Grein

Þorvaldur Örn Árnason.
Þorvaldur Örn Árnason.

Þorvaldur Örn Árnason | 08.01.2004 | 19:59Atvinnuskapandi náttúruvernd við Vestfirði

Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði óskaði í fyrra eftir hugmyndum frá náttúruverndarsinnum til að efla atvinnulíf á Vestfjörðum. Ég tel mig vera náttúruverndarsinna og er ljúft að verða við þessari beiðni þó seint sé. Ég trúi því að þegar til lengdar lætur fari náttúruvernd og lífvænleg atvinna vel saman. Tillaga mín er í sjálfu sér einföld en gæti fækst fyrir flóknu, ósveigjanlegu stjórnkerfi. Málið er að stöðva náttúrueyðileggingu á hafsbotni á grunnslóð við Vestfirði og efla um leið vistvænar veiðar.
Vistvænar eru þær veiðar sem valda minnstum skaða á hafsbotni og fiskistofnum, krefjast minnstrar olíu og valda minnstri röskun á landi. Að sjálfsögðu verður að forðast smáfiskadráp og koma með allan afla að landi svo sem meðafla, hausa, bein og slóg sem nú er hent í hafið í miklum mæli.

Ljóst er að veiðarfæri sem dregin eru eftir hafsbotni hafa víða valdið stórfelldri eyðileggingu á búsvæði lífvera sem eru mikilvæg fæða nytjafiska. Vegna skorts á rannsóknum vitum við ekki nákvæmlega hve mikil þessi eyðilegging er, en ætti ekki náttúran að njóta vafans á hafsbotni líkt og nú er viðurkennt á landi?

Botnvörpu- og dragnótarveiðar ætti aðeins að leyfa á mjög takmörkuðum svæðum þar sem þegar er búið að eyðileggja botninn. Skaðinn er mjög varanlegur því sérfræðingar álíta að það geti tekið kóral margar aldir að klæða botninn að nýju.

Náttúruvernd hefur náð nokkurri fótfestu á landi. Horfum til þess að efnahagslögsagan sem okkur er trúað fyrir er meira en sjö sinnum stærri en Ísland! Mig grunar að náttúrueyðilegging sú sem fylgir stórvirkjunum sé smámunir á við það sem togskipin hafa valdið. Þess eru mörg dæmi að hefðbundin fiskimið árabáta eyddust þegar togarar fóru að skarka þar fyrir tæpri öld, og voru þeir þó líkastir árabátum samanborðið við verksmiðjuskipin sem nú tíðkast. Sú olíusóun sem þessum veiðum fylgir getur svo sem viðgengist nokkra áratugi í viðbót meðan olíufylleríi ríka hluta mannkynsins stendur, en hvað þegar bestu olíulindir heims þorna og olíuverð rýkur upp? Lítið þýðir að láta sig deyma um vetnisknúin skip þegar búið verður að ráðstafa mestallri vatnsorku landsins til stóriðju (nema hún verði þá farin á hausinn!).

Vistvænar veiðar eru fyrst og fremst krókaveiðar sem gefa verðmætan afla með lágmarks orkunotkun og tryggja atvinnu í byggðum nærst miðunum. Einnig yrði að leyfa ræku- og skelveiðar en aðeins á takmörkuðum svæðum á mjúkum botni. Nánari útfærslu læt ég Vestfirðingum eftir, en veit að erfiðasti draugurinn verður stórútgerðarauðvaldið í Reykjavík og Akureyri sem sameinast í LÍÚ. Núverandi ríkisstjórn dansar eftir þeirri pípu.

Vestfirðingar og náttúruverndarsinnar um land allt eiga að leggjast saman á árar og knýja fram breytta stjórnarstefnu eða hrekja þessa stjórn frá ella. Það gæti kostað svita og tár, en til mikils er að vinna.

Þorvaldur Örn Árnason, vinstri grænn líffræðingur, kennari og náttúruverndarsinni


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi