Grein

Halldór Halldórsson.
Halldór Halldórsson.

Halldór Halldórsson | 16.01.2004 | 09:51Hannes Hafstein sýslumaður Ísfirðinga

Laugardaginn 17. janúar er hátíðardagskrá á Ísafirði til minningar um Hannes Hafstein fyrsta ráðherra Íslands. Hundrað ára afmæli nýrrar stjórnskipunar í landinu eru merk tímamót í Íslandssögunni og verður þeirra minnst á Ísafirði enda bjó Hannes Hafstein þar og starfaði í átta ár sem sýslumaður og bæjarfógeti. Dagskráin hefst kl. 16:00 við Mánagötu 1 með afhjúpun minningarskjaldar. Eru íbúar Ísafjarðarbæjar boðnir velkomnir að vera viðstaddir athöfnina.
Hannes Hafstein var skipaður sýslumaður 1895 en kom til Ísafjarðar vorið 1896, þá keypti hann hús það sem nú er Mánagata 1 en var kallað Fischershús á þeim tíma. Þar bjó hann öll sín sýslumannsár á Ísafirði og var með skrifstofu sína. Þetta hús stendur enn, töluvert breytt. Á lóð þess verður minningarskjöldur afhjúpaður um Hannes Hafstein sýslumann á Ísafirði og fyrsta ráðherra Íslands.

Á þessum árum var athafnalíf mikið í Ísafjarðarsýslu og Ísafjörður miðstöð athafna. Að mörgu leyti var aðkoman erfið fyrir nýjan sýslumann því mikil átök höfðu verið vegna svokallaðra Skúlamála sem hófust vegna rannsóknar á embættisfærslu Skúla Thoroddsen þáverandi sýslumanns á Ísafirði í rannsókn hans á sakamáli. Þó erfitt hafi verið að taka við og Hannes Hafstein hafi jafnvel haft á orði að hann hafi hreinlega kalið fyrstu árin í embætti, var hann fljótur að vinna hug almennings. Kom þar til glæsimennska hans, hlýleikur en jafnframt skörungsskapur. Þá var Ragnheiður kona hans vinsæl meðal fólks enda hjálpsöm og gestrisin. Var heimili þeirra opið öllum vegna starfs Hannesar og mætti hlýtt viðmót húsmóðurinnar gestum.

Starf sýslumanns var erilsamt enda maðurinn kappsamur og metnaðarfullur. Eftir þrjú ár í starfi á Ísafirði skifar Hannes bréf til vinar og talar þar m.a. um að hann yrki lítið og hafi mikið að gera. Hann segist hafa margt á prjónunum en sé orðinn: ,,?púlsklár, kancellibikkja, dómsmálatrunta, mæðin og meidd í miðju baki?. Þarna kemur vel fram hversu mikils virði það var fyrir skáldið að hafa tíma fyrir ljóðagerð sína sem reyndist líka mikilvægt fyrir þjóðina því Hannes Hafstein orti dirfskufull og hvetjandi ljóð fyrir þjóð sína. Einkennandi eru eftirfarandi ljóðlínur:

,,Þótt þjaki böl með þungum hramm,
þrátt fyrir allt þú skalt, þú skalt samt fram.?


Og Hannes Hafstein fór ávallt fram. Það var mikil eldraun þegar hann lét róa með sig út í togarann Royalist sem var að ólöglegum veiðum í Dýrafirði haustið 1899. Drukknuðu þrír af þeim fimm sem voru með honum í bátnum og munaði litlu að hann færist sjálfur en hann einn var syndur af mönnunum. Tók hann lát félaga sinna mjög nærri sér. Minnisvarði um þennan atburð hefur verið reistur í landi Bessastaða í Dýrafirði.

Ísafjarðarár Hannesar Hafstein og fjölskyldu urðu átta talsins. Hannes Hafstein var sýslumaður og um tíma þingmaður fyrir Ísafjarðarsýslu. Þess vegna er eðlilegt á þessum merku tímamótum að minnast hans sérstaklega á Ísafirði með því að reisa honum minnisvarða og um leið að fagna eitt hundrað ára afmæli stjórnsýslunnar í höndum íslensks ráðherra, búsettum á Íslandi.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi