Grein

Albertína Elíasdóttir.
Albertína Elíasdóttir.

Albertína Elíasdóttir | 12.12.2003 | 17:19Dómur vikunnar í boði DV

Ekki svo alls fyrir löngu, í lok síðustu viku, birtust fréttir í öllum fjölmiðlum landsins um handtöku manns á Patreksfirði sem grunaður var um kynferðisafbrot gegn fjórum ungum drengjum í sama bæ. Stuttu síðar fór að fréttast að viðkomandi einstaklingur hefði unnið náið með ungum börnum m.a. í félagsmiðstöð og sundlaug bæjarins. Maður þessi hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 19. desember en enn er rannsókn málsins á byrjunarstigi og taka ber fram að þessi maður hefur enn hvorki verið formlega kærður eða dæmdur sekur.

Fyrr í vikunni, þriðjudaginn 9. desember, nafngreindi einn fjölmiðill, dagblaðið DV nánar tiltekið, þennan mann sem grunaður er um kynferðisafbrot. Spurningin sem vaknað hefur í kjölfarið er sú hvort að nafnbirting sé siðferðislega rétt, einkum í jafn viðkvæmu máli og umræðir. Þarna kemur hlutlægni fjölmiðla inn í.

Í fyrsta lagi var tilgreint af öllum fjölmiðlum að um væri að ræða mann sem treyst hafði verið fyrir starfi með börnum. Sú staðreynd ýtir vissulega undir það að almenningur dæmir manninn enn harðar, að hann hafi brugðist þessu trausti sem foreldrar leggja á þá einstaklinga sem þeir fela börn sín.

Í öðru lagi hlýtur þessi nafngreining að teljast mjög slæm fyrir fjölskyldu hans sem og hann sjálfan og telja má líklegt að fjölskylda mannsins gæti orðið fyrir aðkasti og reiði almennings vegna tengsla við þennan aðila. Þarna er DV í raun búið að setjast í dómara sætið og dæma viðkomandi einstakling með nafngreiningu hans til ævilangrar skammar, jafnvel þótt enn gæti komið í ljós að þess einstaklingur sé í raun saklaus af þeim gjörðum sem hann er sakaður um.

Á Íslandi hefur ekki tíðkast að nafngreina grunaða aðila í viðkvæmum málum. Þegar það hefur verið gert hefur undantekningalaust vaknað sú spurning, hvort verið sé að brjóta á friðhelgi einkalífsins með nafngreiningu. Í þessu tilfelli var um kynferðisafbrotamann að ræða. Það hefði hugsanlega ekki verið gert ef svo hefði ekki verið, til dæmis ef maðurinn hefði verið tekinn fyrir stórfelldan þjófnað hjá bænum. Skiptir máli hver á í hlut?

Flestir íslenskir fjölmiðlar virðast þó reyna hvað þeir geta til að vera hlutlægir í flestum málum og hafa þeir bætt sig mjög frá því sem áður var, þegar stjórnmálaflokkarnir réðu öllum fjölmiðlum á Íslandi. Um miðja síðustu öld var talað um að Morgunblaðið væri blað Sjálfstæðisflokksins, Tíminn var blað Framsóknarflokksins., Dagblaðið-Vísir átti að heita óháð en þótti þó heldur vera hægri sinnað. Alþýðublaðið var blað Alþýðuflokksins og Þjóðviljinn var blað Alþýðubandalagsins. Á þeim tíma þóttu flokkadrættir dagblaðanna greinilegir og þegar stórviðburðir í þjóðlífinu áttu sér stað kom það enn betur í ljós, þar sem fjölmiðlarnir lýstu sömu atburðunum á mjög ólíka vegu, einkum þó með mismunandi orðum. Í dag eru þessi tengsl ekki jafn áberandi og þau voru áður. Íslenskir fjölmiðlar virðast hafa áttað sig á því að hlutlægni skiptir máli til að þeir teljist vera „alvöru fjölmiðlar“ í alþjóðlegum skilningi. Það er ljóst að í jafn litlu landi og Íslandi getur það reynst erfitt að viðhalda hlutlægni, enda erfitt að fjalla hlutlægt um mál sem talsverðar líkur eru á að tengist viðkomandi fréttamanni á einhvern hátt, hvort sem er í gegnum fjölskyldu eða kunningsskap.

En hvað er hlutlægni? Hlutlægni er í raun sama orðið og hlutlægur eða objective eins og það útleggst á ensku. Það að vera hlutlægur er það að vera ótruflaður af tilfinningum eða persónulegum löngunum. Hlutlægni í fjölmiðlum er í raun aðferð, sem fjölmiðlar eiga að viðhafa, við að afla sér upplýsinga og við túlkun þeirrar þekkingar með því að byggja einvörðungu á raunverulegum staðreyndum og hegða sér í samræmi við almenna rökhugsun. Einnig verður að vera til staðar fullur skilningur á málefninu, heiðarlegur og laus við öll áhrif. Allt er þetta mjög æskilegt en vandmálið er það, að mannverur geta ekki tekið við upplýsingum án þess að vera litaðar af eigin hlutdrægni s.s. fordómum og reynslu.

Það er sem sagt mannlegt að vera hlutdrægur. Er þá hægt að ætlast til þess að fjölmiðlamenn eiga að vera öðru vísi en annað fólk, þ.e. af hverju eiga fjölmiðlar að reyna að vera hlutlægir í umfjöllun sinni? Jú, það er einfalt svar við því, almenningur gerir þá kröfur að þeir sem taka það að sér að flytja fréttir af viðburðum lands og þjóðar, geri það almennilega og gefi réttar og hlutlægar upplýsingar um málin. En getur almenningur gert þá kröfu að fjölmiðlar séu hlutlægir? Ef um er að ræða fjölmiðil sem fyrirtæki, þá getur almenningur sem neytandi augljóslega gert þá kröfu, en hvað ef svo er ekki? Benda má á þá staðreynd að lögð er áhersla hlutlægni í fjölmiðlun í siðareglum fjölmiðla og blaðamanna. Það kemur m.a. skýrt fram í siðareglum Blaðamannafélags Íslands. Því má segja sem svo að þetta sé ekki aðeins mál sem varðar almenning heldur einnig fjölmiðlana sjálfa.

Á sama hátt og við krefjumst þess að vísindamenn séu hlutlægir í rannsóknum sínum, þ.e. að þeir séu ekki búnir að ákveða niðurstöðurnar fyrirfram hljótum við að geta krafist þess að fjölmiðlamenn felli ekki dóm yfir mönnum með hlutdrægri umfjöllun og orðavali sem vísar til sektar viðkomandi aðila og leggi síðan svart ofan á grátt með því að nafngreina viðkomandi aðila, sem enn hefur ekki verið dæmdur sekur af réttum dómsstólum.

Á sama tíma hefur verið deilt um eignarhald fjölmiðla. Deilt er um hvort að það geri fjölmiðlum gott eða slæmt að vera í einkaeign örfárra manna. Ananrs vegar mætti halda því fram, að vegna þess að fjölmiðlar hugsi um ekkert nema gróða, þá birti þeir aðeins fréttir sem þeir telji að séu líklegar til ?vinsælda?. Jafnvel má ganga svo langt að gera ráð fyrir að þeir gangi svo langt að laga fréttina að sínu höfði, til að gera hana annað hvort meira spennandi eða skemmtilegri. Eða eins og Oscar Wilde (1854-1900) sagði: ,,Almenningur hefur óslökkvandi vilja til að vita allt. Nema það sem er þess virði að vita. Fjölmiðlar, vitandi þetta, og hafa sölumannslíkar venjur, fullnægja kröfum þeirra.? Hins vegar mætti þá halda því fram að aðhald neytandans leiði til þess að fjölmiðlar sjái sér hag, einkum fjárhagslegan, í því að birta hlutlægar og vel unnar fréttir. Með því að birta vel unnar fréttir hljóta þeir að gera fjölmiðil sinn trúverðugari og auka þar með „vinsældir“ sínar.

Hlutlægni er takmark sem manneskjur geta ekki gert sér von um að ná, þar af leiðandi ekki fjölmiðlar heldur, allavegana ekki svo lengi sem að það eru manneskjur sem að sjá um að safna og túlka fréttirnar. Hins vegar er eðlilegt að fréttamenn geri sitt allra besta, til að gera sér grein fyrir þessum fordómum sínum og reyna þannig að forðast það að eigin skoðanir hafi áhrif á fréttirnar sem þeir skrifa.

Augljóst er eftir þessar vangaveltur að hætt er við að halda að DV hafi gleymt sér örlítið í æsifréttamennskuni og gleymt hlutverki sínu að flytja hlutlægar og vel unnar fréttir. Burt séð frá því hvort maðurinn á Patreksfirði er sekur eða saklaus þá hefur DV dæmt hann að eilífu og þar með eigin vinnubrögð í leiðinni.

Albertína Elíasdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi