Grein

Hólmavík.
Hólmavík.

Jón Halldórsson, Hólmavík | 03.01.2004 | 13:43Hvað viljum við Strandamenn?

Arnkötlu- og Gautsdalir framtíðarleið Vestfirðinga

Ég vil í byrjun þakka sérstaklega fyrir stórgóða og frábærlega vel skrifaða grein sem er eftir Birnu Lárusdóttur á Ísafirði sem hún skrifaði í BB 10. nóvember 2003. Það er lítið við þessa grein að athuga, hún segir allt sem segja þarf og þær tilvitnanir sem hún vísar til eru allar réttar og sannar. Þess vegna er ég undirritaður og mér er næst að segja fyrir megin þorra Strandamanna, alveg bit á þeim skrifum sem komu í BB þann 11. desember 2003 og koma frá þeim mæta manni Sigurði Jónssyni stórbónda og oddvita í Stóra Fjarðarhorni í Kollafirði í Broddaneshreppi.

Hann talar um að Strandamenn hafi aldrei talað um að Arnkötludalur eigi að hafa forgang fyrir öðrum samgöngubótum í Strandasýslu. Rétt skal vera satt og rétt en ekki bara hagrætt fyrir sig. Ég er nú eldri en tvævetur í þessum forgangs vegargerðar fræðum. Hvað tók það okkur langan tíma að koma því inn í hausinn á ráðamönnum og öðrum álíka, að koma Steingrímsheiðarveginum á laggirnar? Á sínum tíma það var um og yfir 20 ár og vel það. Viljum við sömu meðferð með Arnkötludal? Svarið er afar einfalt, nei.

Strandamenn nánast allir, hafa margsinnis á flestöllum fundum með þigmönnum og ráðherrum þessa kjördæmis, hamrað á því að fara eftir þeim samþykktum sem hafa verið gerðar í þeim nefndum og ráðum í Vestfirðingafjórðungnum í mörg ár, sem varðar veg um Arnkötludal. Það hefur engin Strandamaður né aðrir, svo sem þingmenn Norðvesturskjördæmis, farið fram á frestun vegaframkvæmda í Strandasýslu, ef og þegar verður ráðist í þennan mikilvæga veg um Arnkötludal.

Ég veit ekki betur en það sé verið að byggja upp nýjan veg frá Þorpum og að Forvaða í Kollafirði og svo er komin nýr vegur frá Forvaða og að Litla Fjarðarhorni með bundnu slitlagi. En auðvitað er hellingur eftir að gera. Það er augljóst, en hvaða leið á að hafa forgang, læt ég liggja á milli hluta en segi þó það að við Vestfirðingar höfum þó veginn frá Hólmavík og til Brúar í Hrútafirði en við höfum ekki ennþá neinn veg um Arnkötlu- né Gautsdali en hann kemur innan skamms.

Þann 3. nóvember 2003 skrifar Eggert Stefánsson í BB og 7. nóvember skrifar Ólína Þorvarðardóttir í BB og það virðist vera sama þema í þeirra skrifum, jarðgöng og aftur jarðgöng. Það er vitað mál að það eru engin jarðgöng í kortunum á næstum árum, það er ljóst. Þann 18. nóvember 2003 skrifar Sigurður Ólafsson í BB um samgöngumál. Hann virðist vera út á þekju á flest öllum sviðum í sínum skrifum. Hann heldur að Tröllatunguheiði sé sama og Arnkötludalur sem er ekki rétt. Arnkötludalur er vestan megin við Tröllatunguheiði og þar sem Arnkötludalur byrjar efst eru um það bil 3 km sem er einhver hæð ef hægt er að kalla hæð, liðlega 300 m. Þegar þessum þremur km líkur þá tekur við Gautsdalur, þannig það er á mörkunum að svonefnd Arnkötludalsleið muni teljast til háa og langa fjallvega (hæpið).

Og Sigurður Ólafsson talar um að byggja upp Þorskafjarðarheiðarveginn og það snjói meira í Lágadal en uppá Þorskafjarðarheiði sem er vel yfir 400 metra há og 24 kílómetra löng. Eitt skal ég upplýsa hann Sigurð um, það að megin reglan á kólnun á 100 metra er 1,2 stig sem þýðir það að ef hitastig í byggð er 0 gráður, þá er hitastigið upp á Þorskafjarðarheiði um –5,4 stig miðað við það að hæðin á heiðinni er 450 metrar sem er nokkuð í nærri lagi, þannig að um heilsársveg er óhugsandi með öllu um blessaða Þorskafjarðarheiðina.

Hvað viljum við, eru það ekki framfarir?

Það var mikið gleðiefni þegar samþykkt var á hinu háa Alþingi að gera Árneshrepp að óbeinu ferðaþjónustufyrirtæki og efla og styðja við bakið á þeim sem eru ábúendur í hreppnum og þá fylgir væntanlega að það verður lagður nýr vegur til íbúana í Árneshreppi. Ég sagði hvað viljum við, ég sé það alveg fyrir mér á næstu árum þegar verður búið að gera fínan og flottan heilsárs veg um Arnkötlu- og Gautsdali að Hólmavíkursvæðið og Reykhóla-, Saurbæjar- og Dalabyggðar svæðin verði eitt atvinnu- og þjónustusvæði og jafnvel er hugsandi að áðurnefnd svæði sameinist í eitt sveitafélag á komandi árum.

Samþykktir sveitarstjórnar Hólmavíkurhrepps og Súðavíkurhrepps svo og Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar og áhugamannafélagsins Leiðar ehf., með Jónas Guðmundsson Bolvíking með meiru, fyrir utan þær samþykktir og álitsgerðir svo og undirskriftarlista og svo má ekki gleyma þeim fjölmörgu skrifum sem hafa fjallað á einn eða annan hátt um þessa framtíðar sparnaðar tengingu Vestfirðinga með heilsárs veg um Arnkötlu- og Gautsdali, hafa ekki farið fram hjá neinum að ég held nema kannski stóra bóndanum í stóra Kollafirði í Stóra Fjarðarhorni, Ég bara spyr?

Með vegum skal land okkar byggjast.

Jón Halldórsson, Hólmavík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi