Grein

Karl V. Matthíasson.
Karl V. Matthíasson.

Karl V. Matthíasson | 15.01.2004 | 10:03Vörumst hringamyndun og einokun í atvinnu- og viðskiptalífi

Nú er allt útlit fyrir það að eigendur stóru fyrirtækjanna verði líka færri og færri, sem þýðir aftur á móti að svokölluð hringamyndun er að eiga sér stað. Það er að segja að einn og sami aðilinn eignast þau fáu fyrirtæki sem annast mikilvæga þjónustu fyrir allan landslýð. Slíkt getur aftur á móti leitt til einokunar. Tala nú ekki um ef bankar eiga og eru að reka fyritæki er keppa við önnur sem eru viðskiptavinir viðkomandi banka. Við sjáum í hendi okkar að slíkt getur orðið glórulaust rugl er gæti leitt til fasisma. Hugsum okkur að banki ætti t.d. fréttablað og annað fréttablað væri í samkeppni við það og væri um leið „viðskiptavinur“ sama banka.

Réttlætingin og rökin fyrir allri þessari samþjöppun er svo stóra orðið mikla: „hagræðing“. En merkingu þess hugtaks ættum við auðvitað að íhuga og velta því fyrir okkur, hvort mikill meiningarmunur er á skilningi þess orðs eða hugtaks. Það má ef til vill líta svo á að þeir sem eigi núna þessi stækkandi fyrritæki séu einvala lið hugsjónamanna er bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti og vilja að hún njóti góðs af „hagræðingunni“ og að það hvarfli ekki að þeim að taka út úr fyrirtækjum sínum óhóflega mikla peninga í eigin þágu á kostnað viðskiptavinanna sem er þjóðin. (Mörgum þótti það til dæmis stórkostlegt fyrir vestan þegar Bónus kom með verslun sína þangað og þótti það góð byggðastefna hjá fyrirtækinu.) Við skulum bara vona að erfingjarnir séu aldir upp í sama anda.

Það sem mönnum hefur verið tíðræddast um að undanförnu eru umsvifin á fjölmiðlamarkaðinum hvernig hver miðilinn eða stöðin á fætur annari fer í hendurnar á einum og sama manninum. Þetta minnir á það þegar Þjóðviljinn, Alþýðublaðið og Tíminn voru farin á hausinn. Og aðeins Mogginn og DV – Vísir voru svo ein eftir. Kannske var eignarhaldinu dreift á þeim miðlum en þeir héldu alltaf uppi málstaða Sjálfstæðisflokksins þegar á reyndi og útvarpið sem oftar en ekki hefur verið undir valdi þess sama flokks sá svo um „hlutleysið“.

Við eigum dapra sögu um einokun og kúgun þeirra manna sem höfðu einkaleyfi á því að flytja vöru til landsins og selja hana. Við munum í framhaldi af því stofnun kaupfélaganna og síðan stofnun fjölda smáfyrirtækja á sviði verslunar, sjávarútvegs, iðnaðar og svo koll af kolli. Á þeim dögum var mikil þörf fyrir flokk sem barðist fyrir sjálfstæði og frelsi einstaklingsins að hver maður fengi að njóta sín og hæfileika sinna. Í umhverfi einokunar og samþjöppunar verður hætta á því að einstaklingarnir fari halloka og verði kúgaðir. Og í slíku umhverfi ber það við að náungakærleikurinn gleymist í harðnandi baráttu litla mannsins fyrir lífi sínu, skrílmennska þrífst í slíku umhverfi. Gleymum því ekki að eitt helsta einkenni kúgunarríkja er að eignarhaldið á auðlindum og markaði viðkomandi samfélags er í höndum örfárra einstaklinga.

Frelsisvæðing fyrirtækjanna felst ekki í því að ríkið afsali sér eigum sínum til örfárra einstaklinga sem verða svo „nýtt ríki“ í ríkinu yfir allt hafið þar sem þegnarnir kjósa ekki stjórnendur eins og þeir gerðu áður (að vísu með óbeinum hætti). Já, það sem hefur verið að gerast á sviði einkavæðingarinnar að undanförnu er svipað og með manninn sem ætlaði að fá sér bara í eitt glas og verða sætkenndur en hann áttaði sig ekki á tökum vínsins og lenti því í „blakk-áti“. Því eru það svo sannarlega orð í tíma töluð þegar rætt eru um að setja lög við hringamyndun.

Í sambandi við þessa umræðu hefur mér fundist vanta umfjöllun um þróunina í sjávarútveginum, þar þarf að endurskoða allt kerfið því fiskveiðiheimildirnar fara sífellt í hendur færri og færri aðila. Ég skil reyndar ekkert í því að umræða um samþjöppun og einokun hefur ekki náð sem skyldi til þessarar mikilvægustu atvinnugreinar þjóðarinnar. Því þar höfum við mörg mjög sorgleg dæmi um það hvernig hringamyndun hefur leitt til niðurlægingar einstaklinga fyrirtækja og ýmissa byggða.

Menn verða að átta sig á því að einokun og samþjöppun í sjávarútvegi getur orðið ennþá hættulegri íslensku samfélagi en samþjöppun og einokun á öðrum sviðum. Reyndar eru til ákvæði um veiðirétt á einstökum fiskistofnum í íslenskri lögsögu, en til eru leiðir að fara á svig við þau ákvæði, enda sáum við í fyrra eða fyrir rúmu ári á Alþingi stjórnarfrumvarp sem fól í sér tillögur um að eitt og sama fyrirtækið gæti eignast allt að 40% í nokkrum fiskistofnum. En stjórnarandstaðan gat hrundið þeirri ósvinnu og tillögunum var breytt. Ég hvet stjórnvöld til að vera vakandi á þessu sviði atvinnulífsins um allt landið, því öflugt og víðfeðmt atvinnulíf er forsenda góðs og heilbrigðs viðskiptalífs og öfugt. Við getum aldrei skilið þessa þætti þjóðlífsins í sundur því viðskiptalífið og atvinnulífið verða að haldast í hendur og kannske er ekki rétt að tala um viðskiptalíf og atvinnulíf sem tvo aðskilda þætti samfélagsins öllu heldur sem samofna og órofa heild.

Á undanförnum árum hafa ráðamenn talið sig vera að brjóta niður múra óæskilegra ríkisumsvifa, en því miður eru blikur á lofti um að nýir og öflugri og hærri múrar um auðlindir og markaði samfélagsins hafi risið í staðinn. Þá óheillaþróun verður að stoppa nú þegar. Ég skora á ríkisstjórnina að drífa í því að leggja fram frumvarp um hringamyndun og einokun hið fyrsta. Frumvarp sem tekur til allra þátta atvinnu- og viðskiptalífs þjóðarinnar.

Karl V. Matthíasson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi