Grein

Björn Hjálmarsson
Björn Hjálmarsson

Björn Hjálmarsson á Hólmavík | 03.12.2003 | 13:31Um vegamál á Vestfjörðum

Það má öllum vera ljóst sem ekið hafa leiðina um Strandir og Djúp (Djúpveg nr. 61) til Vestfjarða að sá vegur er að mestu barn síns tíma. Þessi vegur er bæði þröngur og svo er hann að töluverðum hluta lagður einbreiðu malbiki. Viðhald á þessum vegi er lítið sem ekkert, aðeins sett í mestu holurnar í malbikinu og hann heflaður annað slagið, þó aldrei fyrr en hann er orðinn svo slæmur að fólk er farið að veigra sér við að keyra hann. Einbreitt malbik var ein af þeim aðgerðum sem áttu að friða fólkið. Leggja skyldi einbreitt malbik til þess að kaupa sér frið í nokkur ár. En ef við skoðum dæmið og reynum að átta okkur á því hvað einbreitt malbik færir okkur, þá tel ég að við séum betur sett án þess a.m.k. miðað við núverandi ástand.

Þegar fólk, sem vant er orðið betri vegum, kemur á þessa vegarkafla sem eru með einbreiðu slitlagi er voðinn vís. Í flestum tilfellum víkur það illa vegna þess að það er hrætt við að fara út af malbikinu, sem oft á tíðum leiðir af sér að hinn bíllinn þarf að fara alveg út á ystu nöf til að forðast árekstur. Staðreyndin er sú að stór hluti þjóðarinnar hefur aldrei keyrt á malarvegum og kemur því inn í „annað land“ á Vestfjörðum. Kantarnir á einbreiða malbikinu eru víða brotnir svo að mishæð er frá malbikinu og út á vegöxlina, sem gerir það enn erfiðara að víkja en ella.

Þegar þessir vegir voru lagðir var vörubílaumferð aðeins brot af því sem hún er í dag kannski 2-3 bílar á dag í stað 10-15 núna. Sem kunnugt er lagði annað skipafélagið niður strandsiglingar fyrir nokkrum misserum og „tekur nú allt með trukki“ svo þeirra orðalag sé notað. Afleiðingin af þessu ásamt tíðari ferðum annara flutningafyrirtækja hefur leitt af sér að þessir vegir sem Vestfirðingum og þeirra gestum er ætlað að aka á eru orðnir ónýtir á stórum köflum. Á síðustu þrem mánuðum hafa a.m.k. þrír vörubílar oltið eða lent út fyrir veg á leiðinni Hólmavík-Brú. Í einu skipti var hálka ástæðan en í hinum tveim skiptunum var ástæðan sú að vegurinn var of þröngur, ekki var hægt að mæta öðru farartæki á honum og því lítið annað að gera en að fara út í kant en hvað gerðist þá? Kanturinn gaf sig. Hann þoldi ekki þungann, enda ekki gerður fyrir 45 -50 tonna þunga bíla. Þeir vonandi hafa þó ekki fengið rukkun frá Vegagerðinni fyrir að eyðileggja kanta eins og einn bílstjóri fékk fyrir ekki svo löngu síðan er kanntur gaf sig í Bitrufirði.

Í bæði skiptin sem kanturinn gaf sig voru vörubílarnir að keyra í Bitrufirði. Ég held að menn geti verið almennt sammála um að Bitrufjörðurinn sé versti kaflinn á þessari leið og í rauninni tifandi tímasprengja. Það var sennilega lán í óláni að olíubíllinn sem fór þarna út af í haust var með terpentínu á tönkunum en ekki olíu eða bensín. Þarna er 15-20 ára gamall vegur, lagður einbreiðu slitlagi, svo illa farinn að það er lífshættulegt að keyra hann yfir vetrartímann. Í þetta einbreiða slitlag eru kominn það djúp hjólför að vegurinn nær ekki að ryðja sig af vatni. Þegar frystir myndast þarna iðulega mikil hálka, svo mikil að dæmi eru um að fólk hreinlega keyri ekki þennan veg meðan að vörubílaumferðin er sem mest.

Um síðustu helgi var mikil hálka á þessari leið sem leiddi af sér þrjá útafakstra í Ísafjarðardjúpi. Þegar farið var að inna Vegagerðina eftir því hvers vegna ekkert væri gert til þess að reyna að eyða þessari hálku var svarið þetta skv. Ríkisútvarpinu: „Starfsmaður Vegagerðarinnar á Hólmavík upplýsti að vegurinn um Ísafjarðardjúp og Strandir væri í lágum þjónustuflokki og þar væri óheimilt að nota saltpækil á hálkuna sem væri það eina sem dygði“. Með öðrum orðum þá þýðir þetta að þeir sem aka um þessa vegi eru skv. Vegagerðinni 4. flokks borgarar, því þessi vegur mun vera í þjónustuflokki 4.

Þess má þó geta að þeir fóru af stað og báru saltblandaðan sand og reyndu að skrapa upp almestu hálkuna eftir þessi þrjú slys. Sem betur fer urðu engin alvarleg meiðsl í þessum tilfellum, en þó nokkurt eignatjón þar sem öll ökutækin voru óökufær. Til fróðleiks er hérna stefna Vegagerðarinnar í umferðaröryggismálum eins og hún kemur fram á heimasíðu þeirra www.vegag.is

Stefna Vegagerðarinnar í umferðaröryggismálum

„Vegagerðin hefur ákveðið að fylgja eftir mótaðri stefnu í umferðaröryggismálum sem miði að öruggri umferð á þjóðvegum landsins fyrir alla vegfarendur. Við stefnumótun sína tekur Vegagerðin mið af því að Ísland verði áfram í hópi hinna allra bestu þjóða að því er tekur til umferðaröryggis. Vegagerðin mun vinna að því bæði ein og í samvinnu við aðra að þau markmið náist sem Alþingi ákveður hverju sinni.?

Því miður er það svo að þessi grein er ekkert nema staðlausir stafir. Þar er í mesta lagi átt við einhvern hluta þjóðarinnar sem aldrei þarf að fara um þessa vegi þar sem hættulegast er að aka. Svar Vegagerðarinnar í fréttum RÚV þýðir einfaldlega að líf þeirra sem um þessa vegi keyra er afar verðlítið svo og þeirra farartæki. Nú er það svo að ég þarf stundum að hafa samskipti við bílstjóra sem keyra vörubíla um Norðurland eystra þ.e. frá Húsavík, með ströndinni til Vopnafjarðar. Að þeirra sögn er það nánast undantekningalaust að ef það er hálka þá eru hættulegir vegarkaflar s.s. við einbreiðar brýr sandbornir.

Það vill þannig til að þessi leið, með ströndinni til Vopnafjarðar, er í sama þjónustuflokki og leiðin um Strandir og Djúp og ætti því að fá sömu þjónustu. Til frekari fróðleiks langar mig að vitna aftur í heimasíðu Vegagerðarinnar og nú í svokallaðan gæðastaðal fyrir Þjónustuflokk nr. 4 en það er sá þjónustuflokkur sem báðar þessar leiðir falla undir

Hálkuástand

„Vegur skal hálkuvarinn á mjög varasömum stöðum eða við varasamar aðstæður þegar flughálka kemur upp eða hætta er á að slík hálka geti myndast, þ.e. á þeim stöðum má hálkustuðull aldrei vera lægri en 0,15, þ.e. að stöðvunarvegalengd ökutækis má ekki vera meiri en 100 m sé ekið á 60 km/klst. Yfir snjóþyngsta tíma vetrarins er gert ráð fyrir að snjó- eða íslag með nægjanlegt viðnám geti verið á akbraut, en pakkaðan snjó skal þynna og jafna þannig að hjólför séu hættulaus.“

Samkvæmt heimasíðunni má alveg salta eða sandbera á þessari leið ef aðstæður eru þannig. Flestir sem óku þessa leið núna um helgina voru á því að hún hefði verið flughál og full ástæða til þess að framkvæma þær aðgerðir sem skv. heimasíðu Vegagerðarinnar má framkvæma. Kannski er verið að spara saltið og sandinn svo að menn lendi ekki í því sama og sá sem var skammaður fyrir að nota meira salt og sand í að hálkuverja Bakkaselsbrekkuna og Öxnadalsheiði en sá sem sá um hálkuvarnir fyrir leiðina Akureyri – Dalvík sem er leið er liggur um flatlendi en Bakkaselsbrekkan og Öxnadalsheiði hafa lengið verið talin til erfiðari hluta þjóðvegakerfisins. Þarna var maðurinn skammaður fyrir að eyða of miklu til umferðaröryggis. Hvernig má þetta eiginlega vera?

Ef kort fyrir þjónustuflokka vegagerðarinnar er skoðað sést að meiri hluti dreifbýlisins er í 4. þjónustuflokki. Þó eru stöku staðir á landsbyggðinni sem ná því að komast í flokk 3 sem er skömminni skárra þjónustulega séð heldur en flokkur 4. Svona er ástandið okkar megin á vestfjarðakjálkanum, en það er víst ekkert skárra hinum megin (Vestfjarðavegur nr. 60). Mig langar áður en ég lýk þessu bréfi að spyrja nokkura spurninga sem ég vil gjarnan fá svör við.

• Hversu slæmar þurfa aðstæður á Djúpvegi að vera til þess að framkvæmdar séu þær aðgerðir sem viðhafðar eru annarsstaðar til hálkuvarna?

• Er það lélegt ástand veganna hér sem ræður því hversu oft eða vel þeir eru þjónustaðir?

• Eru líf og limir þeirra sem eiga leið um þessa vegi það lítils virði að það þurfi mörg slys áður en brugðist er við?

Í ljósi síðustu atburða, megum við vænta úrbóta á þessum vegum? Að endingu er rétt að geta frá því að samkvæmt samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir að Vestfirðir komist í viðunandi vegasamband við þjóðveg eitt fyrr en árið 2014 þannig að enn þarf að bíða. Þrátt fyrir þó nokkrar framkvæmdir upp á síðkastið í vegamálum Vestfirðinga skortir heilmikið upp á að málin séu í ásættanlegu horfi. Sjálfur samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson sagði m.a. á framboðsfundi á Hólmavík í vor að ein af forsendunum fyrir þeim álvers- og virkjanaframkvæmdum sem nú eru í gangi á Austurlandi væru bættar samgöngur, enda hefur vegurinn frá Akureyri til Egilsstaða verið endurbyggður á stórum köflum á síðustu árum og er nú mjög nálægt því að standa undir nafni sem þjóðvegur 1. Meðan ástand vegamála er með þessum hætti á Vestfjörðum er ekki nokkur hætta á að fjárfestar leggi í dýrar framkvæmdir sem gætu orðið byggð og vestfirsku samfélagi til heilla.

Ljóst er að norðurlandskjördæmi eystra hefur ekki liðið fyrir að eiga samgönguráðherra þrjú kjörtímabil í röð. Vestfirskir þingmenn mættu taka þá félaga sína að norðan til fyrirmyndar og reyna nú að gerast a.m.k. jafnokar þeirra í vegamálum svo ekki sé beðið um meira. Við erum jú atkvæði hér á Vestfjörðum meðan við komumst slysalaust um þessa vegi sem okkur eru boðnir.

Að lokum vil ég þakka Vegagerðinni fyrir góða og upplýsingamikla heimasíðu og hvet sem flesta til að skoða hana. (www.vegag.is)

Björn Hjálmarsson, íbúi á Hólmavík og áhugamaður um bættar samgöngur þjóðfélaginu til heilla.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi