Grein

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason.

Jón Bjarnason | 20.01.2004 | 18:22Háskóli Vestfjarða á Ísafirði

Hvanneyri – Bifröst - Hólar – Akureyri

Staðreyndin er sú að smæðin getur verið kostur, ef rétt er staðið að málum. Sjálfstæði, frumkvæði og sveigjanleiki er alger forsenda þess að litlar menntastofnanir – á hvaða sviði sem er – geti staðist stærri og þungskreiðari stofnunum snúning. Þetta hefur verið sýnt fram á hjá nokkrum litlum en sjálfstæðum menntastofnunum, t.d. á Hvanneyri, Bifröst og Hólum. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga þennan styrk sem sjálfstæðið gefur þegar framkvæmdar eru góðar hugmyndir um háskólastofnanir í sem flestum landshlutum. Starfsemi þessara stofnana skiptir gríðarlegu máli fyrir alla þróun atvinnu- og menningarlífs í nærumhverfi þeirra og þá jafnframt fyrir landið í heild.

Sjálfstæði – frumkvæði – sveigjanleiki

Hægt er að taka dæmi af Hólaskóla sem hefur vaxið úr nánast engu á síðustu 20 árum og öðlaðist nýverið rétt til að brautskrá nemendur með háskólagráðu. Af vexti og þroska Hólaskóla má draga nokkurn lærdóm fyrir framtíðaruppbyggingu í menntamálum á landsbyggðinni. Í krafti sjálfstæðis síns hefur hann styrkt stöðu sína og breikkað verkefnasviðið með samningum við fyrirtæki, bændur, einstaka háskóla og rannsóknastofnanir hérlendis og erlendis. Oft og tíðum hefur það komið til tals á síðari árum að fella skólann undir einhverja aðra stofnun, fyrir sunnan eða norðan, og gera hann þannig að útibúi sem yrði stjórnað úr fjarlægð. Þessum hugmyndum var sem betur fer alltaf úthýst, þótt stundum væri knúið fast dyra. Þeim sem fyrir eru á vettvangi eiga oft erfitt að líta á málin frá annarri hlið en sinni eigin, ekki síst þegar þeim finnst að sér þrengt. Stofnun sjálfstæðs Háskóla á Akureyri var gerð í andstöðu við háskólana í Reykjavík, en fáir efast nú um að sjálfstæði hans var forsenda frá byrjun.

Útibúin verða hornrekur

Sannleikurinn er sá að útibúahugmyndin í uppbyggingu mennta- og rannsóknastofnana út um hinar dreifðu byggðir er mjög brothætt. Sú hætta getur fylgt uppbyggingu ósjálfstæðra útibúa, að þau verði olnbogabörn í fjölskyldu annarra og stærri menntastofnana sem allar hafa fastar hugmyndir um eigin vöxt og viðgang. Þetta þýðir vitaskuld ekki að menntastofnanir eigi að halda sig sér og sneiða hjá samvinnu við aðra menntastofnanir. Á síðari árum hafa mörg atvinnufyrirtæki úti á landi – einkum í sjávarútvegi – farið úr eigu heimamanna og lent í höndum fjarlægra stórfyrirtækja. Atvinnulífinu er þannig stjórnað af fólki sem er ókunnugt aðstæðum og hefur ekki taugar til staðarins. Undir þessum kringumstæðum er erfitt að búast við nýsköpun í tengslum við helstu fyrirtæki staðarins. Af þessum sökum er einnig mikilvægt að þær stofnanir sem byggðir eru upp úti á landi til þess að efla menntun og fjölbreytni lúti ekki sömu lögmálum, heldur séu sjálfstæðar.

Sóknarfæri landsbyggðarinnar

Hver landshluti, hvert byggðalag verður stöðugt að sækja fram í menntunarmálum annars er hætta á stöðnun. Öll störf og verkefni á háskólastigi eru nú almenningseign og óaðskiljanlegur hluti þróaðs samfélags. Aukin menntun, fjölbreytt atvinna, blómlegt mannlíf og hagvöxtur fer saman. Þar liggja sóknarfæri landsbyggðarinnar.

Stofnun símenntunar- og háskólaseturs á Ísafirði hefur verið í undirbúningi og vinnur Fræðslumiðstöð Vestfjarða þar gott brautryðjendastarf. Á Ísafirði eru miklir möguleikar í að mynda sterka stofnun sem tekur að sér og stýrir rannsóknum og vöktun á fjölbreyttum auðlindum svæðisins og nýtingu þeirra. Rannsóknastöð veiðarfæra væri t.d. hvergi betur komin en þar. Verkefni Hafrannsóknarstofnunar á Vestfjörðum ættu að færast undir Háskóla Vestfjarða.

Háskóli Vestfjarða á fjárlög 2005

Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2004 lögðum við Guðjón A Kristjánsson til að veitt yrði fé þegar á þessu ári til að vinna að stofnun Háskóla Vestfjarða á Ísafirði. Sú tillaga okkar náði ekki fram að ganga að þessu sinni, en stjórnarþingmenn kjördæmisins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um stofnun Háskóla á Ísafirði. Vonandi verður ekki látið standa við orðin og tóm og Háskóli Vestfjarða á Ísafirði komist á fjárlög árið 2005.

Jón Bjarnason, alþingismaður Vinstri – grænna.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi