæði, með svæðismiðstöð í Borgarnesi, og þar verður yfirumsjón með áætlunum og hönnunarkaupum á svæðinu og einnig viðhaldi og þjónustu. Þótt yfirstjórnin færist að þessu leyti til er eftir sem áður gert ráð fyrir að tilsjón og verkstjórn verði í höndum næsta umdæmisstjóra eins og verið hefur.

Þó verksvið umdæmisstjórans breytist eru engin teikn um að þjónusta Vegagerðarinnar við Vestfirðinga breytist til hins verra. Þvert á móti er rík ástæða til að ætla að bæði þjónustan og viðmótið gagnvart íbúum Vestfjarða muni batna, þ.e. þeir þættir sem hvað mestri gagnrýni hafa sætt á undanförnum árum.

Sveitarfélagið Vestfirðir

Hið nýja skipurit Vegagerðarinnar er mál sem er með öllu óskylt þeirri hugmynd að Ísafjörður verði gerður að kjarnasvæði fyrir Vestfirði. Til þess að svo verði þarf að taka allt aðrar ákvarðanir.

Frumforsenda þess að Ísafjörður verði nokkurn tíma að kjarnasvæði fyrir Vestfirði, hvað þá að til verði sveitarfélagið Vestfirðir, er að heilsárs vegasamgöngur á milli Ísafjarðar og þéttbýlisstaðanna á sunnanverðum Vestfjörðum verði tryggðar til framtíðar með láglendisvegi. Það verður eingöngu gert með því móti að gera tvenn jarðgöng; önnur 5,1 km löng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og hin 10,8 km löng undir Dynjandisheiði úr Dynjandisvogi í botn Vatnsdals í Vatnsfirði.

Þó tæknilega sé unnt að byggja veg yfir Dynjandisheiði, mun 30 km langur vegur um óbyggðir, þar af 20 km á fjöllum í allt að 500 metra hæð yfir sjávarmáli, aldrei komast nálægt því að uppfylla þær kröfur sem gera verður til vegar milli hverfa í sveitarfélaginu Vestfjörðum. Aðeins vegur um jarðgöng uppfyllir þær kröfur.

Þessi tvenn göng munu stytta leiðina milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar um ca. 40 km og þá yrði álíka langt fyrir Patreksfirðinga að skreppa til gleraugnasalans á Ísafirði og nú er fyrir Ísfirðinga að skreppa í kaffi í Djúpmannabúð í Djúpi. Ísfirðingur á leiðinni suður til Reykjavíkur um þessi nýju göng væri þó á sama tíma kominn langleiðina suður í Skálanes í Kollafirði, þar sem við honum blasir nýr vegur sem nú er í bígerð yfir firðina í Gufudalssveit sem styttir leiðina um 22,2 km, og hann ætti þar ekki nema u.þ.b. 240 km eftir ófarna til Reykjavíkur!!

Ísfirðingur sem á hinn bóginn hefði haldið áfram Djúpveg frá Djúpmannabúð yfir Steingrímsfjarðarheiði og suður Hrútafjörð, væri rétt kominn yfir Holtavörðuheiði og suður fyrir Fornahvamm á sama tíma og sá er fór göngin væri kominn til Reykjavíkur. og hann ætti ennþá eftir 110 km. til Reykjavíkur.

Vestfirðingar og vegagerðarmenn sem hafa heilsteypta framtíðarsýn og hugsa lengra en nef þeirra nær hljóta að gera sér ljóst hvort er mikilvægara fyrir framtíð sveitarfélagsins Vestfjarða, Djúpvegur eða jarðgöngin tvenn.

Þórólfur Halldórsson, Patreksfirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi