Grein

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason.

Jón Bjarnason | 06.01.2004 | 15:03Áhlaupið á sparisjóðina

Sparisjóðirnir eru ein helsta stoðin við byggð víða um land, m.a. vegna þess að íbúarnir hafa sjálfir forræði yfir þeim. Sparisjóðurinn er ein helsta trygging fyrir þjónustu á staðnum og lánum til einstaklinga og smærri fyritækja. Þeir hafa veitt almenna fjármálaþjónustu og unnið á grundvelli hugsjóna um eflingu og uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs á sínu heimasvæði. Fyrir um 2 árum var gert áhlaup á sparisjóðina. Stórgróðamenn reyndu að brjótast inn og sölsa þá undir sig. Því áhlaupi tókst að hrinda. En græðgin beið rétt handan hornsins. Ljóst var að áfram yrði sóst í að hlutfélagavæða sparisjóðina og sölsa þá undir braskið.
Græðgin ræður ferð

Við þingmenn Vinstri grænna vildum tryggja með lögum framtíð sparisjóðanna, sérstöðu þeirra og samkeppnishæfni og standa jafnframt vörð um eðli þeirra og hugsjónir. Hefði betur verið farið að tillögum okkar. Við vöruðum við því að þær lagabreytingar sem Alþingi samþykkti 2002 myndu ekki ná að veita sparisjóðunum þá vörn sem að var stefnt. Nú fyrir jólin var tilkynnt að Kaupþing Búnaðarbanki hefði keypt SPRON og greiddi stofnfjárfestum hluti sína á yfirverðum. Þingmenn annarra flokka lýsa furðu sinni og vanþóknun, en þeir töldu að nýsett lög ættu að girða fyrir slíkt.

Ljóst er að gangi þessi kaup eftir mun græðgi fjármagnsins rífa í sig sparsjóðina sem nú standa berskjaldaðir. Hægt er að taka undir ritstjórnargrein Morgunblaðsins 23. des. sl. um nýtt gjafakvótakerfi í sparisjóðunum: „Fákeppni eykst stórlega í íslenska fjármálakerfinu, þar sem augljóst er að bankarnir þrír munu skipta sparisjóðunum í landinu á milli sín og skiptir þá engu þótt þeir haldi áfram að reka þá um tíma sem sjálfstæðar einingar undir þeirra hatti. – Er þetta vilji fólksins?“ spyr Morgunblaðið. Þingmenn Vinstri – grænna segja nei, þetta er ekki vilji fólksins.

Ráðherra Framsóknar fagnar

Framsóknarþingmaðurinn og bankamálaráðherra ríkisstjórnarinnar, Valgerður Sverrisdóttir, virðist fagna yfirtöku Kaupþings Búnaðarbanka á SPRON og ofurgreiðslunum til stofnfjáreigenda enda sé nú engum fjandskap beitt, allt gert í miklu bróðerni. „Löggjafinn sem slíkur geti ekki komið í veg fyrir þróun og hagræðingu á fjármálamarkaði"( RÚV 22.12.) Viðskiptaráðherra Framsóknar hefur dregið einkavæðingarvagninn, stýrt afar umdeildri sölu á ríkisbönkunum og leitt feril til svo gríðarlegs samruna og fákeppni í viðskiptum og á peningamarkaði að hagsmunum fólks og öllu frjálsu athafnalífi um land allt stendur bein ógn af. Ekki bætir úr skák, að Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlitið, sem eiga að fara yfir, gera athugasemdir og staðfesta lögmæti þessara umskipta allra heyra undir þann sama ráðherra. Eru þessar eftirlitsstofnanir settar í býsna erfiða stöðu að meta mál hlutlaust, gera kröfur, setja hömlur eða sinna hlutverki sínu, þegar ráðherrann sjálfur hefur fyrirfram lýst fjálglega fögnuði sínum með alla atburðarás. Eftirá er þessum stofnunum kennt um ef illa fer.

Verjum sparisjóðina – stöðvum sölu SPRON

Lögin sem Alþingi setti haustið 2002 ná engan veginn þeim yfirlýstu markmiðum að tryggja framtíð og stöðu sparisjóðanna. Þingflokkur VG hefur krafist fundar í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis svo hægt sé að fara yfir lagalegar forsendur á sölu SPRON og þær afleiðingar sem hún hefði í för með sér fyrir sparisjóðina í landinu, nái hún fram að ganga. Hlutverk sparisjóðanna hefur verið mjög þýðingarmikið í íslensku atvinnulífi og skipt sköpum fyrir mörg byggðarlög einkum á landsbyggðinni.

Grunnhugsjón sparisjóðanna er að starfa með hag sparifjáreigenda og almennings fyrir augum en ekki að hámarka arð stofnfjáreigenda. Markmiðið með rekstri þeirra er því að stuðla að almannahag á sínu starfssvæði. Hafi SPRON borið af leið í þeim efnum á að rétta þann kúrs af og með lögum ef með þarf. Hlutafélagavæddur banki hefur engar samfélagsskyldur eða staðbundnar þjónustukvaðir. Markmið með rekstri slíks banka er það eitt að hámarka arð hluthafanna og hefur það sjónarmið komið rækilega fram að undanförnu. Heimild til hlutafélagavæðingar á því alls ekki heima í lögum um sparisjóði.

Ef marka má viðbrögð stjórnarþingmanna ætti að vera meirihluti til þess á Alþingi að breyta lögum þannig að eignar- og rekstrarform sparisjóðanna verði varið og sala stofnfjárhluta á yfirverði gerð óheimil.

Þörfin fyrir sjálfstæða sparisjóði út um allt land hefur sjaldan verið meiri en nú.

Með óskum um farsælt ár 2004,

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi