Grein

Sigurjón Þórðarson.
Sigurjón Þórðarson.

Sigurjón Þórðarson | 22.01.2004 | 20:02Hvatning til Vestfirðinga

Vestfirðingar, ég hvet ykkur til að lesa grein eftir Sturlu Böðvarsson samgöngumálaráðherra sem má finna hér á ágætum vef bb.is sem ber nafnið Hvers vegna línuívilnun? Greinin virðist vera einlægt afsökunarbréf til styrktarmanna Sjálfstæðisflokksins í LÍÚ, til þess að útskýra hver raunveruleg ástæða var fyrir stuðningi ráðherrans við línuívilnunina.
Sturla játar í greininni að helsta ástæðan fyrir umræðum síðastliðið vor um breytingar
á fiskveiðistjórnunarkerfinu, s.s. línuívilnun og fleiri breytingum, væri um að kenna
góðu fylgi og harðri gagnrýni okkar í Frjálslynda flokknum á handónýtt og óréttlátt
fiskveiðistjórnunarkerfi. Sturla viðurkennir ennfremur fúslega að deilurnar hafi ógnað stöðu kvótaflokkanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í kosningabaráttunni síðastliðið vor. Í raun þá botna ég lítið í ráðherranum að vera senda þessa afsökun sína í fjölmiðla. Honum væri miklu nær að afsaka stuðninginn við línuívilnun beint í sendibréfi til LÍÚ.

Í sporum samgönguráðherra hefði ég haft vit á að tyggja ekki í sí og æ á einhverjum stöðugleika í tengslum við núverandi kvótakerfi. Kvótakerfið er handónýtt og það hljóta menn að fara viðurkenna. Staðreyndirnar tala sínu máli, þ.e. þorskafli er helmingi minni nú en fyrir daga kvótakerfisins. Allir ættu einnig að sjá að sjávarbyggðirnar búa ekki við einhvern stöðugleika sem talsmenn kvótakerfisins eru sífellt að klifa á heldur óvissu þess.

Samgönguráðherra væri nær að huga að eigin málaflokki þ.e. samgöngumálum, en um Vestfirði liggja verstu vegir landsins og því þarf að breyta.

Sigurjón Þórðarson, alþingismaður.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi