Grein

Jónas Bjarnason.
Jónas Bjarnason.

Jónas Bjarnason | 25.11.2003 | 18:55Klæðskerasniðnar veiðar

Sveiflur hafa verið í stærð þorskstofnsins alla síðustu öld og sumir telja sig sjá að þær séu á tíu ára fresti. Sem stendur er smátoppur með 7% fleiri hausum á milli ára í vorralli, en með 5% léttari einstaklingum; tveggja ára fiskur er vart til, en hann kemur inn í veiðivísitölu vorið 2005. Þetta er skítur á priki og engin ástæða til aukningar áskilyrts kvótar; ralltölurnar eru mjög grófar vísbendingar; þær sýna alvarlegt frávik í kynþroska; 4 ára þorskur var það 5% í rallinu, en í afla var hann 42%. Þetta er tífaldur munur og um leið sterk vísbending um að kynþroska ungfiskur hafi verið kominn grunnt í hrygningarætlun og kominn út úr togstöðvum.

Menn geta svo sem setið klofvega á smáum öldutoppi og miklast af því; f.v. formaður LÍÚ víkur sáttur frá ábyrgðinni. Eina leiðin til að auka þorskveiðar er að stærsti hluti veiðanna verði með krókum og skilyrtum lagnetum. Togveiðar á botnfiski með aflamarki hafa alls staðar endað með ósköpum og það er ekki almennilegt, að sú vitneskja skuli ekki komin til þeirra, sem eru ráðgjafar eða veiðistjórnendur. Dæmin eru næstum óteljandi í Norður Atlantshafi einu. Hvers vegna er það? Það er alveg ljóst, að skýringin felst í dregnum veiðarfærum, botnvörpu og dragnót. En hvað er það sem gerist og af hverju? Það er sannað mál, að botnskemmdir koma við sögu, en hin skýringin er sú, að netveiðarfæri á uppeldisslóðum valda vali eftir stærð og þegar það gerist í áratugi, er allt í einu komið að hruni; fiskurinn hefur úrkynjast og hrygnir sífellt fyrr og náttúrulegur dauði vex. Þannig komast stofnar allt í einu í þrot; þetta eru ekki vangaveltur því búið er að sýna fram á þetta með tilraunum; með nýjum tölfræðilegum aðferðum hefur verið unnt að aðgreina þann fisk, sem er smár og kynþroska af erfðafræðilegum ástæðum frá öðrum, sem kunna að vera það af einhverjum slembiástæðum.

Kvótinn torveldar skilning

Menn trúðu því að aflamarksstýring myndi fela í sér verndun og leiða til þess að viðhalda mætti sjálfbærum veiðum. Slík viðhorf hafa alls staðar verið tálsýn því botnskemmdir og úrkynjun hafa fylgt í kjölfarið og hrun. Margir hafa verið í góðri trú, en það gerir málið enn erfiðara því margir hafa tekið mikið upp í sig og þá er erfitt að draga í land; þeir sem voru ráðgjafar geta sleikt sín sár.

Það er augljóst að spenna verði á milli manna sem veiða með kvóta og hinna sem engan hafa. Hinir fyrri horfa til hans sem lífeyris og á meðan menn hafa trú á að hann gagnist til fiskverndunar og skömmtunar, eru menn ekkert á því að hann sé tekinn af. Það er mörgum ljóst, að botnfiskveiðum verður ekki stjórnað miðlægt; það hefur alls staðar brugðist og útlitið hér er ekki bjart að óbreyttu. Þetta eru vond tíðindi og óvinsæll lestur. Þó er mikill munur á stjórn á uppsjávarfiski og botnfiski. Það er ekki bara vegna botnsins heldur fremur varðandi erfðaþáttinn. Engin sérstök ástæða er að ætla, að loðnunni vegni illa undir miðstýrðri stjórnun.

Það hefur verið gumað af hagræðingu, sem orðið hafi með kvótakerfinu. Á meðan ekki er tekinn inn fórnarkostnaður vegna minnkunar veiðiheimilda í sjávarbyggðum, verðhruns eigna og fólksflótta, svo ekki sé minnst á tjónið af því að færa kvóta frá krókaveiðum til botnvörpu, með öllum afleiðingum, er tómt mál að skoða ársreikninga stórútgerða og guma af hagræðingu; þetta hefur orðið Háskóla Íslands til nokkurrar skammar.

Í framtíðinni verður að veiða stærsta hluta botnfisksins með krókum og skilyrtum lagnetum. Botnvarpan getur veitt karfa, grálúðu og eitthvað af „þorskaflafiski á djúpslóðum. Gera verður sáttmála við sjómenn og smáútgerðir um dreifstýrðar veiðar á tilteknum veiðisvæðum og um upplýsingaöflun um borð í skipum meðan á veiðum stendur; kalla má það vísindaveiðar með þáttöku sjómanna, útgerða og stjórnvalda; eða „klæðskerasniðnar veiðar“. Framseljanlegur kvóti án skilyrða er hvergi til nema hér; í Noregi eru útgerðaflokkar og svæðisbundin skilyrði fyrir nýtingu á öllum botnfiskvótum, en ekki er heimilt að færa kvóta á milli þeirra. Íslenska leiðin, eða tilraunin, er komin að fótum fram.

Jónas Bjarnason, efnaverkfræðingur.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi