Grein

| 11.01.2000 | 16:39Útsvarstekjur og lögheimili

Þegar ég fluttist hingað fyrir tæpum sjö árum, þá heillaðist ég fljótt af fólkinu, mannlífinu og Pollinum, kyrrðinni og fegurðinni. Enda finnst mér ekkert jafnast á við göngutúr í logni og blíðu við Skutulsfjörð.
Smátt og smátt kynntist ég fólki, mannlífi og menningu Ísafjarðarbæjar, sem er mjög fjölbreytt ef miðað er við landsbyggðina – jafnvel einnig þótt miðað sé við landsbyggðina á suðvesturhorninu.

Auðvitað finnst mér stundum langt að aka norður eða suður. Á síðastliðnum sjö árum hafa samgöngur þó batnað gífurlega mikið, svo að stytting ferðatímans um Djúp og Strandir er farin að mælast í tugum mínútna. En fjarlægðin gerir einmitt sérstöðu Vestfjarða heillandi.

Oft er ég spurður: Af hverju Ísafjörður? Er ekki allt að fara til fjandans? Þegar ég svara að hér sé gott að búa, áhyggjulaust að ala upp börn, allt í göngufæri, hvort sem það er skólinn, vinnan eða þjónustan, eða að hér búi einfaldlega rjóminn úr íslenska stofninum, þá segir suðvesturbúinn: Annað segja fjölmiðlarnir, það er alltaf verið að segja frá einhverju neikvæðu.

Í framhaldi af þessu er full ástæða til þess að velta fyrir sér þætti fjölmiðla í umfjöllun um Vestfirði. Sú spurning vaknar hvort ekki eigi einfaldlega að ráða einstakling til að leita uppi og senda jákvæðar fréttir úr fjórðungnum.

Þótt oft sé logn á Pollinum hefur ekki alltaf verið logn í bæjarmálum eða atvinnumálum Ísfirðinga. Þar eiga útgerð og vinnsla stóran hlut en líklega er þó best að segja að kvótinn margumtalaði leiki stærsta hlutverkið. En þó að mikið hafi gengið á, þá hefur einnig margt jákvætt séð dagsins ljós. Þar á meðal er Íslensk miðlun, saltfiskvinnslur, sushi-verksmiðja sem vonandi fer sem fyrst í gang, og nýstofnað Eignarhaldsfélag Vestfjarða hf., sem ég bind miklar vonir við varðandi nýsköpun í atvinnulífinu, svo eitthvað sé nefnt.

Enn skal getið um eitt, sem mér finnst afar mikilvægt og er í raun ástæða þess að ég skrifa þessa grein: Rétt fyrir áramót var sagt frá góðum árangri frystitogara hér í Ísafjarðarbæ. Í viðtali við framkvæmdastjóra fyrirtækisins kom fram, að togarinn hefði á árinu fiskað fyrir 725 milljónir króna og stefnt væri á enn betri árangur á árinu 2000, kannski 800 milljónir.

Það mundi þýða hásetahlut upp á rúmar 8 milljónir. Af þeirri upphæð færi um ein milljón í bæjarkassann sem útsvar, ef viðkomandi á lögheimili í Ísafjarðarbæ.

Af hverju tek ég þetta dæmi? Jú, ég veit að um borð í þessum tiltekna frystitogara eru menn sem borga útsvar sitt til annarra sveitarfélaga. Mitt sjónarmið er það, að útsvarstekjur af hverjum launþega eigi að renna til viðkomandi bæjarfélags. Ef einhver er á annarri skoðun, þá skil ég hann ekki.

Fyrir jólin var sagt frá Íslandsmeti Arnars frá Skagaströnd, sem fiskaði fyrir rúman milljarð króna. Sveitarstjórinn þar sagði að útsvarstekjurnar af þessu eina skipi næmu um 50% af allri innkomu bæjarkassans. Og ég veit að þar fær enginn skipsrúm nema hafa lögheimili sitt á Skagaströnd.

Þetta er afar mikilvægt, því að bæði fólk og fyrirtæki sem hér eiga lögheimili vilja halda sama þjónustustigi og verið hefur. Það er einfaldlega ekki hægt ef útsvarstekjurnar fara eitthvað annað.

Þess vegna vil ég beina því til fyrirtækja sem hafa starfsmenn sem ekki borga útsvar hér, að þau hvetji starfsmennina til að setjast að hér í Ísafjarðarbæ með fjölskyldur sínar. Ef menn geta unnið hér og tekið laun sín hér, þá hljóta þeir líka að geta búið hér með fjölskyldur sínar.

Með ósk um gleðilegt ár og bjarta framtíð á Vestfjörðum.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi