Grein

Hermann Gunnarsson.
Hermann Gunnarsson.

Bréf frá Hemma Gunn | 04.12.2003 | 13:28Vestfirska forlagið hittir í mark

Heilir og sælir kæru vinir og vandamenn fyrir vestan og aðrir aðdáendur vestfirskrar menningar og náttúrufegurðar. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Vestfirska forlagið stefnir markvisst að því að gera jólin ennþá gleðilegri með sínum fjölbreyttu, fyndnu og fróðlegu bókum, sem virðast falla í góðan jarðveg hjá landsmönnum. Já, vestfirska jólabókaflóran vekur verðskuldaða athygli og sumir segja að hún hitti í mark, svo notað sé íþróttamál, en Hallgrímur Sveinsson á Hrafnseyri, fræðimaður og íþróttamaður á árum áður, skoraði einmitt eitt mark á sínum farsæla fótboltaferli, svo annað er greinilega á leiðinni! Þá verður mikill fögnuður í Fellasókn og hver veit nema þá verði Biskupi fórnað fyrir Hrók, alls fagnaðar!
Það bíða fjölmargir í ómældri spennu eftir bókinni um séra Baldur, sem kemur á markað upp úr næstu helgi, færð í letur af sjálfum Hlyni Þór Magnússyni. Sú bók svíkur engan, geislar af gullkornum af öllum stærðum og gerðum. Hér í höfuðborginni fyrir sunnan eru allir að skrýðast jólastressi, sem við Vestfirðingar leiðum hjá okkur, en hér syðra fylgir komu jólanna svo mikill erill að ærir óstöðugan. Hins vegar er hér látlaus bílaumferð í bókabúðir og um hvað er spurt? Jú, mikið rétt, oftar en ekki um bækurnar að vestan! Einhverra hluta vegna þykir nú orðið fínt og flott að geta rakið ættir sínar til Vestfjarða, það finn ég hvar sem ég fer.

Hjá Vestfirska forlaginu kaupir enginn köttinn í sekknum, því við bjóðum upp á góð og óvenjuleg tilboð, sem svíkja engan. Má þar nefna sérstaka gulrót, þar sem þú kaupir eina nýja bók og færð eina af þeim eldri og góðu í kaupbæti. Þá eru sérstök tilboð á ritröðum og öðrum bókum á sprenghlægilegu verði. Rúsínan í pysluendanum er svo auðvitað jólapotturinn okkar, en hann er vægast sagt kraumandi og einstakur. Ef þú kaupir bækur frá Vestfirska forlaginu fyrir aðeins 12 þúsund krónur, þá færðu sérstakt boðskort, sem gildir fyrir tvo. Jú, boðið verður upp á kaffi eða kakó með vöfflum og heilmiklu af vestfirskum eðalrjóma og í eftirrétt eða bragðbæti, huggulegt harðfiskstrengsli frá harðfiskunum á Þingeyri.

Hvar gildir svo þetta boðskort? Auðvitað í burstabænum á Hrafnseyri næsta sumar og vitanlega heilmikið af léttu spjalli! Já, forlagið ætlar að draga sem flesta landsmenn vestur í paradísina og leggja þannig verulega sitt af mörkum til aukningar á ferðaþjónustu í þessu best varðveitta leyndarmáli landsins. Já, hver veit nema ferðamálaverðlaunin fari í Arnarfjörð á næsta ári! Eins og ég nefndi áður, þá fara Vestfirðingar með varúð inn í jólastemmninguna, enda flas ei til fagnaðar, nema hjá þeim sem hafa örlitla flösu.

Hallgrímur biskup í Fellasókn fer að öllu með gát, sást á bifreið sinni á 20 kílómetra hraða á Þingeyri, enda jólaösin mikil, þrír bílar á ferð og allir sluppu klakklaust á leiðarenda.

Jæja kæru vinir, við bara heyrumst svo fljótlega, enda hugur minn vestra í svefni sem vöku.

Ykkar einlægur, Hemmi Gunn.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi